Fara í efni

NÝ ÚTLENDINGALÖG Í AUGSÝN

DV
DV

Birtist í DV 14.01.12.
Einn af þeim málaflokkum sem hafa verið hvað fyrirferðamestir í starfi mínu sem innanríkisráðherra, áður dómsmála- og mannréttindaráðherra, er málefni útlendinga, einkum er lýtur að málefnum útlendinga utan EES. Hafa málefni einstaklinga nokkrum sinnum ratað í fréttir en þau eru þó aðeins brotabrot af þeim málum sem koma til kasta ráðuneytisins. Núgildandi lög um útlendinga voru sett árið 2002 að undangengnum miklum deilum á Alþingi. Síðan þá hefur lögunum nokkrum sinnum verið breytt, enda hafa orðið miklar breytingar á málaflokknum, þar með talið vegna þátttöku Íslands í EES-samstarfinu og Schengen-samstarfinu. Uppi eru skiptar skoðanir um hvort núgildandi lög nái nægilega vel utan um málefni fólks sem hér vill setjast að en einnig hvernig beri að túlka lögin.
Sl. föstudag samþykkti ríkisstjórn frumvarp mitt til nýrra heildarlaga um útlendinga. Er í frumvarpinu gert ráð fyrir viðamiklum breytingum og leyfi ég mér þar helst að nefna breytingar á dvalarleyfaflokkum annars vegar og breytingar á málsmeðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd, eða hælisleitenda, hins vegar.

Dvalarleyfaflokkar og búsetuleyfi

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir nýjum dvalarleyfaflokkum til að ná betur utan um aðstæður þeirra sem hingað flytja. Áherslan er m.a. á að skýra rétt aðstandenda fólks sem hér býr til að setjast að hjá ættingjum sínum. Þar á meðal má nefna möguleika allra námsmanna á að geta haft börn sín hjá sér meðan þeir stunda nám hér á landi. Við breytingarnar er m.a. höfð hliðsjón af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins en samningurinn leggur þær skyldur á herðar aðildarríkjanna að setja alltaf hagsmuni barns í fyrsta sæti þegar mál sem þau varða eru meðhöndluð. Þá er í frumvarpinu lagt til að réttindasöfnun til búsetuleyfis fylgi einstaklingi, en ekki dvalarleyfi, en eins og staðan er núna stendur einstaklingur sem breytir um dvalarleyfi, t.d. þar sem hann giftir sig, á núllpunkti gagnvart búsetuleyfi.

Alþjóðleg vernd

Í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd, sem skv. núgildandi lögum kallast hælisleitendur, eru lagðar til viðamiklar breytingar á málsmeðferð, en hún hefur sætt gagnrýni, m.a. vegna þess hversu málsmeðferðartími er langur. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að málsmeðferðartími eigi að jafnaði ekki að vera lengri en sex mánuðir. Yrði þetta mikil breyting frá því sem nú er. Þá er gert ráð fyrir að leiða í lög að taki meðferð máls lengri tíma en 18 mánuði skuli viðkomandi umsækjandi eiga rétt til að fá dvalarleyfi af mannúðarástæðum, þótt niðurstaða í máli hans verði á endanum neikvæð, að því gefnu að tafir í málsmeðferð séu á ábyrgð stjórnvalda, ekki umsækjandans sjálfs.
Sú framkvæmd að saksækja og dæma alla umsækjendur um alþjóðlega vernd sem koma til landsins með fölsuð skilríki verður lögð af, verði frumvarpið að lögum og þykir það betur í samræmi við Flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna. Loks er nánar útfært hvaða réttindi umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga meðan á málsmeðferð stendur og kveðið skýrar á um málsmeðferð þegar börn eiga í hlut.

Sjálfstæð kærunefnd

Samkvæmt núgildandi lögum eru ákvarðanir Útlendingastofnunar kæranlegar til innanríkisráðuneytisins. Íslensk stjórnvöld hafa sætt gagnrýni fyrir þetta fyrirkomulag, m.a. af hálfu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Rauða krossins, þegar kemur að umsóknum um alþjóðlega vernd, þar sem ráðuneytið sé úrskurðaraðili í málefnum undirstofnunar. Í þessu vegast á ólík sjónarmið og á móti þessu mætti benda á að ráðherraábyrgð er meginreglan á Íslandi. Með tilliti til þeirra viðamiklu hagsmuna sem eru í húfi fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd er þó í frumvarpinu gert ráð fyrir að setja á laggirnar sjálfstæða kærunefnd. Umsækjendur um alþjóðleg vernd munu geta komið fyrir nefndina og fylgt máli sínu eftir, en þetta fyrirkomulag er í samræmi við það sem tíðkast í Noregi og Danmörku. Til að tryggja að öll sérhæfing haldist á einum stað er jafnframt gert ráð fyrir að önnur mál á grundvelli laganna verði í flestum tilfellum kæranleg til þessarar kærunefndar.

Tímabært skref

Verði þetta frumvarp að lögum felast í því mikilvæg skref á átt að betri réttarstöðu umsækjenda um alþjóðlega vernd hér á landi og einnig skýrari ákvæði um dvalar- og búsetuleyfi og rétt þeirra sem hér búa. Vegna þeirra öru breytinga sem eiga sér stað í málaflokknum er nú tímabært að stíga þetta skref, samfélaginu til hagsbóta.