UM NIÐURSKURÐARNEFNDIR

Nidurskurdur
Sannast sagna hrýs mér hugur við umræðu um nýja niðurskurðar/hagræðingarnefnd ríkisstjórnarinnar. Augljóst er að margir binda við hana vonir. Heilbrigðisráðherrann segir - réttilega - að ekki megi skera niður í heilbrigðiskerfinu, þá sé heilbrigðisþjónustunni  í voða stefnt; horfa verði í aðrar áttir, til annarra ráðherra um niðurskurð! Forsætisráherrann tekur undir með heilbrigðisráðherranum og bætir í: Taka verði tillit til heilbrigðisþjónustunnar en einnig til byggðasjónarmiða. Svona er talað nánast í sama vetfangi og sömu ráðherrar afsala ríkissjóði milljörðum króna í skatttekjur.

SUS: Ég um mig frá mér til mín

Og fleiri drættir eru dregnir í þessa mynd. Í Morgunblaðinu birtast frjálshyggju-staksteinar og síðan í dag frjálshyggju- leiðari. Þar er tekið undir með Sambandi ungra sjálfstæðismanna, sem 7. júlí sl. hafi haldið upp á "skattadaginn, daginn sem fólk hættir að vinna fyrir hið opinbera og fer að vinna fyrir sig sjálft."
Hvað skyldi þetta þýða? Svo er að skilja lesandi góður að þegar þú vinnur fyrir sköttum til að fjármagna Krabbameinsdeild Landspítalns, Veðurstofnuna, Hagaskólann, Landhelgisgæsluna, slökkviliðið, vatnsveituna  og lögregluna,  þá ertu samkvæmt þessum kokkabókum ekki að vinna fyrir sjálfan þig heldur einhverja allt aðra, þér fullkomlega framandi.

Hvernig verður heimur hins eigingjarna afmarkaður?

En ef barnið þitt veikist eða mamma þín eða þú sjálfur og nauðsynlegt verður að sækja til framngreindra stofnana hvenær skyldi þjónustan byrja að vera í þína eigin þágu? Og hvenær hættir hún að vera það? Ræðst það af skyldleika við sjúklinginn? Eða ertu bara að vinna fyrir sjálfan þig þegar þú borgar fyrir lækningu við eigin krabbameini? Það er náttúrlega hægt að sjá til þess að þú borgir aldrei fyrir aðra með því að láta greiða við innganginn að Melaskólanum eða Grensásdeild Landspítalans. Þannig er hægt að tryggja að hugsjónir ungra sjálfstæðismanna rætist og að enginn hætta sé á að þeir þurfi nokkurn tímann að borga fyrir aðra manneskju.

Rándýrar einkalausnir á kosntað skattgreiðenda og sanngirni

Formaður Sjálfstæðisflokksins sagði í þætti, sem við báðir vorum í fyrir síðustu kosningar, að sem dæmi um sparnað á Landspítalunum mætti nefna augnsteina-aðgerðir.  Þær væri hægt að flytja alfarið út fyrir veggi spítalns. En hver greiðir einkapraksís-læknunum spurði ég, að sjálfsögðu Tryggigastofnun með skattfé og síðan sjúklingurinn sjálfur. Þett er hugsun sem Guðlaugur Þór Þórðarson, nefndarmaður í  niðurskurðar/hagræðingarnefndinni nýju og fyrrum heilbrigðisráðherra þekkir vel til. Nú er að sjá hvort augnsteina-lækningarnar verði á meðal hagræðingarlausna. Við fengum að kynnast mörgum slíkum í valdatíð Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma með dyggilegri aðstoð Framsóknar.
Það er þarna sem niðurskurðar/hagræðingarnefndin verður að hrollvekjandi tilhugsun. Svona nefndir eru nefnilega iðulega notaðar til kerfisbreytinga í þágu einkahagsmuna.

"Hagrætt" inn í atvinnuleysi?

