Fara í efni

ÚR FRYSTI KALDA STRÍÐSINS

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN

Birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 23.12.12.
Um miðjan mánuðinn sat ég alþjóðlega ráðstefnu í Berlín þar sem fjallað var um stríðsglæpi og hvernig á þeim skal tekið í samfélagi þjóðanna. Umræður á ráðstefnunni hafa verið mér ofarlega í huga síðan og langar mig til að deila þönkum með lesendum.
Í kjölfar heimstyrjaldarinnar síðari voru væntingar um betri heim. Til sögunnar komu Sameinuðu þjóðirnar, skipulegur vettvangur til að taka á málum sem heiminn varða - umhverfið, mannréttindin, stríð og frið. Stofnanir voru settar á laggirnar í þessu skyni og sáttmálar undirritaðir. Einn þeirra sneri að stríðsglæpum og þjóðarmorði. Kveikjan að þessum merka sáttmála voru stríðsglæpir þýsku nasistanna og stríðsglæpadómstóllinn sem kenndur er við Nürnberg í Þýskalandi þar sem réttað var yfir nokkrum þeirra á árunum 1945-1946.
Þessi sáttmáli leit dagsins ljós í árslok árið 1948 og var undirritaður 1951.  En síðan ekki söguna meir. Í nær hálfa öld var stríðsglæpasáttmálanum lítið sem ekkert beitt og þær skuldbindingar sem þar er að finna því nánast orðin tóm.
Ekki skorti þó tilefnin. Í heimsstyrjöldinni síðari höfðu fleiri framið alvarlega stríðsglæpi en Þjóðverjar. Má þar nefna kjarnorkuárásir Bandaríkjamanna á japönsku borgirnar Hiroshima og Nagasaki og mannskæðar loftárásir á Dresden og fleiri borgir í Þýskalandi. Þessi voðaverk og fleiri hefðu átt erindi fyrir stríðsglæpadómstól á þeim tíma.
En ekkert slíkt gerðist. Og ekki heldur á þeim áratugum sem fóru í hönd. Ástæðan var Kalda stríðið. Valdablokkir stóðu andspænis hvor annarri, gráar fyrir járnum, annars vegar Vesturveldin með Bandaríkin í broddi fylkingar og hins vegar sú blokk sem var kennd við austrið og laut Sovétríkjunum. Heimurinn var að sönnu margskiptari og flóknari, en á þessu tímaskeiði var það aðeins „austur og vestur" sem máli skipti á taflborði valdastjórnmála í heiminum. Og við það taflborð var ískalt. Svo kalt að allt fraus, þar á meðal draumarnir og vonirnar sem heimsbyggðin hafði bundið við nýjar stofnanir og sáttmála sem tryggja áttu mannréttindi og frið.
Í „hreinsunum" Stalíns í Sovétríkjunum og þvinguðum þjóðflutningum í valdatíð hans var beitt skefjalausri grimmd og ofbeldi og voru fórnarlömbin talin í milljónum. Í Víetnam var háð grimmúðugt stríð þar sem Bandaríkjamenn  beittu fullkomnustu tækni sem völ var á til að myrða fólk á kvalafullan hátt; í Kambódíu frömdu svokallaðir Rauðir Khmerar fjöldamorð, af stærðargráðu og grimmd sem á hliðstæðu í illvirkjum nasista. En samt hélt stjórn þeirra sæti sínu hjá Sameinuðu þjóðunum, í krafti fullveldissjónarmiða, jafnvel eftir að Víetnamar höfðu steypt henni af stóli. Á Austur-Tímor murkaði Indónesíustjórn lífið úr þriðjungi íbúanna.
Í áratugi var ekkert aðhafst af hálfu Sameinuðu þjóðanna, enda allt þar á forsendum stórveldanna sem héldu samtökunum í gíslingu í krafti neitunarvalds.
Svo er vissulega enn. En nú loksins má sjá þess merki að Kalda stríðinu sé lokið. Í aldarlok voru settir á laggirnar tveir stríðsglæpadómstólar, annars vegar vegna glæpa í löndum fyrrum Júgóslavíu og hins vegar Rúanda. Og fleiri hafa nú siglt í kjölfarið, svo sem Kambódía og Sierra Leone.
Árið 2002 var alþjóðlegi sakadómstóllinn settur á laggirnar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Stórveldin þráast að vísu við og segjast ekki ætla að hlíta honum - vilja enn hafa sína stríðsglæpi út af fyrir sig!
Umræða sem nú á sér stað á alþjóðlegum vettvangi vekur von um breytingar. Ég er sannfærður um að senn munu linast þau heljartök sem stórveldin hafa á alþjóðasamfélaginu. Það er að þiðna í frysti Kalda stríðsins.