Fara í efni

SIGUR SKYNSEMINNAR Í FLUGVALLARMÁLINU

Ólafur F. Magnússon
Ólafur F. Magnússon
Ólafur F. Magnússon, fyrrverandi borgarstjóri  í Reykjavík lét aldrei glepjast á þensluárunum til að láta undan þrýstingi verktaka, sem ásældust Vatnsmýrina til að byggja þar og braska. Hann hefur alla tíð verið stuðningsmaður Reykajvíkurflugvallar. Þessi afstaða er samtvinnuð hagsmunum íbúa á höfuðborgarsvæðinu sem fyrrverandi borgarstjóri hefur margoft gert grein fyrir.
Í morgun skrifar fyrrverandi borgarstjóri athyglisverða grein í Morgunlblaðið þar sem hann fjallar um nýgert samkomulag um Reykjavíkurflugvöll. Grein sína nefnir hann: Sigur skynseminnar í flugvallarmálinu.
Ég leyfi mér að birta greinina hér að neðan:

Sigur skynseminnar í flugvallarmálinu

Það samkomulag, sem Ögmundur Jónasson gerði við borgarstjórn Reykjavíkur fyrir nokkrum dögum, tryggir nánast að Reykvíkingar og aðrir landsmenn búi við öruggar og greiðar samgöngur langt fram á þessa öld. Hún tryggir jafnframt að ein fáránlegasta tillaga sem litið hefur dagsins ljós í skipulagssögu borgarinnar er í raun slegin út af borðinu. Þessi skoskættaða tillaga sem gerir ráð fyrir risastórri manngerðri tjörn og þéttri íbúðabyggð í Vatnsmýri í stað flugvallar lýsir þekkingar- og skilningsleysi höfunda hennar á mannlífi í landinu yfirleitt. Allavega tekur hún ekkert mið af nauðsyn öruggra og greiðra samgangna innan höfuðborgarinnar og milli hennar og landsins alls. Þetta varðar heilbrigðismálin, öryggismálin, náttúruvá og aðra neyð.

Hugsum lengra en eitt kjörtímabil

Ég minni á, að aðeins eru liðnar rösklega tvær aldir frá móðuharðindunum og á 13. öld lauk fimm alda gostímabili á sprungunni, sem liggur frá Reykjanesi að Hengilssvæðinu. Á því tímabili rann hraunið, sem nú prýðir Hafnarfjörð og Garðabæ. Hins vegar munu líkur á hættulegu öskufalli frá þessu eldvirka svæði vera hverfandi litlar. Framtíðarkynslóðum á höfuðborgarsvæðinu stafar meiri ógn af því, að alltof langt hefur verið gengið á dýrmætan hitavatnsforða og óvíst hvort hann dugi til langrar framtíðar. Þess vegna er óskiljanlegt, að í nýsamþykktri rammaáætlun ríkistjórnarinnar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma eru Eldvörp á Reykjanesi sett í nýtingarflokk, á meðan hagkvæmir og umhverfisvænir virkjanakostir í Þjórsá eru settir í biðflokk. Það er staðsetningu flugvallarins að þakka, að á svæðinu frá Reykjavíkurtjörn að Skerjafirði eigum við enn mikið af ósnortinni og fagurri náttúru í Vatnsmýrinni. Þar á meðal er votlendið norðan við Norræna húsið, sem fæðir lífríki tjarnarinnar. Göngustígurinn, sem nær frá Ægisíðu að Elliðavatni, veitir aðgengi að samfelldu útivistarsvæði og lífríki Elliðaánna, sem er á heimsmælikvarða.

Ótrúlegur leiðari í Fréttablaðinu

Í leiðara Fréttablaðsins þriðjudaginn 23. apríl undir fyrirsögninni »Frekur flugvöllur«, tekur Ólafur Þ. Stephensson, ritstjóri, undir bókun Gísla Marteins Baldurssonar, borgarfulltrúa, þar sem öll röksemdafærsla er í molum. Í bókuninni segir: »að flugmálayfirvöld hefðu verið treg til að viðukenna að flugvöllurinn í Vatnsmýri uppfyllti ekki tilmæli Alþjóðaflugmálastofnunarinnar um öryyggismál, en kröfur þeirra um fellingu elsta hluta skógarins í Öskjuhlíð sem nú vakna upp á ný og umfangsmikil lendingarljós á Ægissíðunni færa Reykvíkingum heim sanninn um að flugvöllurinn er of frekur í umhverfi sínu í miðborg Reykjavíkur.« Þessi ummæli dæma sig sjálf. Sömuleiðis ummæli Ólafs um að verið sé að gæta hagsmuna innanlandsflugsins á kostnað útivistar og náttúru í Reykjavík. Eins og fram kemur í Morgunblaðsviðtali við Þórólf Jónsson, garðyrkjustjóra Reykjavíkurborgar, eru hávaxin grenitré felld á afmörkuðu svæði í Öskjuhlíð vegna flugöryggis. Trén skaga upp í svonefndan hindranaflöt austur/vestur brautarinnar og skapa því hættu í aðflugi og flugtaki.

Öll rök mæla með flugvelli í Vatnsmýri

Flugöryggis- og fjárhagsleg rök mæla gegn flutningi Reykjavíkurflugvallar. Það hefur legið fyrir í langan tíma. Allt síðasta kjörtímabil barðist ég fyrir því að Reykjavíkurflugvöllur yrði festur í sessi. Einn á móti hinum 14 borgarfulltrúunum. Mikill áfangi hefur nú náðst. Fullnaðarsigur er þó ekki unninn fyrr en hin veruleikafirrta skoska verðlaunatillaga þvælist ekki lengur fyrir góðu skipulagi og mannlífi í Reykjavík. Það er og verður mér ávallt óskiljanlegt hvers vegna vel gefið fólk, sem telur sig þjóna almannahagsmunum getur ánetjast slíkri kreddu og nánast gert hana að trúarbrögðum. Það er í raun ótrúlegt að Ögmundi Jónassyni hafi tekist að vísa þessu fólki á rétta leið. Hafi hann þökk fyrir.

Sjá: http://www.mbl.is/mm/mogginn/blad_dagsins/netgrein.html?art_id=158936