Fara í efni

SVAR TIL STÍGAMÓTA

Fréttabladid haus
Fréttabladid haus

Birtist í Fréttablaðinu 15.01.12.
Í Fréttablaðinu 9. janúar sl. birtist opið bréf Stígamóta til mín sem innanríkisráðherra þar sem skorað er á mig að taka til hendinni í kynferðisbrotamálum. Voru þar nefnd nokkur atriði sem Stígamót hafa sett á oddinn á síðustu árum. Þakka ég þessar ábendingar en vil einnig nota tækifærið til að víkja að nokkrum atriðum í baráttunni gegn kynferðisofbeldi sem ég hef komið að á þeim ríflega tveimur árum sem liðin eru frá því að ég tók við embætti dómsmála- og mannréttindaráðherra, síðar innanríkisráðherra.

Stofnanabreyting ekki töfralausn

Strax í nóvember árið 2010 efndi ráðuneytið til viðamikils samráðs um meðferð nauðgunarmála í réttarvörslukerfinu þar sem kallaðir voru til fulltrúar réttarvörslukerfisins, stofnana, grasrótarsamtaka og fræðafólks á sviðinu til að ræða þá staðreynd að aðeins brotabrot af þeim nauðgunarmálum sem upp koma rata í gegnum réttarkerfið og enda með sakfellingu. Samráðið var afar gagnlegt og var unnið úr niðurstöðum þess. Meðal þess sem þar kom fram var að auka þyrfti fræðslu um málaflokkinn og efna til fræðilegra rannsókna á meðferð nauðgunarmála. Þá kom einnig fram sú tillaga Stígamóta að setja á laggirnar sérstakan saksóknara og sérstakan dómstól í kynferðisbrotamálum og hlaut sú tillaga nokkra umræðu, bæði í sjálfu samráðsferlinu og innan ráðuneytisins. Eftir nokkrar vangaveltur var niðurstaða mín sú að hlýða á ábendingar þeirra sem töldu vænlegra að styðja við það kerfi sem nú er til staðar en að búa til ný embætti í þessum málaflokki. Í því samhengi er rétt að taka fram að kynferðisbrot mynda stóran hluta af þeim málum sem Ríkissaksóknaraembættið fæst við og myndi þessi stofnanabreyting sennilega hafa í för með sér að hluti starfsfólks Ríkissaksóknara færi yfir í hina nýju stofnun. Taldi ég kröftunum að svo stöddu betur varið í að reyna að varpa ljósi á hvaða leiðir eru færar til að styrkja núverandi embætti til að takast á við brotaflokkinn og að stofnanabreyting ein og sér myndi ekki reynast töfralausn í þeim efnum.

Afstaða hefur áhrif

Í kjölfar samráðsins hefur ráðuneytið, í samvinnu við lagadeild Háskóla Íslands, staðið fyrir fræðslu og umfjöllun um kynferðisbrot, þ.m.t. með alþjóðlegri ráðstefnu sem fram fór í janúar í fyrra. Einn af lykilfyrirlesurum ráðstefnunnar var Liz Kelly, prófessor frá Englandi, en hún hefur m.a. rannsakað upplifun brotaþola kynferðisofbeldis af að leita réttar síns. Meðal þess sem fram kom í hennar fyrirlestri, sem er aðgengilegur á vefsíðu innanríkisráðuneytisins, var að upplifun brotaþola af réttarkerfinu er ekki endilega háð því hvort brotamaður er sýknaður eða sakfelldur, eða mál fellt niður. Réttarkerfi sem tekur ekki vel á móti brotaþolum getur þannig verið eins konar áframhald af ofbeldinu. Réttarkerfi sem tekur á móti brotaþola af virðingu hefur hins vegar önnur áhrif. Þetta tel ég vera eitt af meginverkefnum réttarkerfisins og ráðuneytisins, að stuðla að því að kerfið sé ævinlega styðjandi gagnvart þeim sem til þess leita.
Til að skilja hvers vegna svo fá nauðgunarmál eru kærð og hvers vegna svo fá mál sem eru kærð rata gegnum réttarkerfið er nauðsynlegt að reyna að varpa ljósi á heildarmyndina. Hvað einkennir þau mál sem rata í gegnum kerfið og hvað einkennir þau mál sem eru felld niður? Hver eru viðhorf þolenda nauðgana annars vegar og hins vegar þeirra sem starfa við rannsókn, saksókn, vörn og dóm til málaflokksin? Hvaða hugmyndir hafa þau um úrbætur?  Þetta er meðal spurninga sem lagt var upp með þegar ráðuneytið efndi til samstarfs við EDDU - öndvegissetur um fræðilega rannsókn á meðferð nauðgunarmála. Stendur sú rannsókn yfir og tel ég að á niðurstöðum hennar megi byggja frekari tillögur um framtíðarsýn í málaflokknum.

Áhrif kláms á kynferðisbrot

Fleira má týna til: Í framhaldi af samráðinu efndu þrjú ráðuneyti, ásamt lagadeild HÍ, til umræðu og ráðstefnu um klám og þau áhrif sem klám hefur á kynferðisbrot, m.a. vegna þess ofbeldis gegn konum sem er ráðandi í klámefni og vegna þess að börn sjá klámefni mjög ung. Niðurstöður þess liggja nú fyrir og mun ég m.a. beita mér fyrir breyttri skilgreiningu á klámhugtakinu í hegningarlögum og athugunum á frekari úrræðum til handa lögreglu vegna brota á banni gegn klámi. Fræðsla um klám er einnig hluti af vitundarvakningu um ofbeldi gegn börnum sem innanríkisráðuneytið hefur haft forystu um, í samstarfi við menntamálaráðuneyti og velferðarráðuneyti. Vakningin stendur til þriggja ára og vonandi lengur, en með henni er fræðslu m.a. beint að börnum og að fólki sem starfar með börnum.

Hvað vændi og mansal varðar þá er það rétt sem fram kemur í bréfi Stígamóta að lögreglan hefur ekki reynst nægilega vel búin til að takast á við þennan vanda, en það kemur sífellt betur í ljós hve umfang hans er mikið. Alþingi samþykkti árið 2009 að banna kaup á vændi og heimildir lögreglu til að takast á við brotaflokkinn hafa verið skýrðar. Á síðasta ári samþykkti Alþingi jafnframt áframhaldandi fjárveitingu til átaks lögreglu gegn skipulagðri glæpastarfsemi og var þá kveðið sérstaklega á um að rannsóknir ættu að ná til vændis og mansals. Þarna er því stigið skref í átt að því að kortleggja vændi og mansal á Íslandi og efla viðbúnað lögreglu til að takast á við það.

Betur má ef duga skal

Í starfi mínu sem innanríkisráðherra hef ég viljað viðurkenna þann vanda sem kynferðisofbeldi er í íslensku samfélagi og gera allt sem í mínu valdi stendur til að taka þátt í að uppræta slíkt ofbeldi. Ráðuneytið hefur haft forgöngu um þau verkefni sem hér hafa verið nefnd en einnig tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi til að læra af reynslu annarra og eiga í samtali um bestu mögulegu leiðir í þessari baráttu. Ég vil því leyfa mér að halda því fram að í innanríkisráðuneytinu hafi verið tekið til hendinni í málaflokknum. En hitt er rétt að betur má ef duga skal og kallar þetta viðfangsefni á samhent átak; stjórnmála, stofnana, fræðafólks, grasrótarsamtaka og samfélagsins í heild. Ég skorast ekki undan því að leggja mín lóð á vogarskálarnar og tek hvatningu Stígamótakvenna fagnandi.