Fara í efni

AÐ TILBIÐJA KVIKMYNDAVÉL

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 10.03.13.
Í kosningum í mörgum ríkjum Bandaríkjanna tíðkast að gefa kjósendum kost á að taka afstöðu til aðskiljanlegra mála. Þannig gátu kjósendur í Kaliforníu tekið afstöðu til þess í kosningum árið 2008 hvort banna ætti hjónabönd samkynhneigðra. Þetta dró nokkurn dilk á eftir sér. Samkvæmt kosningalögum í ríkinu skal greina frá öllum styrkjum umfram eitt hundrað dollara. Svo var gert í þessu tilviki. Tóku þá einhverjir sig til og söfnuðu upplýsingunum á einn stað og birtu opinberlega. Leið ekki á löngu þar til fyrirtæki sem stutt höfðu bannið töldu sig finna fyrir rýrnandi viðskiptum auk þess sem þau urðu fyrir hótunum.
Baráttufólki úr röðum samkynhneigðra leist þá ekki á blikuna og vildi að eitt hundrað dollara mörkin yrðu hækkuð verulega, því þau sáu í hendi sér að þetta gæti allt eins og jafnvel enn fremur komið í bakið á þeim. Á þetta var ekki hlustað. Lögin voru óhagganleg auk þess sem margir urðu til að tala fyrir gangsæi sem grundvallarkröfu. Það yrði að sýna heiminn „einsog hann er", ekkert mætti fela. Og hvers vegna ættum við ekki að fá upplýsingar um það hvern málstað fyrirtæki og fjársterkir aðilar styðja? En eigum við þá rétt á öllum upplýsingum um alla; hvaða skoðun hver og einn hefur og hvaða afstöðu einstaklingar taka í hitamálum samtímans?
Álitamál af þessum toga hafa orðið til að örva umræðu um netið. Vitað er að fjölmörg ríki notfæra sér netið til að safna upplýsingum um einstaklinga og samtök í pólitískum tilgangi. Í því sambandi hefur m.a. verið talað um Kína, Íran og Sýrland. Bandaríkin hafa einnig verið nefnd. Bandaríska Alríkislögreglan hefur þannig krafið Google og Facebook um aðgengi að persónuupplýsingum, í krafti laga um þjóðaröryggi.
Í umræðu um þessi efni vegast á margs konar sjónarmið, ekki síst um opna gagnsæja umræðu, um persónuvernd og friðhelgi einkalífs. Sjálfur hef ég viljað opna sem mest en jafnframt verið varðstöðu-maður persónuverndar. Þetta er flókið mál. En þótt málið sé flókið mega okkur ekki fallast hendur.
Inn í þessa alþjóðlegu umræðu hafa Íslendingar blandast síðustu daga og vikur vegna umræðu um það hvort hægt sé að sporna gegn dreifingu á ofbeldisklámi, ekki síst til að verja börn gegn ágengum ofbeldisiðnaði.
Í því efni hefur tvennt verið gert. Sem innanríkisráðherra hef ég beðið nefnd sérfræðinga að kanna hvort hægt sé að skerpa á lagalegum skilgreiningum á klámi en samkvæmt íslenskum lögum er klám ólöglegt. Horft skal til annarra landa, ekki síst norskrar löggjafar. Síðan hef ég sett niður starfshóp til að kanna hvort unnt sé með einhverjum hætti að sporna gegn því að framleiðendur á ofbeldisklámi hafi óheftan aðgang að samfélaginu, einkum börnum okkar og unglingum. Þessa umræðu hafa ákveðnir einstaklingar borið út um allan heim sem „frumvarpið" sem internetunnendur verði að stöðva!
En stöldrum við. Þegar ágengur ofbeldisiðnaður  tekur völdin þá hljótum við að ræða hvað sé til ráða. Notkun netsins hlýtur þá að verða til umræðu. Varla á það að lifa sjálfstæðri tilveru. Ekkert fremur en kvikmyndavél, þótt einhverjir kynnu að halda því fram að hún sýni „heiminn einsog hann er". Aldrei kann það góðri lukku að stýra þegar tæki og tól taka völdin, eins og um náttúruöfl sé að ræða en ekki sköpunarverk mannanna. Að ekki sé á það minnst þegar farið er að tilbiðja þau.