Fara í efni

SAMKOMULAG Í HÖFN

Samningur við LB
Samningur við LB

Það var dapurlegt að sjónvarpsstöðvarnar báðar skyldu vera svo önnum kafnar í gær að fá ekki fest á mynd þegar björgunarbátar Slysavarnafélagsins Landsbjargar sigldu heiðurssiglingu inn í höfnina í Reykjavík í tilefni þess að undirritað var samkomulag milli Slysavarnafélagsins Landsbjargar og ríkisins um myndarlegt átak til viðhalds og endurbóta björgunarskipa félagsins næstu árin. Þetta var tilkomumikil sjón og vakti upp hugrenningar um hve þjóðin stæði í þakkarskuld við allt það fórnfúsa fólk sem kemur að hjálparstarfinu í landinu og hve mikilvægt það er að búa vel að því og sýna því tilhlýðilegan sóma.

Undirritunin fór fram um borð í Sæbjörgu, skipi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, og var margmenni samankomið til að fagna þessum atburði. Um er að ræða árlegt 30 milljón króna framlag næstu átta árin til viðhalds og endurnýjunar á björgunarbátaflota Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Samningurinn byggir á þingsályktunartillögu sem allir flokkar á þingi stóðu að en fumkvæðið átti Jón Gunnarsson, alþingismaður, sem á árum áður var forseti Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Hörður M. Harðarson, formaður Slysavarnarfélagsins Landsbjargar lýsti mikilli ánægju með þessi ánægjulegu tímamót og tók ég sem fulltrúi ríkisstjórnar og Alþingis undir þau orð.
Sjá nánar á vef Innanríkisráðuneytisins: http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/28525