ÁRAMÓTIN OG ÓSKABÖRN ÍSLANDS

Birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 30.12.12.
MBL - LogoÍ endurminningu bernskunnar voru áramótin tregafull. Nú árið er liðið í aldanna skaut, var sungið og barnið sat eftir með þá hugsun að hið liðna væri óafturkræft - kæmi aldrei til baka. Þessu fylgdi óútskýrð eftirsjá. En um leið var nýr forvitnilegur tími að hefjast. Hið ókomna bankaði upp á með fjöldann allan af ósvöruðum spurningum. Áramótin voru tími hins óræða.

Ætli þessir þankar hrærist ekki í ungum hugum enn þann dag í dag og hugsanlega einnig með okkur sem eldri erum?

Á áramótum sameinast kynslóðirnar; við veisluborð, fyrir framan sjónvarpið,við brennuna, og síðast en ekki síst undir flugeldum með blys og stjörnljós, jafnvel við sönginn um árið sem liðið er í aldanna skaut og aldrei kemur til baka. Áramótin eru tími tilfinninganna. Gamlir verða ungir á ný þegar þeir sprengja sig út úr árinu sem runnið hefur sitt skeið á enda og inn í nýtt, með börnum og barnabörnum.

Nú þökkum við starfsmönnum sveitarfélaganna fyrir brennurnar. Þeir hafa tekið að sér hlutverk krakkanna sem fyrr á tíð söfnuðu á áramótabrennurnar  öllu sem ónýtt var og líklegt til að loga. Eflaust eru brennurnar orðnar heldur umhverfisvænni en ekki er ég alveg frá því að það hafi verið á kostnað gleði hins unga athafnafólks.

Ef að líkum lætur verður talsvert skotið á loft af flugeldum til að minnast þess að árið 2012 er liðið og árið 2013 að hefja innreið sína. Og við það munu óskabörn þjóðarinnar hagnast. Flugeldasalan er fjáröflun björgunarsveitanna. Þetta hef ég alltaf hugfast. Þess vegna kaupi ég með ánægju nokkra flugelda, stjörnuljós og blys til að kveðja hið liðna og fagna nýju ári. Það er góð tilfinning að vita af félögunum í Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu - óskabörnum þjóðarinnar, sem við getum reitt okkur á og eru ætíð til staðar á ögurstundu.  

Fréttabréf