Fara í efni

GUÐMUNDAR- OG GEIRFINNSMÁL: VATNASKIL

DV -
DV -

Birtist í DV 12.04.13.
Mál sem tengdust hvarfi tveggja manna, Guðmundar Einarssonar og Geirfinns Einarssonar, á áttunda áratug síðustu aldar hafa hvílt sem mara á þjóðinni. Reglulega hefur rannsókn þessara mála verið gerð skil í opinberri umfjöllun og sakborningar hafa stigið fram og sagt sína sögu. Í lok síðasta mánaðar kom út skýrsla starfshóps sem ég skipaði haustið 2011 undir formennsku Arndísar Soffíu Sigurðardóttur, lögfræðings og lögreglukonu, til þess að fara í saumana á þessum málum og þá einkum á rannsókn þeirra. Á fréttamannafundi sem boðað var til þar sem starfshópurinn gerði grein fyrir niðurstöðum sínum voru, auk fjölda fréttamanna, mættir ýmsir aðstandendur þeirra einstaklinga sem flæktust - eða öllu heldur voru flæktir - inn í þessi mál.  


Úr penna Illuga
 
 



Illugi Jökulsson rithöfundur var viðstaddur fréttamannafundinn og komst svo að orði í frásögn sinni::  „...Ógleymanlegast verður þó að hafa staðið þarna og hlýtt á þessa afgerandi niðurstöðu að viðstaddri Erlu Bolladóttur og ýmsum aðstandendum sakborninga - þá sérstaklega börnum Sævars vinar míns Ciesielskis. Ég segi það bara hreint út að ég fékk beinlínis tár í augun af hryggð yfir því að hann skyldi ekki hafa fengið að lifa þessa stund. Þegar ég kynntist Sævar fyrst var hann nýsloppinn úr fangelsi og sýndi mér næstum feimnislega skjalabunka sem hann var byrjaður að safna í. „Ég ætla nefnilega að sanna sakleysi mitt," sagði hann. Hann náði ekki að lifa það sjálfur, ekki frekar en Tryggvi Rúnar Leifsson, annar sakborninganna sem látinn er. En að börnin þeirra og aðrir ástvinir fái loksins að upplifa svolítið réttlæti, það er ósegjanlega dýrmætt. Loksins er þessari gömlu martröð létt af þjóðinni."  
 


Undir þetta hafa margir tekið, enda skýrsla starfshópsins bæði vönduð og afdráttarlaus.


Hvað nú?
 
 



Fólk spyr nú um framhaldið. Starfshópurinn tefldi fram þremur valkostum.  Fyrir það fyrsta hefur ríkissaksóknari nú þegar fengið umrædda skýrslu og gögn sem henni liggja til grundvallar og metur embættið sjálfstætt hvort ástæða sé til að nýta þá heimild sem ríkissaksóknari hefur til að óska eftir endurupptöku til hagsbóta fyrir dómfelldu. Í öðru lagi gætu dómþolar nú freistað þess að fara fram á endurupptöku í ljósi þeirra upplýsinga sem fyrir liggja í skýrslu starfshópsins. Í þriðja lagi væri sú leið fær að fara með málið fram á Alþingi og að þar yrðu sett lög um endurupptöku málsins í ljósi sérstöðu þess. 

 

Ábendingar Arndísar Soffíu 


Ákvörðun um endurupptöku var þar til nýverið í höndum Hæstaréttar sjálfs en sú breyting var gerð með lögum sem tóku gildi í febrúar síðastliðnum að sérstök endurupptökunefnd tekur nú þessa ákvörðun auk þess sem nýju lögin mæla fyrir um það að niðurstaða nefndarinnar og rökstuðningur fyrir henni skuli birt opinberlega. Arndís Soffía hefur hins vegar bent á þann möguleika að ganga lengra í þessum efnum til að tryggja réttaröryggi fólks. Til að mynda mætti líta til Noregs en hjá norsku endurupptökunefndinni, sem er fyrirmynd þeirrar íslensku, starfi rannsakendur sem hafa m.a. það hlutverk að kanna hvort skilyrði til endurupptöku séu fyrir hendi. Norska nefndin beri þannig sjálf ábyrgð á því að afla allra nauðsynlegra gagna og aðeins í undantekningartilfellum væri þeim sem beiðast endurupptöku skipaðir talsmenn eða lögmenn. Hér á landi þarf sá sem óskar endurupptöku hins vegar að sýna fram á að þau skilyrði séu fyrir hendi. Þessar ábendingar eru mikilvægar og þarf að taka til umræðu.

 

Það sem breyttist 


En hver eru þau vatnaskil sem orðið hafa með vinnu starfshópsins um Guðmundar- og Geirfinnsmál?  Í fyrsta lagi deilir enginn um að nefndin skilar af sér mjög vandaðri vinnu. Nefndin fékk sér til fulltingis Gísla Guðjónsson prófessor sem er einn fremsti réttarsálfræðingur heims. Gísli hefur verið fenginn til ráðgjafar í erfiðum sakamálum og þá sérstaklega til að meta áreiðanleika játninga. Hefur hann starfað sjálfstætt en einnig með öðrum, þar á meðal Jóni Friðriki Sigurðssyni, prófessor í sálfræði við Háskólann í Reykjavík, en hann átti einnig sæti í starfshópnum. Í öðru lagi, og er það nátengt fyrra atriðinu, þá er niðurstaða starfshópsins afdráttarlaus. Staðhæft er að játningarnar sem dómar Hæstaréttar voru byggðir á, hafi verið hæsta máta óáreiðnalegar. Gísli Guðjónsson segir nánast engin dæmi þess að einangrun hafi verið beitt í eins ríkum mæli við rannsókn sakamála og gert var í þessu máli. Með langvinnri einangrun hafi fangarnir játað því sem upp á þá var borið til þess að forðast áframhald á slíkri vist. Í þriðja lagi, og vegur það þyngst þegar talað er um vatnaskil í þessu máli, þá hefur verið tekið skref til að létta farginu af öllum hlutaðeigandi einstaklingum og fjölskyldum þeirra.  

 

Samfélagið tekur við sér

Hvað sem líður dómum sem upp voru kveðnir, þá geta fjölskyldurnar nú andað léttar. Samélagið tekur við sér. Margt fólk á um sárt að binda vegna þessara mála og nefni ég þá aðstandendur þeirra Guðmundar Einarssonar og Geirfinns Einarssonar sem aldrei hefur spurst til. Það hlýtur að vera þungbært að heyra stöðugt til þeirra vísað í tengslum við þessi erfiðu mál. Þá má það aldrei gleymast að enn fleiri einstaklingar voru einnig hnepptir í langvinna einangrun sem ætla má að hafi valdið þeim miklum skaða. Að hreinsa upp þessi ljótu mál er þjóðþrifaverk. Því verki verður að ljúka að fullu.