ÞORGEIR LJÓSVETNINGAGOÐI OG FJÖLMENNINGIN

Birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 28.07.13.
MBL -- HAUSINNÁrið eitt þúsund var Þorgeiri Ljósvetningagoða Þorkelssyni falið að finna lausn á deilum kristinna manna og heiðinna á Íslandi. Þorgeir, sem var lögsögumaður á þessum tíma var leiðtogi heiðinna manna en Síðu-Hallur fór fyrir kristnum mönnum. 
Þorgeir mun eiga að hafa lagst undir feld og ígrundað málið og að lokum komist að þeirri niðurstöðu að Íslendingar skyldu hafa einn sið og ein lög, taka upp kristni en leyfa sitthvað sem tíðkast hafði í heiðnum sið - en þó á laun.
Þorgeir hafnaði með öðrum orðum fjölmenningu og sagði að farsælast væri að við byggjum við sömu trúarbrögð og að um okkur giltu ein lög. Annað leiddi til ófarnaðar:"Það mun verða satt, er vér slítum í sundur lögin, að vér munum slíta og friðinn."
Þorgeir hafnaði hins vegar ekki umburðarlyndinu. Gleymum því ekki og þar með því að andstaðan við fjölmenninguna var ekki meiri en svo að allt átti að líðast, en í leyni!
Þetta var fyrir rúmum þúsund árum. Í stað þess að tala um einn sið er nú talað um ágæti þess að hafa marga siði og fáir gagnrýna að margir trúarsöfnuðir séu starfandi í landinu, það er helst að menn rífist um það hvar múhameðstrúarmenn megi reisa moskur sínar.
Þrátt fyrir allt umburðarlyndið í formúlu Þorgeirs Þorkelssonar þá gengur hún ekki lengur upp enda barn síns tíma. Ef hins vegar trúarbrögðin væru eins ráðandi í þjóðlífinu og fléttuðust inn í valdapólitík í þeim mæli sem þau gerðu fyrr á tíð, og gera vissulega enn víða um lönd, þá held ég að engu samfélagi væri það sérstaklega til góðs að þjóðir skiptist í fylkingar á grundvelli trúarbragða. Reynsla sögunnar talar að því leyti máli Þorgeirs.
Fyrir mitt leyti er ég ekki ósáttur við að hafa þjóðkirkju, sem eins konar kjölfestu í trúarlífi landsmanna, eða samtök á borð við Siðmennt sem gegnir svipuðu hlutverki fyrir þau sem leita veraldlegra svara við lífsgátunni og vilja halda hópinn. En jafnframt eiga allir að sjálfsögðu að vera velkomnir inn á þann vettvang trúar og siðfræði sem er í samræmi við eigin óskir og sannfæringu.
Trúarbrögð verða vart aðskilin öðrum þáttum menningarinnar. Þegar íslenska kirkjan vildi hafa mannréttindi af samkynhneigðum kom fljótlega á daginn að það kæmist hún ekki upp með til lengdar, einfaldlega vegna þess að hugmyndir samfélagsins um mannréttindi leyfðu það ekki. Ef kirkjan vildi vera þjóðkirkja yrði hún að laga sig að breyttum hugmyndum þóðfélagsins um mannréttindi. Sama gilti þegar íslamskur klerkur hafði uppi svæsið fordómatal um samkynhneigða nú alveg nýlega þá fékk hann að reyna hvernig Íslendingar eru þenkjandi um þennan þátt mannréttindamála.
Í skjóli fjölmenningar verða mannréttindabrot vonandi aldrei umborin. Í þeim skilningi viljum við hygg ég flest, einn sið; einn mannréttinda-sið. Við gætum þess vegnn kallað þann sið íslenska menningu.
Þótt ég vilji fjölbreytileika og fagni utanaðkomandi betrumbótum til að þróa menningu okkar og skilning á mannréttindum fram á veginn þá tel ég ég engu að síður til góðs að þjóðfélagið leggi rækt við sameiginlega samnefnara á sem flestum sviðum; og að saman þróum við síðan menninguna, samofna úr gamalgrónum menningararfi og nýjum þráðum sem aðkomumenn leggja til með sér.
Sem sagt, þótt einmenningarhugsun Ljósvetningoðans gangi ekki lengur upp þá eru engu að síður á henni fletir sem ber að virða og þeir snúa að mikilvægi þess að við myndum heildstætt samfélag þar sem við öll erum í góðu kallfæri hvert við annað í menningarlegu tilliti - en virðum jafnframt mismunandi sjónarmið, trú og siði. Þetta hygg ég að sé þegar allt kemur til alls í anda Þorgeirs Ljósvetningagoða. Nema nú þarf ekkert að vera í leyni.

Fréttabréf