Fara í efni

AÐ FRAMLEIÐA SKOÐANIR

MBL  - Logo
MBL - Logo

Helgarpistill fyrir Morgunblaðið 24.03.13.
Bruno Kaufmann heitir maður. Hann er Svisslendingur að uppruna og hefur sérhæft sig í öllu sem lýtur að lýðræði. Tvisvar hefur Kaufmann komið að fundum og ráðstefnum á vegum Innanríkisráðuneytisins þar sem fjallað hefur verið um lýðræði. Í báðum tilvikum kveikti hann í fundarmönnum. Hann býr yfir mikilli þekkingu um viðfangsefnið frá Sviss, landi hins beina lýðræðis, en einnig Svíþjóð þar sem hann er nú búsettur,  nánar tiltekið í Falun sem er sveitarfélag norður af Stokkhólmi. Þar hefur Bruno það viðfangsefni á vegum sveitarfélagsins að þróa „lýðræðisáætlun". Fram kom í erindi hans á nýafstöðnum fundi að þessi áætlun byggðist á því að þróa samtal við íbúana. Íbúakosningar væru góðra gjalda verðar, sagði hann, en þær hefðu líka sína ókosti. Íbúakosning gæti klofið samfélag og sundrað því þótt stundum væru mál þess eðlis að ekki væri um annað að ræða en leiða deilur til lykta í íbúakosningu. Betra væri að yfirvöldin og samfélagið ræddu sig til niðurstöðu.
Bruno Kaufmann sagði mikilvægt að örva fólk til þess að taka þátt í mótun umhverfis síns með því að kynna sér mál og hafa á þeim skoðanir. Hann kvaðst líta svo á að skoðanamyndun í samtímanum einkenndist um of af neyslusamfélaginu, fólk notaðist við skoðanir annarra, „neytti" þeirra eins og hverrar annarrar vöru. Ég leyfði mér að botna þessa hugsun með hinni augljósu gagnályktun, að viðfangsefnið væri þá að fá fólk til að framleiða eigin skoðanir.
Þetta held ég reyndar að sé lykilatriði. Ekki aðeins í því skyni að þróa áfram lýðræðisþjóðfélagið heldur kennir sagan okkur hve lífsnauðsynlegt það er að fólk skynji ábyrgð sína í samfélaginu nær og fjær, á vinnustaðnum, í stjórnmálaflokki, félagasamtökum, sveitarfélagi og þjóðfélagi. Hægt er að taka öfgafull dæmi þessu til sönnunar. Þegar spurt er hvernig á því standi að ofbeldisfull ríki hafi komist upp með allt það sem þau gerðu þegnum sínum - hvernig þau hafi getað fengið venjulegt fólk til að taka þátt í ofbeldi - þá er það ekki næg skýring að mínu mati að fólk hafi verið kúgað til að taka þátt. Því miður held ég að annað og meira komi til, nefnilega sauðtrygg fylgispekt við valdið. Þetta gagnrýnisleysi - ótti við að taka afstöðu sem er ekki í samræmi eða a.m.k. í grennd við ríkjandi hugmyndir - sjáum við síðan endurspeglast í nánast öllum aðstæðum sem manneskjan býr við.
Þekkt er tilraunin sem gerð var til að kanna einmitt þetta. Búnar voru til mjög trúverðugar aðstæður fyrir tilraun sem gekk út á að leiða í ljós hve langt fólk væri reiðubúið að ganga í pyntingum og jafnvel drápi á mannlegu „tilraunadýri" sínu. Einstaklingur var látinn setjast í rafmagnsstól og sá sem tók þátt í tilrauninni átti síðan að gefa honum raflost, fyrst vægt og síðan meira, stig af stigi þar til sagt var að lostið væri orðið mjög kvalafullt og að lokum að það leiddi til dauða. Getur það verið að ég sé látinn drepa mann, hugsuðu eflaust einhver tilraunadýranna. Þetta er þrátt fyrir allt í bandarískum háskóla og þeir sem segja mér fyrir verkum eru í hvítum sloppum vísindamanna. Þetta hlýtur að vera í lagi. Svo var opnað fyrir strauminn.
Eflaust hugsuðu einhverjir á þennan veg í fangabúðum nasista þar sem fólk var myrt af fagmennsku, með tækjum og tólum hönnuðum af verkfræðingum á hvítum sloppum. Og flugmennirnir sem vörpuðu sprengjum úr háloftum yfir Víetnam hlýddu skipunum borðaklæddra manna og tóku við heiðursmerkjum úr hendi stífpressaðra fulltrúa samfélagsins.
Því nefni ég Víetnam að fyrrgreind tilraun var gerð á dögum Víetnamstríðisins og var tilefnið, ef ég man rétt, að leita svara við því hvernig á því stæði að hægt væri að fá fólk til að drýgja glæpi gegn öðru fólki.
Svarið var þetta: Fylgispekt og gagnrýnislaus meðvirkni.
Þess vegna þarf að vekja fólk. Fá okkur til að framleiða eigin skoðanir, styrkja eigin dómgreind, ekki „neyta" gagnrýnislaust skoðana annarra.

(Fyrir mistök birtist rangur pistill í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins - hálfs mánaðar gamall en eftir mig. Til leiðréttingar birtist rétti pistillinn síðan í Morgunblaðinu í dag 25. mars. ÖJ)