Fara í efni

RÉTT HJÁ BIRNI! - LÍKA RANGT!

BB II Giff
BB II Giff
Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, skrifar pistil um helgina sem gefur ágæta innsýn í pólitískan þankagang sem mikilvægt er að verði heyrinkunnur í þeirri almennu umræðu sem nú fer fram um rannsóknarheimildir lögreglunnar.
Björn segir m.a. um mína afstöðu „Hann vill ekki að lögreglan fái heimildir sem meðal annars mætti nota til viðbragða ef ástæða þætti til að óttast aðför að Alþingishúsinu eins og skipulögð var í janúar 2009."
Þetta er hárrétt hjá Birni Bjarnasyni.

Ég hef hins vegar verið því fylgjandi og beitt mér fyrir því að efla lögregluna í baráttu gegn skipulagðri brotastarfsemi með fjármagni og öðrum stuðningi. Ég hef líka viljað verða við óskum ábyrgra aðila innan lögreglunnar um að skerpa og skýra lög og reglur varðandi starfsaðferðir lögreglunnar. Í því sambandi hef ég hlustað á þá aðila innan lögreglunnar sem segja að þörf sé á  fjárstuðningi og þá ekki síður siðferðilegum stuðningi og breiðri pólitískri samstöðu. Hinu hef ég viljað gjalda varhug við að baráttan við glæpahópa verði notuð til að kveða niður baráttu af lýðræðislegri rót. Þess vegna hef ég sett í reglugerð ákvæði sem eiga að girða fyrir að grafið sé undan baráttu almennings, hvort sem er við Kárahnjúka eða gegn aðgerðum, eða eftir atvikum, aðgerðaleysi stjórnvalda í skuldamálum heimilanna.

Ég fæ ekki skilið Björn Bjarnason á annan veg en að hann sé tilbúinn að beita lögreglu í baráttu gegn almannahreyfingum. Það er alvarleg aðför að grunngildum lýðræðisins og auk þess illa gert gagnvart lögreglunni í landinu sem við öll viljum standa vörð um enda starfar hún í umboði okkar allra. Ummæli af þessu tagi eru til þess fallin að sundra þeirri góðu samstöðu sem flestir hafa lagst á árar um að mynda í þjóðfélaginu með góðum árangri á undanförnum misserum. Ummæli Björns Bjarnasonar ganga þvert á þetta.  Að því leyti eru þau skaðleg og röng þótt ég að sjálfsögðu virði rétt hans til skoðana sinna. En ég ítreka að mér þykir mikilvægt að þessi sjónarmið komist inn í almenna umræðu því þau minna á að margt er að varast þegar rannsóknarheimildir lögreglu eru annars vegar.

Pistill Björns Bjarnasonar: http://evropuvaktin.is/stjornmalavaktin/25583/