Fara í efni

RÁÐSTEFNA UM STRÍÐ, FRIÐ OG MANNRÉTTINDI

Ráðst. í Hörpu apríl 2013
Ráðst. í Hörpu apríl 2013

Mig langar að vekja sérstaka athygli á ráðstefnu sem fer fram í Norðurljósasal Hörpu í Reykjavík dagana 11.-12. apríl. Á ráðstefnunni, sem hefst á morgun, verður fjallað um alþjóðleg viðbrögð við glæpum og grimmdarverkum gegn mannúð. Ráðstefnan fer fram á ensku og ber heitið „Human Rights Protection & International Law: The Dilemma of Restraining and Promoting International Interventions".

Að henni standa Innanríkisráðuneytið og Institute for Cultural Diplomacy í Berlín í samvinnu við EDDU - rannsóknarsetrið við Háskóla Íslands. Erlendir og innlendir stjórnmálamenn, fræðimenn, lögfræðingar og fulltrúar félagasamtaka munu ræða viðfangsefnið og þær pólitísku, lagalegu og siðferðilegu spurningar sem það vekur.

Fjallað verður um hugtakið „verndarábyrgð" („Responsibility to Protect") frá sjónarhóli mannréttinda, alþjóðalaga og alþjóðastjórnmála og m.a. leitað svara við þeirri spurningu hvort og undir hvaða kringumstæðum unnt sé að réttlæta alþjóðlega íhlutun til að koma í veg fyrir eða stöðva alvarlegustu glæpi sem varða samfélag þjóðanna - glæpi á borð við hópmorð, glæpi gegn mannúð og stríðsglæpi.

Þá verður sjónum beint að einstaklingsbundnum áhrifum stríðsátaka, með áherslu á konur, og enduruppbyggingarferli áð loknu stríði. Í því sambandi verður gerð grein fyrir alþjóðlegum skuldbindingum - eins og m.a. stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem og til sögulegra og samtímalegra dæma um alvarlega glæpi gegn óbreyttum borgurum og viðbrögð „alþjóðasamfélagsins" við þeim.

Ráðstefnan fer, sem fyrr segir, fram á ensku. Allir eru hjartanlega velkomnir. Nánari upplýsingar um dagskrá og fyrirlesara  má sjá á vefsíðu Innanríkisráðuneytisins: http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/28501/ http://www.innanrikisraduneyti.is/media/frettir-2013/Human-Rights-Congress--Program.pdf

Sjá fréttir af fyrri ráðstefnum: 
https://www.ogmundur.is/is/greinar/hvenaer-og-hvernig-a-althjodasamfelagid-ad-beita-ser-gegn-hernadarofbeldi
https://www.ogmundur.is/is/greinar/institute-of-cultural-diplomacy
http://www.culturaldiplomacy.org/academy/index.php?Minister-OEgmundur-Jonasson