Á AÐ STYTTA NÁM EÐA LENGJA?

Birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 14.07.13.
MBL - LogoEkki kann ég svarið en hef það á tilfinningunni að það kunni að vera erfiðara að svara þessari spurningu fyrirsagnarinnar en virðist við fyrstu sýn.
Ég sé ekki betur en það gangi í einhvers konar tískusveiflum hvernig fólk vill svara spurningunni. Það hljómar vel í eyrum að vilja stytta nám. Það þykir sýna vilja til að nýta tímann vel, drífa alla út á vinnumarkað sem allra fyrst þannig að unga fólkið geti í snarhasti farið að búa til verðmæti eða ef sá hæfileiki er ekki fyrir hendi að braska og hafa það gott, græða á daginn og grilla á kvöldin, einsog einhvern tímann var sagt. Er þetta kannski málið?
Eða hvað? Mín kynslóð, óháð hvar hún stendur í pólitík, virðist á einu máli um hve gott það hafi verið að hafa fengið tækifæri til að vinna á sumrin með skólanámi, það hafi gefið innsýn í víddir tilverunnar og margbreytileika atvinnulífsins og þjóðlífsins. Þetta var löngu fyrir daga grillsins. Og á þessum tíma áttu vesalings braskararnir ekki sjö dagana sæla. Úthrópaðir.
Mér er það í fersku minni, þótt nokkuð sé um liðið, að koma til náms við Edinborgarháskóla og heyra af félögum mínum í öðrum háskólum vítt og breitt um heiminn. Nánast alls staðar vegnaði landanum vel. En hvers vegna? Var það vegna þess að við höfðum setið svo lengi á skólabekk? Vegna þess að skólarnir okkar hafi verið betri? Vissulega voru þeir ágætir, en nei, það var vegna þess að við vorum eldri en unga og óreynda fólkið sem var að koma inn í bresku háskólana á þessum tíma. Við vorum þroskaðri! Og það var árafjöldinn og lífsreynslan sem aldurinn hafði fært okkur, sem þarna skipti sköpum.
Ef þetta er rétt, þá þarf að staldra við áður en hrapað er að ákvörðunum um lengd á námi upprennandi kynslóða með tilheyrandi styttingu á sumarhléum og enn pakkaðri námskrá. Með öðrum orðum, spyrja þarf  hvort rétt sé að ræða um lengd náms einvörðungu með hliðsjón af magni  fræðslu sem megi innbyrða á sem skemmstum tíma og sparnaði við að stytta nám  eða hvort horfa þurfi til þroska og lífsreynslu sem árin færa í gjöfulu umhverfi menntastofnana.
Bestu ár ævi minnar voru námsár mín. Ég mun ævinlega standa í þakkarskuld við samfélag mitt sem gerði mér kleift að stunda nám á þrítugsaldri. Þá var ég að ganga í gegnum mótunarár lífs míns. Það var ekki lítils virði að fá að vera í örvandi umhverfi á slíku tímakeiði í lífinu. Ekki ætla ég að bera þetta saman við grillstund að lokinni góðri gróðalotu.
Auðvitað hefur margt breyst í samfélaginu frá því mín kynslóð var að alast upp. Það er ekki  lengur auðhlaupið að því að skapa ungu fólki sumarstarf í samfélagi sem  er búið að einangra sig frá árstíðunum og hætt að vera tarna-atvinnulíf hinna löngu sumarnátta; og afi og amma á sveitabænum fyrir löngu komin á Grund og Eir, þrotabú bankanna jafnvel komin með ráðningarvaldið á Brú, Bolastöðum og í Maríuhvammi. Engin ömmubörn og unglingar á þeim bæjum.
Margt er breytt. En varla við sjálf að upplaginu til. Þurfum við ekki að hugsa þessi mál saman. Ég held að við séum flest á svipuðum nótum. Látum ekki hina póltísku lausnagerðarmenn eina um hituna. Þeir horfa á kostnaðinn í dag og á morgun. En þetta er ekki  spurning um stundarsparnað heldur eitthvað miklu meira. Þetta snýst um hjartsláttinn í samfélaginu.

Fréttabréf