Fara í efni

ÖGMUNDUR, JÓAKIM OG HANS

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 02.06.13.
Það er við hæfi að ávarpa sjómenn í dag enda þetta þeirra dagur. Sjómannadagurinn mun fyrst hafa verið haldinn hátíðlegur árið 1938. Hann er jafnan fyrsti sunnudagur í júní nema þegar hvítasunnu ber upp á þann dag, þá er hann næsti sunnudagur þar á eftir. Frá því á öndverðri öldinni sem leið mun það hins vegar hafa tíðkast að halda sérstakar sjómannamessur í kirkjum áður en skip héldu til veiða eftir vetrarlægi.
Öll eigum við einhverjar tengingar við sjóinn og sjómennsku en þó mismiklar. Mín tengsl liggja fremur inn til landsins en til sjávarins þótt ekki þurfi ég langt að leita til að finna tengingar út á sjó.

Þannig stundaði  afi minn Ögmundur, bóndi og ökumaður í Hólabrekku á Grímsstaðaholti í Reykjavík, útræði í Skerjafirði og eitthvað út á Faxaflóann. Hann réri til grásleppu- og rauðmagaveiða á vorin til að draga björg í bú þótt það væri aðeins brot af hans lífsbjargarviðleitni. Þetta minnir hins vegar á að flest býli nærri sjávarsíðunni reiddu sig að einhverju leyti á sjávarfangið fram undir miðja síðustu öld. Þótt við værum þá í þann veginn að ganga inn í borgarsamfélagið hafði ekki enn verið tekin upp félagsleg verkaskipting í þeim mæli sem síðar varð. Að mörgu leyti sakna ég grásleppukallanna við Ægisíðuna þegar þeir komu að landi með aflann við mikla hrifningu og spenning okkar krakkanna. Ég er fæddur um miðja síðustu öld en það er ekki lengra síðan en svo að Ægisíðan í Reykjavík var enn vettvangur sjávarútvegsins. Þannig mátti þá enn sjá fisk breiddan út til þurrkunar upp af austanverðri Ægisíðunni.

Önnur tenging við sjóinn úr minni fjölskyldu er konu minnar megin og minnir okkur á samfélag fyrri tíðar. Langafi hennar, Jóakim, var fæddur og uppalinn á Búðum á Snæfellsnesi en þar var þá mannmargt enda stutt í kistur hafsins að sækja lífsviðurværið. Á Búðum var heilsársbúseta en í verstöðvunum utar á sunnanverðu Snæfellsnesinu var aðeins búseta á vertíðum, til dæmis í Dritvík, einni helstu verstöðinni, þaðan sem 600 til 700 manns réru til fiskjar þegar mest  var. Hákarlaveiðar voru stundaðar frá Búðum fram á fjórða áratug síðustu aldar og kann það að hafa valdið því að Jóakim, hákarlaformaður, hélt norður á Strandir með dætur sínar tvær eftir að hann hafði misst konu sína. Við Húnaflóann stundaði hann sjóinn og hélt jafnframt sinni litlu fjölskyldu í hlýjum föðurfaðmi.

Þriðja tengingin sem ég nefni er við togaraútgerðina. Ég hlustaði ungur á frásagnir af Hans, móðurbróður mínum, sem á sínum yngri árum var háseti á togara hjá frænda sínum, Snæbirni, bróður þeirra Sigvalda Kaldalóns og Eggerts Stefánssonar óperusöngvara. Þegar Hans ætlaði að hverfa til annarra starfa kom Snæbjörn skipstjóri á fund ömmu minnar, Ingibjargar í Hólabrekku, og bað hana lengstra orða að beita sér fyrir því að Hans sonur hennar hætti ekki á sjónum. „Hann hefur svo góð áhrif á starfsandann um borð, hann er söngvinn og alltaf í góðu skapi. Það skiptir ekki litlu máli að hafa slíka menn í áhöfn á skipi", sagði Snæbjörn skipstjóri - sem svo aftur minnir okkur á að á skipum - ekki síst þeim sem halda lengi úti - eru lítil sjálfstæð samfélög. Það á við um þessi litlu samfélög eins og okkar stóra, að andinn skiptir máli.
Stóra samfélagið í litlu samfélögunum, á bátunum og skipunum, á mikla skuld að gjalda - nú sem fyrr. Við þurfum að hlúa að sjómennskunni og sýna henni ræktarsemi og virðingu.
Það er gott að hugsa til hinnar sögulegu rótar. Til hamingju með daginn!