MANNRÉTTINDIN OG TUNGUMÁL SÉRFRÆÐINNAR

Mannrettindastofnun fundur okt 12

Á fimmtudag efndi Innanríkisráðuneytið til opinnar málstofu um það hvernig við ættum að bregðast við ábendingum erlendis frá þess efnis að okki beri að stofna óháða og sjálfstæða stofnun til að veita stjórnvöldum aðhald í mannréttindamálum. Frá þessari málstofu segir nánar hér: http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/28243 

Eins og fram kemur á vef Innanríkisráðuneytisins flutti ég inngangsávarp og tók auk þess þátt í umræðu á fundinum. Ávarp mitt fylgir hér:

Undir forystu Innanríkisráðuneytisins á sér nú stað stefnumótunarvinna vegna Landsáætlunar um mannréttindi sem stefnt er að leggja fyrir Alþingi á næstu vikum. Með Landsáætluninni verða lagðar fram hugmyndir íslenskra stjórnvalda um hvernig efla megi mannréttindi í samfélaginu og jafnframt bregðast við gagnrýni sem fram hefur komið á alþjóðlegum og innlendum vettvangi við framkvæmd og vernd mannréttinda á Íslandi.

Þessi fundur er sá sjötti í röð opinna funda um mannréttindamál sem beint og óbeint tengjast Landsáætlun um mannréttindi. Á öðrum fundum hefur m.a. verið fjallað um mannréttindi geðsjúkra, hatursáróður, tengingu mannréttinda og lýðræðis, trúfrelsi og kynferðislegt ofbeldi gegn konum, auk almennt um Landsáætlun um mannréttindi.

Umræðuefnið nú er stofnun Mannréttindastofu. Íslensk stjórnvöld hafa fengið hvatningu, á grundvelli mannréttindasamninga Sameinuðu þjóðanna sem Ísland á aðild að, um að setja á laggirnar mannréttindastofnun í samræmi við svokölluð Parísarviðmið en það eru viðmiðunarreglur sem Sameinuðu þjóðirnar hafa gefið út um hvaða skilyrði stofnun þarf að uppfylla til að geta talist landsbundin mannréttindastofnun í skilningi SÞ. Ýmis stig eru á framkvæmdinni og heyrum við eflaust um það hér á eftir.

Í öllum heimum verður til sérstakt tungumál, Parísar viðmiðin eru eitt dæmi þar um, UPR er annað. UPR stendur fyrir Universal Periodic Review, eða reglubundna athugun. Einstök ríki er þannig með reglubundnum hætti tekin fyrir hjá Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í Genf og svara þá fulltrúar viðkomandi ríkis gagnrýni sem fram kemur á gerð og framkvæmd áætlana í mannréttindamálum. Er þá hvoru tveggja - áætlunin og framkvæmdin og þó einkum framkvæmdin - mátuð við þá sáttmála sem ríkið hefur undirgengist á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Ég er smám saman að læra tungumál innvígðra þótt ég hafi síðustu þrjá áratugina tekið þátt í umræðu um sjálft innihaldið og þekki það nokkuð. Til gamans nefni ég að þegar ég kom til starfa á Sjónvarpinu fyrir margt löngu, tók það dágóðan tíma að yfirvinna tungumálaerfiðleika sérfræðinnar. Þannig var aldrei talað um tiltekinn bíl öðru vísi en OB-bílinn. Í mínum huga var hann sveipaður dulúð hins óþekkta og átti ég það eflaust sammerkt með öllum nýliðum hjá stofnuninni. Síðan komst ég að raun um að OB var skammstöfun fyrir Outside Broadcast - sjónvörpun útanhúss - og þurrkaðist þá dulúðin og lotningin gagnvart hinu óþekkta  út og ég þar með orðinn alvöru sjónvarpsstarfsmaður sem sagði nýliðum að í dag væri meiningin að fara út á OB bílnum!
Annað nýlegt dæmi um tungumál sérfæðinnar og þær hindranir sem það reisir, eru hinar miklu deilur um vegalagningu í Gufudalssveit á sunnanverðum Vestfjörðum. Enginn er fær um að taka þátt í þeirri umræðu kunni hann ekki skil á A-,B-,C- og D-leiðum. Ef þú ekki veist hvað B-leið er þá er best að þegja! Þetta nefni ég að sjálfsögðu til gamans en öllu gamni fylgir nokkur alvara.
Ábendingar varðandi Parísarviðmiðin og sérstaka mannréttindastofnun voru ítrekaðar á vettvangi Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna fyrir tæpu ári síðan þegar Ísland var tekið fyrir í reglubundinni allsherjarúttekt mannréttindamála - UPR ferlinu fyrir tæpu ári - en ég fór fyrir sendinefnd Íslands við þá fyrirtöku í Genf. Ábending um mikilvægi þess að við stofnuðum  sjálfstæða mannréttindastofnun kom fram í átta af þeim áttatíu athugasemdum sem okkur bárust. Í viðbrögðum okkar við þessum athugasemdum hétu íslensk stjórnvöld því að kanna með virkum hætti hvort ráðast eigi í framkvæmd slíkrar stofnunar, eða hvort  stofnanafyrirkomulag væri fullnægjandi hvað varðar mannréttindavernd á Íslandi. Nú líður að því að svara þurfi spurningunni og krefst það ígrundaðrar umræðu sem við m.a. nú erum að efna til. Hún er ekki ný af nálinni en meira aðkallandi en áður.

