ÍSLYKILLINN OG FRAMTÍÐARÞJÓÐFÉLAGIÐ

Birtist í Garðapóstinum í apríl 2013.
Garðapósturinn -rétt stærðNýlega var kynntur nýr veflykill sem Þjóðskrá Íslands hefur þróað til að tryggja einfalda og örugga leið til auðkenningar inn á vefi og hlotnaðist mér sá heiður að opna hann formlega. Lykillinn nefnist Íslykill og má nota hann til innskráningar á einstaklingsmiðaðar síður hjá stofnunum, sveitarfélögum, félagasamtökum og fyrirtækjum sem nýta sér innskráningarþjónustu Ísland.is.

Haft hefur verið á orði að Íslykillinn sé eins konar nafnskírteini á netinu og samanstendur hann af kennitölu og leyniorði. Allir sem eiga lögheimili á Íslandi og hafa kennitölu geta fengið Íslykil svo og Íslendingar búsettir erlendis. Enda þótt netið sé okkur öllum opið, þá viljum við ekki að allir hafi aðgang að öllum upplýsingum um okkur, til dæmis í heilbrigðiskerfinu. Einnig þarf fólk að geta gert grein fyrir sér við þátttöku í kosningum svo þær séu ekki misnotaðar. Í báðum tilvikum mun Íslykillinn koma að notum.  

Tilkoma Íslykilsins er mikilvægur áfangi í rafrænni þjónustu og auknu lýðræði. Vitað er að íbúakosningar með hefðbundnum hætti gætu orðið þungur fjárhagslegur baggi á sveitarfélögunum. Þess vegna gekkst ég fyrir því að samþykktar voru lagabreytingar á Alþingi sem gera sveitarfélögum kleift að láta fara fram íbúakosningar með rafrænum hætti og að kjörskrá verði rafræn. Nú er unnið að smíði reglugerðar með þessum lögum auk þess sem við erum að leita í smiðju annarra þjóða um þróun rafrænna kosningakerfa.

Jafnframt þessum lagabreytingum og þessum tæknilegu skrefum sem við erum að stíga hefur verið unnið að vitundarvakningu um mikilvægi rafrænnar þjónustu til að gera hana markvissari og jafnframt opnari og aðgengilegri. Þessari vitundarvakningu hefur verið beint að notendum en einnig veitendum þjónustu. Þá höfum við í innanríkisráðuneytinu staðið fyrir ótal fundum og ráðstefnum um kosti beins lýðræðis hvort sem er hjá ríki eða sveitarfélögum.

Hvers vegna allt þetta? Vegna þess að þetta er lykillinn að skilvirkara og lýðræðislegra þjóðfélagi. Það er framtríðarþjóðfélagið Því má segja að Íslykillinn sé lykillinn að framtíðinni.
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra

Fréttabréf