Fara í efni

LJÓSMYNDASÝNING OG KERTAFLEYTING

kertafleyting
kertafleyting


9. ágúst árið 1945 hófst eflaust eins og hver annar dagur, á Íslandi sem annars staðar. En þetta var einn þeirra daga sem breytti mannkynssögunni. Gereyðingarmáttur mannsins birtist heiminum í sinni hræðilegu mynd. Kjarnorkusprengju var varpað á Nagasaki í Japan, þremur dögum fyrr hafði slíkri sprengju verið varpað á Hírósíma.

Á Íslandi er staddur maður sem lifði af árásina, Inosuke Hayasaki. Hann var aðeins 14 ára gamall og í samtali við mbl.is lýsir hann hljóðinu og blindandi ljósinu, kröftugum vindinum sem fylgdi sprengingunni. Ári seinna missti hann hárið og það óx ekki aftur fyrr en þremur árum síðar.

Yfir 200 þúsund manns létu lífið í borgunum tveimur eða um það bil þriðji hver maður. Eyðileggingin hélt þó áfram árum og áratugum saman - og gerir enn - í formi sjúkdóma og dauða.

Í dag minnumst við þessara atburða. Ekki aðeins til þess að sýna virðingu gagnvart þeim sem létu lífið eða lifðu af, heldur líka vegna þess að heimurinn verður að læra af reynslunni. Aldrei aftur Nagasaki, aldrei aftur Hírósíma!

Í dag opnar fræðslu- og ljósmyndasýning um kjarnorkusprengjurnar í Borgarbókasafni Reykjavíkur. Sýningin hefur áður verið sett upp í sjö öðrum löndum og er Ísland hið áttunda í röðinni. Sýningin fjallar um áhrif kjarnorkusprengjanna og er ákall til allra þjóða heims um að útrýma kjarnavopnum. Undir þetta ákall tökum við, því eina leiðin til að koma í veg fyrir að kjarnavopnum sé beitt er að útrýma þeim í eitt skipti fyrir öll.

Í kvöld fer síðan fram árleg kertafleyting við Reykjavíkurtjörn þar sem við minnumst voðaverkanna. Hún hefst kl. 22:30. Þar sameinumst við gegn kjarnavopnum, með friði.

Sjá m.a.
https://www.ogmundur.is/is/greinar/hiroshima-og-hrydjuverkariki
https://www.ogmundur.is/is/greinar/hvad-segir-rikisstjornin-um-geimvopnaaaetlun-bandarikjastjornar
https://www.ogmundur.is/is/greinar/gestafyrirlesari-utanrikisraduneytisins
https://www.ogmundur.is/is/greinar/bandarisk-mannrettindasamtok-lata-ad-ser-kveda
https://www.ogmundur.is/is/greinar/veit-rikisstjorn-islands-hverja-hun-er-ad-stydja
https://www.ogmundur.is/is/greinar/nato-i-nyrri-heimsmynd
https://www.ogmundur.is/is/greinar/bandarikjastjorn-al-quaeda-og-kjarnorkusprengjan