Ég staldraði einnig við þegar ég heyrði haft eftir forsætisráðherranum í dag að verkefnið væri að fækka störfum hjá hinu opinbera. Það fylgdi ekki frásögninni  hvar það væri - hverjum ætti að segja upp. Bara fækka störfum.  Er í lagi að skapa atvinnuleysi á meðal opinberra starfsmanna - bara rétt sisvona? Og mér er spurn, er of margt starfandi fólk í skólum landsins, á sjúkrahúsum, í lögreglunni, hjá dómstólunum, hjá sýslumannsembættunum, í fangelsunum, hjá Veðurstofu Íslands eða hjá Vegagerðinni? Er ekki verkefnið að efla þessa þjónustu? Ætti verkefnið ekki að vera að draga úr misskiptingunni í þjóðfélagina þannig að þau minnki við sig sem lifa í vellystingum á kostnað almennings. Því miður boða fyrstu skref ríkisstjórnarinnar í skattamálum ekki neitt gott í þessu efni.

Þörf á stöðugu endurmati

 Öll þessi opinbera þjónustustarfsemi þarf að vera í stöðugu endurmati og endurmótun. Stundum þarf að fjölga og stundum má fækka starfsfólki. Opinbera þjónustu þarf stöðugt að laga að nýjum þörfum og draga þarf saman seglin þar sem þörf er ekki lengur fyrir hendi eða hægt að sinna verkefnum á hagkvæmari máta. Í öðrum tilvikum þarf að þenja út og efla þjónustu til hagsbóta fjölskyldum og atvinnurekstri. Mörg slík áform voru í burðarliðnum á síðasta kjörtímabili og sum þegar komin til framkvæmda. Þegar best tókst til var allt gert með hægðinni og af kunnáttu. Hraði og óðagot var ævinlega ávísun á hrakfarir. Um hvort tveggja þekki ég mörg dæmi, vel heppnaða endurskipulagningu annars vegar og hins vegar brotlendingu þar sem endurskipulagning  skilaði ekki tilætluðum árangri - hafði jafnvel lamandi og eyðileggjandi áhrif.

Samnefnarinn var vankunnátta!

Sjálfur hef ég átt sæti í niðurskurðar/hagræðingarnefnd af þessu tagi. Það var í tíð fyrri ríkisstjórnar. Embættismaður úr fjármálaráðuneytinu stýrði  för, vopnaður excel-skjali og reglustriku. Nefndarmenn áttu eitt sameiginlegt: Vankunáttu um viðfangsefni sitt. Umræða og tillögur voru oftar en ekki  í samræmi við þá grundvallarstaðreynd. Þetta kann að hljóma óvæginn dómur. En nákvæmlega svona hafa aðfarirnar iðulega verið í gegnum tíðina gagnvart opinberri þjónustustarfsemi og verst hefur framganga stjórnmálamanna  verið þegar þeir hafa látið stjórnast af þröngsýnni hugmyndafræði eins og raunin var síðari hluta tíunda áratugar síðustu aldar og á fyrsta áratug hinnar tuttugustu og fyrstu aldar. Og viti menn, þá var stjórnarmynstrið hið sama og nú!

Fylgst verður með

Formann hinnar nýju nefndar, Ásmund Einar Daðason þekki ég af góðu einu. En heldur óttast ég að ýmisr séu að þvo hendur sínar með því að færa ákvarðanir um niðurskurð og kerfisbreytingar yfir á hans herðar og annarra nefndarmanna. Innanborðs í nefndinni eru að vísu staðfastir einkavæðingarsinnar sem ég óttast að víli ekki fyrir sér að skera niður til að "hagræða"  yfir í einkarekstur. Nefndarmenn mega hins vegar vita að fylgst verður með störfum þeirra, ekki aðeins velferðarkerfinu til varnar heldur líka pyngju skattborgarans.
Markaðslausnir pennigafrjálshyggjunnar hafa nefnilega reynst skattborgaraunum þungur baggi auk þess sem rándýrar einkalausnir valda óbærilegu misrétti í samfélaginu.

Fréttabréf