ÞURFA NEYTENDASAMTÖKIN AÐ BLANDA SÉR Í KOSNINGABARÁTTUNA?

Sú var tíðin að neytendasamtök litu á það sem helsta viðfangefni
sitt að halda auglýsendum við efnið. Þetta var á sjöunda áratugnum.
Þá var neytendafrömuðurinn Ralph Nader upp á sitt besta í
Bandaríkjunum og neytendasamtök víða um heim að sækja í sig veðrið.
Ef auglýsendur villtu um fyrir neytendum með fölskum skilaboðum var
skorin upp herör gegn þeim og iðulega var þeim stefnt fyrir
dómstóla.
Þetta er löngu liðin tíð en stundum áður hef ég hvatt til þess að
neytendasamtök fari að líta á þetta sem sitt höfuðviðfangsefni, að
sjá til þess að neytendur séu ekki blekktir í auglýingum.
Gaman og alvara
Fyrirsögnin á þessum pistli er sett fram í gamni og
alvöru, kannski meira í gamni. Því ekki ætla ég Neytendasamtökunum
að gerast dómari í pólitískri baráttu.
En öllu gamni fylgir nokkur alvara. Það er háalvarlegt þegar
stjórnmálaflokkar villa um fyrir kjósendum. Sjálfstæðisflokkurinn
auglýsir nýja tíma um leið og hann boðar afturhvarf til sinnar
fyrri stefnu. Þá stefnu neitar hann síðan að ræða. Er þetta
heiðarleg framganga? Að sjálfsögðu ekki. Þessar auglýsingar
standast ekki skoðun.
Framsóknarflokkurinn ætlar að lækka húsnæðisskuldir um 20% sem hann
segir muni takast með því að skattleggja eða ná með öðrum hætti
fjármun fjárfesta sem eiga í þrotabúm bankanna. Þetta segir flokkur
sem fyrir fáeinum mánuðum neitaði að styðja að þrotabúin yrðu færð
undir gjaldeyrishöft en það eru fyrst og fremst þau sem skapað hafa
íslenska ríkinu vígstöðu. Áður höfðu Sjálfstæðisflokkur og Framsókn
barist fyrir afnámi gjaldeyrishafta þegar í stað! Vildu með öðrum
orðum svipta okkur vopnum okkar!!! Þetta er eins mótsagnakennt og
hugsast getur.
Útskýringar af skornum skammti
En gott og vel. Hér erum við stödd. En þá er að spyrja hvað
nákvæmlega meinar Framsóknaflokkurinn með loforðum sínum. Frosti
Sigurjónsson er eini frambjóðandinn sem hefur reynt að svara þessum
spurningum og á hann lof skilið fyrir það. Sigmundur Davíð,
flokksformaður, hefur talað skýrt um markmiðin en óskýrt um
útfærslur. Aðrir eru þöglir, brosa bara og drepa umræðunni á
dreif.
En svör Frosta eru engu að síður óljós. Og það sem verra er,
peningarnir, sem lofað er, eru engan veginn í hendi, því fer
fjarri. ALLIR flokkar á þingi hafa íhugað með hvaða hætti unnt sé
að ná til samfélagslegra nota erlendu fjárfestingarfjármagni sem að
uppistöðu til hefur verið fest í þrotabúunum af hálfu vogunarsjóða
og peningaspekúlanta. Lilja Mósesdóttir var ötull talsmaður
þess að hér yrði búið til tvenns konar gengi krónunnar, gengi fyrir
almenning og almenn viðskipti annars vegar og síðan gengi fyrir
útgöngukrónurnar hins vegar. Önnur leið er að skattleggja peningana
vliji menn taka þá úr landi. Þá hefur verið rætt um um kaup og sölu
á þrotabúunum með milligöngu ríkis og hugsanlega að hluta til
lífeyirssjóða til að raungera hjá þessum aðilum hagnað, sem síðan
mætti nýta almenningi til hagsbóta.
Allt þetta rætt í ríkisstjórn
Vandinn er sá að gjaldeyrir fyrir útgöngukróur af þessu
tagi ekki til! Hér hefur því verið horft til þess hvort
lífeyrissjóðir sæju sér hag í því að flytja erlendan gjaldeyri inn
og hafa til reiðu fyrir útgöngukrónur á hagstæðum prís en
lífeyrissjóðirnir eiga sem kunnugt er drjúgar fjárfestingar í
útlöndum.
Allt þetta hefur verið rætt í ríkisstjórninni af mikilli alvöru og
er ENGINN munur á ásetningi okkar sem þar sitjum og annarra
hvað varðar ásetning um að gæta almannahagsmuna.
Víðerma stjórnmálamenn
Munurinn er hins vegar sá að við lofum ekki upp í ermina á
okkur. Það er kostur. Af því þurfum við hins vegar að súpa seyðið
að því er ráða má af skoðanakönnunum. Gömlu hrunflokkarinr,
flokkarnir sem vísuðu okkur út í fen efnahagsöngþveitis, lofa nú að
nýju gulli og grænum skógum. Skuldarar eiga að fá niðurfellingu,
almannatryggingar mestu innspýtingu fyrr og síðar, sjúkrahúsin,
lögreglan, skólarnir, allir eiga að fá ítrustu óskum fullnægt - og
svo koma líka skattalækkanir. Með öðrum orðum, minni tekjur
ríkissjóðs um leið og auka á útgjöld hans.
Upp í ermina? Þarf ekki að taka víðerma stjórnmálamenn til
skoðunar? Ef ekki hjá Neytendasamtökunum. Þá hjá öðrum,
stjórnmálamönnum, fjölmiðlum. Erum við að standa okkur nógu
vel?