Fara í efni

HVERS VEGNA VILL RÍKISSTJÓRNIN BEINA ARÐINUM ÚR LANDI?

Útsölu-pólitík
Útsölu-pólitík

Ríkisstjórnin hefur tekið upp hætti forvera sinna, fyrir-hrunverjanna,  og sækir nú ákaft fundi erlendra peninga-spekúlanta  og hvetur þá til að koma til Íslands. Vonandi sé ég ykkur á Íslandi og peningana ykkar, sagði forsætisráðherra vor á einum slíkum fundi í London í vikunni.

Á sama tíma lýsti fjármálaráðherrann því yfir að meiningin væri að reyna að hafa upp í afnám auðlegðarskattsins með því að selja fjórðungshlut í Landsbankanum. Hann orðaði  það ekki svona, en þetta var inntakið.

En hvað þarf til að fjárfestar vilji kaupa hlut í banka? Það er ef vænta má mikils arðs af fjárfestingunni. Fyrir einkavæðingu voru bankarnir aldrei baggi á ríkissjóði. Þvert á móti þá skiluðu þeir arði  og þannig verður það ef vel er haldið á málum í hóflegu bankakerfi. Forgangsmál á undan arðgreiðslum ætti að vera  að þjóna samfélagi sínu. Einmitt það gekk úrskeiðis við einkavæðingu bankanna. Þeir voru herfilega misnotaðir af eigendum sínum og stjórnendum.

En aftur að arðinum. Hvað finnst ríkisstjórninni unnið með því að beina honum i úr landi? Um það snýst þetta mál. Sú erlenda fjárfesting sem er stórtækust er í  íslenskum auðlindum og íslenskum banka með ríkið sem bakhjarl. En löngum hefur hljómað úr fjármálaheiminum krafan að selja. Og helst úr landi. Mantran um erlenda fjárfestingu verður ekki öðru vísi skilin.  
Allt þetta þarf að ræða betur, hvað það er nákvæmlega  sem menn vilja að erlendir stórkapítalistar fjárfesti í og eignist hér á landi. Er til of mikils mælst að fá um þetta umræðu áður en haldið er utan á fleiri sölufundi?

Á Íslandi er allt að springa af fjárfestingarfé - sérstaklega fjármunum lífeyrissjóðanna sem hlaðast upp bíða þess að klomast á beit í fjárfestingarhaga. Á forsíðu Fréttablaðsins í dag segir frá Icelandic Tourism Fund í eigu Icelandic Group, Landsbankans og nokkurra lífeyrissjóða. Landsbréf sér um reksturinn og sjóðstjórinn er Helgi Júlíusson. Hann segir fjárfestinguna 2,1 milljarð og lýsir því sem í vændum er um nýjungar tendgar ferðaþjónustu. Frábært. Til hamingju. Óþarfi að fara til London Sigmundur Davíð. Ræddu við Helga Júlíusson!