Fara í efni

MINKABÚ MORGUNDAGSINS?

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 22.09.13.
Hjá landanum er flest annað hvort eða - í ökkla eða eyra. Hver man ekki eftir laxeldinu eða minkabúunum. Staðreyndin er sú að laxeldi var góð hugmynd og er enn. Fólk hefur mismunandi skoðun á framleiðslu loðfelda - en bisnishugmyndin er góð. Þangað til allir framkvæma hana - í einu.

Þegar of margir gera það sama um leið þá er hætt við að illa fari. Þessi þanki vaknar varðandi ferðaþjónustuna. Getur verið að þar sé gamalkunnugt æði að renna á landsmenn? Fjölgun erlendra ferðamanna til landsins eykst ævintýralega hröðum skrefum. Hótel spretta upp eins og gorkúlur og margvísleg þjónustustarfsemi að auki.

Flest er gott um þessa uppbyggingu að segja og margt bendir til að verið sé að taka á málum af fullri ábyrgð. Íslandsstofa hefur þannig talað um mikilvægi þess að aðilar sem að ferðaiðnaði standa  móti eins konar þjóðaráætlun byggða á sameiginlegri framtíðarsýn, allir að vinna að sama markmiði,  svo vísað sé í orð Þórðar H. Hilmarssonar, forstöðumanns  fjárfestingarsviðs Íslandsstofu í blaðaviðtali nýlega. Með öðrum orðum, margir að gera það sama en nú samhæft, þannig að menn viti hver af öðrum. Þetta er gott.

Það er líka jákvætt að menn skuli velta því fyrir sér hverjir komi, hvers vegna og í framhaldinu hvað sé hægt að gera til að gleðja hið gestkomandi fólk;  að því líki dvölin og skilji eitthvað eftir sig. Við erum jú að tala um atvinnuveg.  Þessu tengjast síðan vangaveltur um að hægt sé að hafa áhrif á það hverjir sækja okkur heim. Aukning ferðamanna er til orðin vegna þess að Ísland er eftirsóknarvert en líka vegna hins, að landið hefur verið auglýst. Erum við með þessum hætti ef til vill að örva straum ferðamanna hingað til lands um  of? Er eftirsóknarvert að sækjast eftir efnafólki „með kaupgetu" eins og erlent ráðgjafafyrirtæki lagði til í nýlegri skýrslu? Spurningar hrannast upp.

Sjálfum finnst mér það lítt aðlaðandi tilhugsun að sækjast sérstaklega eftir efnafólki. Neysla þessa fólks kann að einhverju leyti að vera frábrugðin því sem gerist hjá hinum efnaminni. Ég er þó ekki  sannfærður um að neylsa efnafólksins skili sér betur til efnahagslífsins. Svo er spurningin hvort hótelin verði í innlendri eigu eða eigu erlendra fjárfesta sem svo andheitt er nú kallað eftir.

Ferðamennska sem atvinnugrein og starfsemi sem henni tengist, býður  upp á mikla möguleika sem getur - ef vel er á haldið - gert Ísland að enn skemmtilegri íverustað með fleiri tækifærum til uppbyggilegrar afþreyingar fyrir okkur öll, Íslendinga ekki síður en gesti okkar.

En ferðamannastraumurinn á sér takmörk. Hann er nú mikill til Íslands sem í augnablikinu býr við veikan gjaldmiðil. Ísland er því ódýrt land nú um stundir. Þetta getur breyst. Krónan getur styrkst og aðstæður breyst að sama skapi í öðrum löndum, sem svo aftur gæti dregið úr straumi ferðamanna hingað til lands.

Sennilega á það við um hótelin eins og minkabúin forðum. Varfærni er góð. Annars gæti sagan endurtekið sig . Hún hefur tilhneigingu til þess.