BEÐIÐ EFTIR NÝJUM INNANRÍKISRÁÐHERRA?
Birtist í Sunnudagasblaði Morgunblaðisins 21.04.13.
Ég
fékk það ónotalega á tifinninguna þegar kröfum kínversks auðmanns,
sem vildi festa kaup á víðfeðmu landi á Grímsstöðum á Fjöllum, var
endanlega vísað frá undir lok síðasta árs, að hann ætlaði að bíða
átekta. Enda kom það á daginn að hann sagði að málið yrði tekið upp
að nýju með vorinu. Hann þurfti ekki að botna hugsun sína með því
að minna á að þá hefðu kosningar farið fram á Íslandi og óskandi að
ný stjórn væri tekin við, alla vega nýr innanríkisráðherra.
Til voru þeir sem mislíkaði stórlega þegar ég sem
innanríkisráðherra neitaði að verða við óskum hans um að fá
undanþágu frá lögum um erlenda fjárfestingu og heimila kaup á
Grímsstöðum á Fjöllum. Í kjölfarið var þá reynt að finna göt í
löggjöfinni til að smjúga inn um. Allt kom hins vegar fyrir ekki og
var málaleitan kínversku fjárfestingasamsteypunnar
hafnað.
En nú bregður nýrra við. Fréttir herma að sömu aðilar ásamt
íslenskum samverkamönnum séu aftur að fara á kreik. Það er ekkert
undarlegt. Kosningar eftir viku og skoðanakannanir spá
innanríkisráðherranum falli í hans kjördæmi.
En vill almenningur selja stórt landsvæði á borð við Grímsstaði á
Fjöllum út fyrir landsteinana? Ég tel svo ekki vera. Ég held að
þjóðin almennt vilji að eignarhald á landi haldist innan landsteina
Íslands. Ég held líka að ríkur vilji sé til þess í landinu að halda
eignarhaldi þjóðarinnar allrar yfir auðlindunum, sjávarauðlindinni,
jarðvarmanum, fallvötnunum og vatninu.
Það er ekki síst fyrir þær sakir að eignarhald á grunnvatni er -
illu heilli - tengt einkaeignarrétti að það skiptir miklu máli hver
á landið. Það skiptir máli innan hvaða samfélags sá réttur hvílir.
Okkar samfélagi en ekki austur í Kína, í Bandaríkjunum eða
Evrópusambandinu.
Er þetta þjóðernistal? Þetta tal snýr að samfélagshagsmunum og
einnig að nálægð eignarhaldsins. Hvað fyrra atriðið snertir þá er
mergurinn málsins vitanlega sá hvort eignarhaldið verði háð
duttlungum markaðs- og samkeppnishagsmuna annars vegar eða háð
hagsmunum samfélagsins hins vegar. En það er líka munur á því hvort
þú eignast land sem er hluti af tilveru þinni eða fjárfesting á
fjarlægri slóð, hvort landið sé þeirra sem á því dvelja eða í eigu
fjárfesta úti í heimi.
Ég hef stundum vísað til þess að á máli Grænlendinga ber land
þeirra heitið Kalaallit Numat, sem þýðir land þeirrar þjóðar sem
landið byggir. Mennirnir með seðlabúntin og stórveldin sem hugsa
samkvæmt langtímaáformum, renna nú hýru auga til þessa auðæfaríka
lands. Ég á Grænlendingum þá ósk til handa að þeir gleymi aldrei
hvað land þeirra heitir og þar með að landið og auðæfin eru fyrir
samfélagið og eiga að þjóna því en ekki peningavaldinu og
stórveldahagsmunum, hvort sem er í Peking, Moskvu, Brussel
eða Washington.
Að sama skapi þurfum við að vera vakin og sofin yfir því að gæta að
hagsmunum lands og þjóðar. Það er nefnilega auðvelt í landi sem
byggt er fámennri þjóð að missa tökin ef peningaauður fær að ráða
för. Boðinn var milljarður í þrjú hundruð ferkílómetra á
Grímsstöðum á Fjöllum. Og margir vildu selt hafa. Hvað hefðu þeir
hinir sömu þurft að fá fyrir Mývatnssveitina? Eða Ísland
allt?
Núbóa þessa heims er víða að finna.
Það þarf að gæta Íslands.