Fara í efni

UM SÉRHAGSMUNI OG ALMANNAHAGSMUNI

MBL  - Logo
MBL - Logo

Helgarpistill fyrir Morgunblaðið 07.04.13.
Umræða um Reykjavíkurflugvöll hefur blossað upp að nýju. Annars vegar eru þau sem vilja nýja flugstöð í stað þeirrar gömlu sem er komin til ára sinna og að flestra dómi úr sér gengin. Hins vegar eru þau sem vilja flugvöllinn á brott eins fljótt og auðið er og því aðeins tjalda til einnar nætur með bráðabirgða úrbótum. Í því sambandi er gjarnan vísað til Hólmsheiðarinnar á austasta hluta borgarlandsins.
Sá hængur er á að flugfólk almennt telur Hólmsheiði slæman kost sem flugvallarsvæði. Nýlega birti Isavia, sem rekur flugvelli okkar landsmanna, skýrslu þar sem Hólmsheiðinni er fundið flest til foráttu. Reyndar er ekki nóg með að svæðið sé talið henta illa undir flugvöll. Allar líkur eru taldar vera á því að flugvöllur á Hólmsheiði stæðist hreinlega ekki alþjóðlegar kröfur.
Ekki ætla ég hér að velta upp kostum og ókostum við Hólmsheiðina sem flugvallarstæði. Mig langar hins vegar til að víkja að því sem kallaðir hafa verið sérhagsmunir og almannahagsmunir í þessari umræðu.
Annað veifið sjást nefnilega greinar þar sem segir að sérhagsmunir flugsins verði að víkja fyrir almannahagsmunum Reykvíkinga, sem vilji fá sitt land og engar refjar. Reyndar bendir fátt til að hugur Reykvíkinga standi nú  almennt í þessa átt en höldum okkur við spurninguna um almannahagsmuni og sérhagsmuni.
Vissulega má til sanns vegar færa að hagsmunir innanlandsflugsins séu afmarkaðir og sér á parti. Þó er erfitt að slíta þá úr samhengi við hagsmuni samgöngukerfis landsmanna almennt og margvíslega öryggishagsmuni, svo sem að hafa flugvöll nærri fullkomnum sjúkrahúsum og miðstöðvum stjórnsýslu og viðskipta í landinu. Slíkir hagsmunir eru almennir og geta varla með góðu móti flokkast undir sérhagsmuni.
En hvað þá með hina meintu almannahagsmuni að losna við flugvöllinn og ráðstafa svæðinu undir byggð? Sala byggingarlandsins kemur vissulega sjóðum Reykvíkinga vel og  það kann að vera fólgin í því hagkvæmni að byggja miðlægt og þétt. En eru það þá bara hreinir almannahagsmunir eða fléttast þarna inn sérhagsmunir?
Sú freisting er nefnilega fyrir hendi hjá borgaryfirvöldum hverju sinni að reyna að selja landið þannig að sem mest byggingarmagn rúmist á hverjum fermetra. Það gefur borgarsjóði mest í aðra hönd og byggingaverktökunum einnig. Þannig skapast sú hætta að sérhagsmunir byggingaverktaka ráði för; að borgin fari að skipuleggja sig út frá þröngum peningasjónarmiðum og þá einnig beint og óbeint hagsmunum byggingageirans. Auðvitað viljum við að verktökum í byggingariðnaði vegni vel en gróðahagsmunir mega hins vegar ekki stjórna skipulagi borga.
Þegar fjármálaráðuneyti og Reykjavíkurborg undirrituðu kaupsamning - skilyrtan kaupsamning um sölu á landi ríkisins í Skerjafirði,  var ekki vitað um endanlegt verð. Það myndi ráðast af því hvað fá mætti fyrir landið og þá væntanlega byggingarmagninu sem talið væri unnt að koma fyrir. Þetta er umhugsunarefni og nátengt þessum vangaveltum.
Eitt er kýrskýrt í mínum huga. Aftengja verður með öllu sérhagsmuni byggingaverktaka og hagsmuni borgarbuddunnar. Þegar þetta tvennt nær saman þá er voðinn vís.