Fara í efni

HUGMYND FÆR VÆNGI

Mgginn - sunnudags
Mgginn - sunnudags

Birtist í Sunnudagsmogga helgina 1/2.09.12.
Fyrrverandi forseti Íslands, læknir og leigubílstjóri, verktaki, Megas og formaður Sambands ungra bænda, sameinuðust í áskorun til Alþingis og ríkisstjórnar í heilsíðuauglýsingu í gær. Þarna voru margir fleiri, ungir og aldnir, konur og karlar og alla vega á litinn í pólítík. Eins og straujað hefði verið yfir allan fyrri ágreining Morgunblaðsins, Þjóðviljans og Alþýðublaðsins því þarna voru þeir allir: Styrmir, Helgi Már og Kjartan Ólafsson - og Matthías. Líka Björk, Guðrún Kristjánsdóttir myndlistarkona, Guðmundur sundkappi Gíslason og Ólafur Stefánsson, handboltastjarna.  Það sem þau áttu sameiginleget var að skora á okkur sem sitjum í ríkisstjórn og Alþingi að sjá til þess að Grímsstaðir á Fjöllum verði þjóðareign og landið þjóðarinnar allrar!
Í yfirlýsingunni segir: Stjórnvöldum ber að standa vörð um eignarhald og umráð landsmanna yfir óbyggðum Íslands og þar með bújörðum sem teygja sig inn á hálendið eða hafa sérstöðu í huga þjóðarinnar af landfræðilegum, sögulegum og menningarlegum ástæðum. Þessa skoðun staðfestum við með undirskrift okkar. Við skorum á Alþingi og ríkisstjórn að marka skýra stefnu í þessa veru og ákveða hvaða jarðir í eigu ríkisins skuli aldrei selja og að ríkið muni kaupa hliðstæðar jarðir til að tryggja að þær haldist í þjóðareign."
Þetta þykir mér merkileg yfirlýsing fyrir margra hluta sakir.
Í fyrsta lagi þykir mér merkilegt hve breið samstaða er að baki þessari yfirlýsingu. Það hefði einhvern tímann þótt tíðindum sæta að Guðrún Helgadóttir og Halldór Blöndal sendu frá sér sameiginlega áskorun til Alþingis; að Hjörleifur, Svavar, Páll Pétursson, Guðrún Agnarsdóttir, Guðni og Eiður væru á sama róli. Breiddin og samstaðan hljóta að gera það að verkum að við leggjum við hlustir.
Í öðru lagi er inntak textans merkilegt. Augljóslega eru hér að baki áhyggjur yfir því að Grímsstaðir á Fjöllum, sem liggja á mörkum byggðar og öræfa, verði bitbein á markaðstorgi. Nær sé að ríkið kaupi Grímsstaði. Fyrir þessu eru vissulega sterk rök. Ríkið á Möðrudal og einnig Víðidal þar fyrir norðan og síðan fjórðunginn í Grímsstöðum á Fjöllum sem er næsta jörð norðan við fyrrgreindar tvær.
Áskorunin minnir á ágæta þingsályktunartillögu Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur frá síðastliðnum vetri þar sem kallað er eftir stefnumörkun varðandi eignarhald á landi. Þar stendur upp á Alþingi og ríkisstjórn að taka til hendinni. Í framhaldinu skrifaði Guðfríður Lilja blaðagreinar um efnið og var í einni þeirra tekið á Grímsstaðamálinu undir fyrirsögninni Ísland eigi Grímsstaði. Í niðurlagi greinarinnar segir:
Það ríður og á að Grímsstaða-málið, sem allt hefur verið með nokkrum ólíkindum, fái farsælar lyktir. Fyrirhugaðar áætlanir um svæðið eru eins og í svæsnustu vísindaskáldsögu. Eitt er víst: Ef landið glatast, hvort heldur er í eign utan landsteina eða svokallaðri langtímaleigu, þá fæst það ekki aftur. Hægt er að höggva á hnútinn með því að íslenska ríkið í nafni okkar þegnanna allra festi kaup á Grímsstöðum á Fjöllum. Ríkið á þegar fjórðung í jörðinni og stór landflæmi á öræfum eru lendur þjóðarinnar allrar. Barnabörn okkar geta þá ákveðið þegar þar að kemur hvað verður um landið. Þá eiga þau í það minnsta val. Mér segir svo hugur um að þegar þar að kemur muni áform dagsins í dag virðast jafn fjarstæðukennd og að selja norðurljósin eða að virkja Gullfoss. Er kannski komið að okkar kynslóð að sýna vott af auðmýkt? Í augnablikinu kostar okkur þetta vissulega fjármuni, en framtíðin er í húfi."
Í upphafi þessarar blaðagreinar Guðfríðar Lilju sem biritst í Fréttablaðinu 30. júlí segir að enn sé von til „að eitthvað gott komi út úr styrnum um hina merku jörð Grímsstaði á Fjöllum, dyragættinni að víðernum Íslands. Í fæðingu er löngu tímabær umræða um gildi lands og yfirráða yfir landi og auðævum þess."
Ég hygg að þarna hitti Guðfríður Lilja Grétarsdóttir naglann á höfuðið. Umræðan er orðin að veruleika og titill greinar hennar er orðin að herhvöt sem fólk úr öllum flokkum og stéttum tekur undir. Þetta er greinilega hugmynd sem legið hefur í loftinu og er nú búin að fá vængi.
Ögmundur Jónasson