LÝÐRÆÐI Á NÝRRI ÖLD

Beint lýðræði
Frá Iðnófundinum: Í ræðustól fundarstjórinn, Inga Sigrún Atladóttir, bæjarfulltrúi í Vogum

Árangur af starfi okkar í Innanríkisráðuneytinu til að efla beint lýðræði er nú smám saman að koma í ljós. Íslykillinn - nafnspjaldið á netinu -  sem Þjóðskrá Íslands kynnti í liðinni viku er til dæmis liður í því að unnt sé að láta rafrænar kosningar fara fram en frumvarp þar að lútandi var samþykkt í ríkisstjórn fyrir þinglok. Nú er unnið hörðum höndum að því að fullgera reglugerð um framkvæmd frumvarpsins.
Allt þetta starf á sér að sjálfsögðu langa rót en hvað mig sem innanríkisráðherra snertir þá skilaði sameiginleg nefnd Innanríkisráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem ég setti til starfa undir forystu Þorleifs Gunnlaugssonar, mér niðurstöðu um að áherslu skyldi leggja á rafræna þjónustu og rafrænar kosningar. Í þessum anda hefur Samband íslenskra sveitarfélaga unnið af mikilli festu og áhuga um skeið.
Þetta nefndarstarf fæddi síðan af sér aðra nefnd, einnig undir forystu Þorleifs Gunnlaugssonar, sem síðan beindi sjónum að tilteknum úrlausnarefnum sem tengjast þessu sviði, þ.e. beinu lýðræði, rafrænum kosningum og opinni gátt inn í hinn rafræna heim hjá hinu opinbera. Í allri þessari vinnu hefur af minni hálfu verið horft til Þjóðskrár Íslands sem þungamiðjunnar í þróun á þessu sviði enda hef ég lagt áherslu á að hverfa frá fyrri hugmyndum um einkavæðingu auðkennanna. Auðkenning, hvort sem það eru vegabréf, nafnskírteini eða aðgangskort að lýðræðinu hljóta að teljast til innstu innviða samféalgsins.
Einn er sá aðili sem hefur vakið mikla aðdáun hjá mér og það er Flensborgarskóli. Fjölmiðladeild skólans hefur sérhæft sig á þessu sviði og hefur Innanríkisráðuneytið átt í afar góðu samstarfi við hana um að miðla fundum og ráðstefnum sem ráðuneytið hefur staðið að um lýðræðismálin.
Hér er slóð á einn slíkan fund um beint lýðræði sem haldinn var í Iðnó fyrir stuttu síðan: http://www.netsamfelag.is/index.php/lydhraedhi-og-stjornmal/beint-lydhraedhi-i-idhno/272-beint-lydhraedhi  

Frásögn af fundinum: http://ogmundur.is/annad/nr/6614/

....og um Flensborgarskóla: http://ogmundur.is/annad/nr/6630/ 
   

Fréttabréf