Fara í efni

EINS OG TIL ER SÁÐ

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 25.08.13.
Í mínum huga leikur enginn vafi á að gæðastuðull kynslóðanna er mismunandi og að hann taki breytingum frá einum tíma til annars. Einu sinni komu nær allir heimspekingar, sem eitthvað kvað að á Vesturlöndum, frá Grikklandi. Löngum hafa Akurnesingar verið betri í knattspyrnu  en aðrir landsmenn.  Skáklistin hefur risið og hnigið í bylgum á Íslandi.  Bókmenntirnar líka. Og  menningin?  Ég er ekki í vafa um að tíðarandinn hefur verið mis-rismikill og þar með menningin.

Hvað veldur? Hvers vegna sköruðu Grikkir fram úr í heimspeki frá sjöttu öld fyrir Krist og þar til Rómverjar tóku að undiroka þjóðina fjórum öldum síðar? Frelsið eða freslsisvitundin?
Ég held það hafi verið jarðvegurinn. Menning er ræktunarstarf. Allt sem við leggjum rækt við ber ávöxt.Til góðs og einnig til ills. Það er hægt að leggja rækt við lágkúru ekkert síður en við það sem vandað er og gott. „Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu, en slæmt tré vonda.", segir í guðspjalli.

Dæmi um öfluga menningarvitund var Snæfjallaströndin á öndverðri öldinni sem leið. Þá var þar læknir, með búsetu í Ármúla, Sigvaldi Kaldalóns. Það er til marks um menningarbrag og stórhug sveitunga hans þegar þeir gáfu honum flygil til að geta iðkað list sína. Efnin voru lítil en andinn reis hátt. Í sveitinni bjó einnig Hallfríður Guðrún Eyjólfsdóttir, Halla á Laugabóli. Hún orti mörg ljóð sem Sigvaldi gerði sönglög við, Ég lít í anda liðna tíð og Svanurinn minn syngur eru dæmi þar um, sem seint munu gleymast. Og Ave María, Sigvalda gefur Ave Maríum fremstu tónskálda Evrópu ekkert eftir, ef hún ekki er best!
Með öðrum orðum, Snæfjallaströndin var menningarsetur í fremstu röð á heimsvísu; hafði á að skipa framúrskarandi hæfileikafólki og jafnframt - og það er lykilatriði - samfélagi sem hafði skilninginn og veitti stuðninginn. Á Snæfjallaströnd kunnu menn að rækta garðinn sinn!

Fyrr í þessum mánuði greindi Morgunblaðið frá fyrirlestri sem bandaríski vísindamaðuinn Ashley Haase hélt í Háskóla Íslands um framlag Keldna, Tilraunastöðvar Háskólans í meinafræði til heimsvísindanna og þá sérstaklega dr. Björns Sigurðssonar, fyrsta forstöðumannsins. Haase sagði að ef Björn hefði ekki fallið frá um aldur fram hefði hann að öllum líkindum hlotið Nóbelsverðlaunin fyrir rannsóknirnar sínar. Fór Haase mjög lofsamlegum orðum um Björn og framlag Íslendinga í frumrannsóknum.

Sjálfur skrifaði Björn Siguðrsson um mikilvægi þess að rækta sinn garð. Í grein sem biritst eftir hann í Helgafelli um miðja síðustu öld, sagði hann að nokkuð skorti á skilning Íslendinga á mikilvægi vísindarannsókna: „Íslendingar, bókaþjóðin, munu hins vegar láta sér skiljast, að sjálfstætt meninngarlíf væri dautt í landinu, ef aldrei væru gefnar út aðrar bækur en þýddar...Sannleikurinn er sá, að atvinnuvegir vorir munu aldrei fullnægja skyldu sinni, fyrr en að þeim hafa verið lagðir traustir hornsteinar með vísindalegum náttúrurannsóknum á undirstöðu þeirra ..." Með öðrum orðum, vísindalíf er í huga Björns Sigurðssonar ekki síður mikilvægt en menningarlíf.

Lærdómiurinn er þessi: Á öllum tímum býr í mannfólkinu sköpunarkraftur. Verkefnið er að hlúa að eftirsóknarverðum hæfileikum í fari okkar og virkja þá samfélaginu öllu til góðs. Ekki gerist þetta af sjálfu sér. Uppskeran er eins og til er sáð. En þegar jarðvegurinn er vel undirbúinn og rétt er til sáð, lætur árangurinn ekki á sér standa.