Fara í efni

HJÖRLEIFI ÞAKKAÐ

Hjörleifur G
Hjörleifur G


Ef saga Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs yrði skrifuð af einhverjum sem þekkti til allra innstu innviða kæmu þar við sögu fundargerðir undir vinnuheitinu þrír á báti. Fundarritari og fundarboðandi var Hjörleifur Guttormsson en aðrir bátsverjar voru Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson. Fundarstaður var skrifstofa Hjörleifs í Vonarstræti 12; á borðum jafnan kaffi og sætabrauð í boði fundaritara.
Þetta var sumarið 1998. Á sama tíma var Samfylkingin í burðarliðnum og við þremeningar á leið út úr þingflokki Alþýðubandalagsins og óháðra.  Annars staðar hafði nýr félagsskpur litið dagsins ljós og farið sístækkandi, málfundafélagið Stefna - félag vinstri manna. Þar voru auk mín, margt fólk sem síðar gerðust stofnfélagar í Vinstrihreyfingunni grænu framboði, að uppistöðu, þó ekki allt, fólk sem komið hafði að framboði Alþýðubandalagsis og óháðra í þingkosningunum 1995, óháði hlutinn og konur úr baráttuhreyfingu kvenna, Svanhildur Kaaber, Tryggvi Friðjónsson, Sigríður Stefánsdótir, Drífa Snædal, Baldur Jónasson, Guðmundur Magnússon, Ragnhildur Guðmundsdóttir .... og mörg, mörg fleiri.
Sumarið 1998 efndi Stefna - félag vinstri manna til fundaraðar um meginþræðina í áherslum sínum um jöfnuð, jafnrétti, sjálfstæði þjóðarinnar og umhverfismál. Þar var að sjálfsögðu fenginn til að hafa framsögu, Hjörleifur Guttormsson enda rímaði allt bærilega í sameiginlegum ásetningi allra hlutaðeigandi að stofna nýjan stjónmálaflokk félagshyggjufólks sem beitti sér fyrir jöfnuði, jafnrétti,umhverfisvernd og fullveldi Íslands utan hernaðarbandalaga.
Þetta rifja ég upp nú þegar Hjörleifur Guttormsson segir skilið við Vinstrihreyfinguna grænt framboð. Ég þakka honum samstarfið, jafnframt því sem ég ítreka það sem ég sagði á flokksráðsfundi VG nú um helgina, þegar Hjörleifur hvarf á braut, að ég sæi eftir úr okkar röðum einum ötulasta baráttumanni Íslands fyrir náttúruvernd og fullveldi þjóðarinnar. Ég þakka samstarfið - en þykist vita að rödd hans sé ekki þögnuð - í þágu sameiginlegs málstaðar. Til þess er gott að hugsa.

https://www.ogmundur.is/is/greinar/hjorleifi-thakkad