Fara í efni

BJÖRT FRAMTÍÐ SJÁLFSTÆÐISFLOKKSINS

Bjort framtid XD
Bjort framtid XD

Nú í aðdraganda kosninga árið 2013 boðar Sjálfstæðisflokkurinn enn á ný einkavæðingu í heilbrigðisþjónustunni. Í ályktun landsfundar flokksins segir: „Nýta á kosti fjölbreyttra rekstraforma í heilbrigðiskerfinu ..." Þetta er gamalkunnugt dulmál fyrir einkavæðingu. Ekkert er byltingarkennt við það í sjálfu sér að Sjálfstæðisflokkurinn tali fyrir einkalausnum í velferðarþjónustunni. En hreinskilnin er vissulega þakkarverð og gott að fá að vita þetta fyrir kosningar en ekki eftir þær. Sjálfstæðisflokkurinn segist vilja  auka heilbrigðisþjónustuna en án þess að hækka skatta. Þvert á móti eigi að lækka skatta. Það þýðir að Sjálfstæðisflokkurinn vill láta sjúklingana borga beint.

En hvaða stjórnmálaflokkur skyldi vilja stíga þennan dans með Sjálfstæðisflokknum? Svarið fengum við þegar Björt Framtíð kynnti stefnu sína. Þar kom fram að sá flokkur vilji stefna að fjölbreytilegri rekstrar- og þjónustuformum í velferðarþjónustunni og í skólakerfinu. Þetta er einsog tekið upp úr pólitískri orðabók Sjálfstæðisflokksins.

Þarna tala Sjálfstæðisflokkurinn og Björt framtíð á svipuðum nótum.
Nú er bara að sjá hvort Sjálfstæðisflokkurinn verði hress og skemmtilegur í kosningabaráttunni, en það mun ráða miklu um óskastjórnarmynstur Bjartrar framtíðar. Í Fréttablaðinu sl. helgi er haft eftir öðrum leiðtoga flokksins að „hegðun annarra flokka í kosningabaráttunni muni ráða því með hverjum Björt framtíð vilji helst starfa."

En hvað vilja kjósendur? Skyldu þeir helst vilja stjórnmálamenn sem tala mjúklega og eru skemmtilegir og hressir? Þarf ekki að fá fram hvað allir skemmtilegu stjórnmálmennirnir hyggjast fyrir á næsta kjörtímabili komist þeir til valda? Hvernig þeir ætla að halda á þeim málum sem mestu skipta samfélagið?

Kjósendur eiga heimtingu á að vita hvert vegferðinni er heitið. Sjálfstæðisflokkurinn hefur talað skýrt. Björt framtíð hefur nú einnig opnað sig. Ef þessum flokkum vegnar vel og þeir reynast hvor öðrum ástúðlegir í kosningabaráttunni og að kosningum loknum munu þeir eflaust sameinast um einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu og að koma á laggirnar prívatskólum.

Núverandi stjórnarflokkar vilja fara aðra leið: Efla félagslegt heilbrigðiskerfi sem fjármagnað er með skattgreiðslum þeirra sem eru heilbrigðir og færir um að vinna en ekki með sjúklingagjöldum.

Íslenska heilbrigðiskerfið fékk þá einkunn hjá OECD fyrir fáeinum árum að hér væri hverri krónu varið á hagkvæmari átt en gerðist með öðrum þjóðum. Við höfum hins vegar gengið of langt í að innleiða bein gjöld sjúklinga í kerfinu. Það leiðir til mismununar sem á ekki að líðast. Markmið okkar á að vera að vinda ofan af þessari öfugþróun en ekki ganga enn lengra í ranglætisátt.

Björt framtíð setur það í kosningaáherslur sínar að lykilatriðið sé „ekkert vesen". En kosningar til Alþingis snúast ekki um mjúkmælgi og skemmtilegheit, heldur einmitt um að færa fram í dagsljósið hvert stefna skal að loknum kosningum. Og ef einkavæða á heilbrigðisþjónustuna þá mun það ekki aðeins kalla á mikið „vesen", heldur líka aukinn ójöfnuð og óhagræði að hætti hægri manna. Um þetta verður kosið í vor.