VIÐ MOSI

Mosi og ég
Mosi er minn köttur. Ég ætlaði að segja Mosi er minn maður. Það er alla vega það sem ég meina, það er að segja ef Mosi væri maður en ekki köttur þá væri hann minn maður. Því ekki á ég Mosa. Það er hún Anna Björnsdóttir  og hann Halldór Guðmundsson sem eiga hann. Okkur Mosa hefur fallið vel saman frá því ég hitti hann fyrst í heimsókn í Kattholti þar sem hann  var í tímabundinni vist. Þess vegna segi ég að Mosi sé minn  - maður.
Það er ástæða til að vera svolítið upp með sér að vera inn undir hjá Mosa því mér er sagt að hann sé ekki allra! Annars er hann merkilegur köttur. Svo merkilegur að um hann hefur verið skrifuð bók. Þar kemur fram að hann hafi á sínum yngri árum lent í bílslysi á Holtavörðuheiði. Við slysið hafi búrið hans opnast og hann hlaupið út í hjarnið þar sem hann hafi týnst og næstum orðið úti. Þetta var um vetur. Þá getur verið napurt á Holtavörðuheiði.
Reyndar þykir ganga kraftaverki næst að Mosi skuli hafa fundist og komist aftur til byggða eftir fimm vikna hrakningar á heiðinni.
Mosi er bæklaður á öðrum framfæti. Ekki veit ég hvernig það kom til. Kannski hann hafi slasast í svaðilför sinni á Holtavörðuheiði. Kannski ég spyrji þau Önnu eða Dóra næst þegar ég rekst á þau við Ægisíðuna í Reykjavík þar sem þau búa, steinsnar frá Grímshaganum mínum.
Í borgarsamfélagi samtímans er ekki hægt að gefa sér að maður viti mikið um granna sína. Nema náttúrlega þá sem hafa þá sérstöðu að um þá hefur verið skrifuð ævisaga og það í lifanda lífi!
Myndin af okkur Mosa var tekin þegar við hittumst síðast við Ægisíðuna. Í orðsendingu sem ég fékk frá Mosa með þessari ljósmynd segir :

Kæri Ögmundur
Bestu kveðjur með von um að þér gangi allt í haginn - jafnt í kattasmölun sem öðrum brýnum verkefnum í þágu lands og þjóðar. Það er einlæg von mín að Kattholt, bræður mínir og systur þar gleymist ekki í erli dagsins.
Þinn einlægur vinur,
Mosi
p.s. Ég er ekki frá því að það sé svipur með okkur félögunum,
enda erum við æðrulausir og yfirvegaðir báðir tveir.

Fréttabréf