Það er að mínu mati mikilvægt að stjórnvöld eigi víðtækt samráð til þess að breikka grundvöll fyrir upplýsta ákvarðanatöku um þetta mikilvæga mál; ekki hvort ráðast eigi í verkefnið yfirleitt, það verður gert, heldur hitt hvernig því væri best fyrirkomið að fullnægja settum markmiðum í íslensku samhengi.

Ég er þakklátur fyrir þátttöku ykkar og framlag í dag og vonast til þess að heyra sem flest sjónarmið um álitaefnið.

Ég vil taka það fram að þótt margt sé aðfinnsulvert í okkar samféalgi hvað mannréttindin áhrærir þá hefur ýmsu þokað fram á við. Ég nefni sem nýlegt dæmi fyrirhugaðar breytingar á kosningalögum þar sem einstaklingsbundinn vilji þess sem þarf á aðstoð að halda í kjörklefa kemur til með að ráða því hvaða fyrirkomulag er við aðstoðina. Þá vil ég nefna að við fyrrnefnda fyrirtöku í Genf var Íslandi hrósað fyrir ýmis framfaraskref tekin, þótt vissulega væri fundið að ýmsu.

Þótt þokast hafi fram á við þá breytir það ekki því að mikið verk er óunnið. En smám saman erum við að ríða betur mannréttindanetið, stoppa uppi í stærstu götin. Það er ekki nóg að undirrita fína sáttmála. Þeim verður að fylgja eftir og verður hugur að fylgja máli, orð og efndir að fara saman. Þessa dagana er efnt til sérstakrar vitundarvakningar með skólafólki um allt land í baráttu gegn kynferðisofbeldi gegn börnum og sótti ég áhugaverða ráðstefnu um þetta efni á Akureyri í gær. Þetta er framtak sprottið upp úr alþjóðlegu samstarfi  - í þessu tilviki, mannréttindastarfi Evrópuráðsins. Kjörorðið er: Það gæti verið þú sem hjálpar - og er það vísað til ábyrgðar okkar hvers og eins.   

En hér er mannréttindstofnun viðfangsefnið eða öllu heldur þau verkefni sem slíkri stofnun er ætlað að sinna og hvernig best megi ná þeim markmiðum sem henni væri ætlað að framfylgja.  
Nú þegar sinna fjölmargir aðilar vernd og framkvæmd mannréttinda á Íslandi. Löggjafinn og framkvæmdavaldið eru bundin af mannréttindaskuldbindingum í verkum sínum, en dómstólar, Umboðsmaður Alþingis, kærunefndir og alþjóðlegar eftirlitsnefndir hafa eftirlit og kveða uppúr um hversu vel stjórnvöldum tekst til í verkum sínum.

Þurfum við til viðbótar sérstaka stofnun til þess að fylgjast með mannréttindinum? Hverju myndi slík stofnun breyta?

Ég hlakka til að heyra viðhorfin

Fréttabréf