Fara í efni

HVAÐ GERA HEIMDELLINGAR NÚ?

DV -
DV -

Birtist í DV 19.06.13.
Ungir Sjálfstæðismenn í Heimdalli og fleiri félögum eru iðnir við að mótmæla skattheimtu hvers konar.  Þau hafa verið með sérstakan skattadag og skattaklukkur að ógleymdri mannréttindabaráttunni um skattskrána. Þau telja það brot á helgum mannréttindum að sýna undir kennitölum kjaramisréttið í landinu. Ungt Sjálfstæðisfólk - það er að segja þau sem hafa haldið uppi merkjum flokksins , eflaust rangt að alhæfa um allt ungt fylgisfólk Sjálfstæðisflokksins -  hefur verið óþreytandi að berjast gegn samfélagsþjónustu sem fjármögnuð er úr ríkissjóði. En þarna er að sjálfsögðu samasemmerki á milli; skattheimtunnar  og  fjármögnunar þjónustunnar.

Ragnheiður Elín vill að „neytandinn" borgi

Öðru máli gegnir ef neytandinn borgar. Samkvæmt peningafrjálshyggjunni er neytindi hver og einn sem notar eða neytir vöru eða þjónustu. Neytandinn  í skólanum er kallaður skólanemi á máli okkar hinna og neytandinn á heilbrigðisstofnuninni er kallaður sjúklingur samkvæmt okkar tungutaki.
 Nú hefur Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðhrerra ferðamála,  sagst vera staðráðin í því að rukka aðgang að íslenskri náttúru  með því að láta neytanda Geysis borga við hliðið og þá væntanlega einnig við Gullfoss. Og hvað með Þingvelli, þjóðgarðinn?  Hlýtur sá sem ætlar að neyta heils þjóðgarðs ekki  að þurfa að borga?
Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækja í ferðaþjónustu, hefur tekið undir sjónarmið ferðamálaráðherrans og sagt þetta löngu tímabært.
Nú er það svo  að öll erum við sammála um að bæta þarf aðstöðu við ferðamannastaði á Íslandi og hefur víða verið gert stórátak í því efni á undanförnum árum - þrátt fyrir tekjuhrun ríkisins í kjölfar efnahagskollsteypunnar.  Fyrri ríkisstjórn sem vildi byggja á jöfnuði lagði hins vegar áherslu á að forðast beina gjaldtöku enda á henni margir annmarkar fyrir utan það hve óviðurkvæmilegt það er að neyða fólk til að greiða aðgangseyri að fossi.

Saga af fossi

Ég hef stundum sagt þá sögu að fyrir mörgum árum var ég á ferðalagi í Wales. Á dagskrá var að skoða foss nokkurn sem ég er löngu búinn að gleyma hvað heitir. Hitt man ég að ég þurfti að greiða aðgangseyri til að fá að sjá hann. Ekki var þetta svo há upphæð að hún skipti neinu verulegu máli en ég man samræður okkar ferðafélaganna eftir að hafa skoðað fossinn. Við vorum á einu máli um að þetta hefði verið óttaleg spræna.
Ekki man ég hvort við höfðum á orði að fossinn hefði ekki verið peninganna virði. Hitt er ljóst að eitthvað óeðlilegt þótti okkur hafa átt sér stað. Undur náttúrunnar ættum við öll en rukkunin hefði fært okkur inn í manngerðan heim viðskipta.
 
Er þetta stefna nýrrar ríkisstjórnar?

En þær Ragnheiður Elín Árnadóttir og  Erna Hauksdóttir eru á öðru máli. En er ríkisstjórnin öll sammála þeim og þingmenn stjórnarmeirihlutans?
Varla er þetta einkamál þeirra einna, ráðherrans og framkvæmdastjórans? Svona  stór stefnumarkandi ákvörðun krefst umræðu í þjóðfélaginu almennt á meðal okkar sem berum ábyrgð á Íslandi. Þetta kemur okkur öllum við.
Fróðlegt verður að fylgjast með Heimdalli. Hvað gerir fólkið sem tímir ekki að greiða skatt í rekstur Landspítalans þegar innheimtuhliðin verða opnuð á Þingvöllum?
Það er ekki að undra að ríkisstjórnin aflétti nú í gríð og erg sköttum af stórútgerðinni og ferðaþjónustunni - hún ætlar að láta okkur borga skattinn beint. En það samræmist að sjálfsögðu hugmyndafræði peningafrjálshyggjunnar að hver og einn borgi fyrir sína eigin neyslu  - ekki neyslu annarra. Hinn heilbrigði borgi ekki fyrir hinn sjúka og milljónerinn greiði ekki aðgang að Geysi fyrir þann sem litlar tekjur hefur í gegnum ríkissjóð. Allir borgi beint  upp úr misbólgnum buddum sínum. Þannig að ég spái því að Heimdallur þegi.