Fara í efni

BJÖRGUNARSTARF OG VÍÐÁTTUR NORÐURSINS

Mgginn - sunnudags
Mgginn - sunnudags

Birtist í Sunnudagsmogga helgina 15/16.09.12.
Ella Ö, eða Ellu eyju, er að finna á um það bil miðri austurströnd Grænlands austur af Stauning Ölpunum.
Thorvald Stauning var forsætisráðherra í Danmörku í samtals hálfan annan áratug á fyrri hluta síðustu aldar og segir það sína sögu frá fyrri tíð að nær allt Grænland er heitið í höfuð á dönskum forsætisráðherrum, kóngum, drottningum, prinsum og prinsessum. Á þessu er hins vegar smám saman að verða breyting með tilkomu staðarheita á grænlensku. En það er önnur saga.
Á Ellu eyju var ég staddur ásamt Þórunni Hafstein, skrifstofustjóra í Innanríkisráðuneytinu, síðastliðinn miðvikudag ásamt fulltrúum frá Danmörku, Kanada, Noregi og Rússlandi að fylgjast með fjölþjóðlegri björgunaræfingu.
Í æfingunni tóku þátt áhafnir á  dönskum og íslenskum varðskipum, þarna var hið glæsilega varðskip okkar Þór og flugvél Landhelgisgæslunnar, Sif, kom einnig við sögu. Kanadískum fallhlífarmönnum var varpað niður á svæðið úr flugvél og íslenskar hjálparsveitir fjölmenntu. Ég heimsótti búðir þeirra í Meistaravík, sem er í tæplega hundrað kílómetra fjarlægð frá Ellu eyju þar sem slysið var sviðsett um borð í „farþegaskipi". Íslenska hjálparfólkið var úr alþjóðasveitum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og var eftirtektarvert hve fagmannlega það bar sig að. Látið var sem mannskæð sprenging hefði orðið á skipinu og voru hinir slösuðu fluttir úr því og yfir til Meistaravíkur og síðan áfram til Íslands. Hér á landi hafði almannavarnarkerfið allt verið virkjað til þátttöku.
Og er þá komið að kjarna máls: Hlutdeild Íslands í hjálparstarfi á Norðurslóðum.
Um það er rætt hvort á Íslandi eigi að verða  miðstöð - ein af mörgum - fyrir björgunarstarf í þessum heimshluta. Í mínum huga er augljóst að svo þarf að vera. Fjarlægðir segja allt sem segja þarf. Þótt slysstaðurinn sé fyrir miðri austurströnd Grænlands er hann 200 kílómetrum norðar en nyrsti oddi fastalands Noregs. Frá Ellu eyju eru 3700 kílómetra loftlína til Halifax í Kanada sem er næsta borg í vestri utan Grænlands sem tekið gæti við fjölda slasaðra. Til Nuuk, höfuðstaðar Grænlands er loftlínan 1500 kílómetrar en siglingaleiðin 3000 kílómetrar. Til Bodö í Noregi eru 1600 kílómetrar, 1300 kílómetrar til Þórshafnar í Færeyjum en aðeins 900 kílómetrar til Reykjavíkur og enn styttra til Akureyrar.
Á Norðurslóðum eru miklar víðáttur - stærsta sveitarfélag Grænlands er stærra en Frakkland! Það gefur auga leið að þegar staðsetning björgunarstöðva verður ákvörðuð verður spurt um stystu fjarlægðir til að sækja hjálp og á þessum slóðum er það augljóslega Ísland. Ef ef við færum okkur austar, á Jan Mayen svæðið og síðan yfir til Svalbarða yrðu aðrir staðir fyrir valinu og enn austar tæki síðan Rússland við og svo koll af kolli.
Þessu gera allar Norðurskautsþjóðirnar sér grein fyrir enda undirrituðu þær samning á síðasta ári um samstarf í björgunarmálaum. Þessi æfing var hluti af slíkum áformum.
Það er ekki seinna vænna því eftir því sem ísinn hopar færast siglingar í aukana. Á þeim slóðum sem æfingin var, munu engar siglingar hafa verið fyrir aðeins örfáum árum. Ég heyrði því fleygt að nú allara síðustu ár hafi um 60 til 70 skip árlega farið um þetta svæði.
En tilhneigingin er öllum augljós: Siglingar eru að aukast og þar með verður að gera ráð fyrir því að eitthvað fari úrskeiðis þannig að kalla þurfi á hjálp.
Verulega traustvekjandi var að fylgjast með æfingunni. Að því marki sem hægt var að koma tækninni við þá var hún nýtt til hins ítrasta. Dæmi um það var að Kanadamenn létu ekki sitja við það eitt að senda björgunarfólk úr háloftunum heldur vörpuðu þeir einnig mælingatækjum í sjóinn þar sem hið laskaða fley var. Frá þessum mælingatækjum voru send boð upp í gervihnött og þaðan til höfuðstöðva bandarísku strandgæslunnar í Boston sem vann úr merkjasendingunum og kom þeim að því búnu á framfæri við björgunarfólkið á vettvangi. Þetta voru m.a. upplýsingar um strauma í sjónum þannig að björgunarfólk gæti áttað sig á hvert fleyið kæmi til með að reka ef hafstraumarnir hrifu það með sér.
Hópnum sem hafði verið boðið að fylgjast með æfingunni var farsællega skilað til Akureyrar af flugmönnum Nordlandair klukkan 11 að kvöldi eftir um það bil 18 tíma ferðalag.
Þessi ferð var afar lærdómsrík. Bæði var fróðlegt að koma á þessar norðlægu slóðir í Grænlandi og síðan sannfærast að fullu um mikilvægi þess að Íslendingar taki af alefli þátt í uppbyggingu björgunarstarfs á Norðurslóðum.