REYKJAVÍKURFLUGVÖLLUR OG ALMENNUR LÝÐRÆÐISLEGUR VILJI

Birtist í Fréttablaðinu 13.07.12.
Fréttabladid hausUndir fyrirsögninni Frá degi til dags á leiðarsíðu Fréttablaðsins fimmtudaginn 12. júlí veltir Kolbeinn Proppé fréttamaður vöngum yfir, annars vegar meintri lýðræðisást minni og hins vegar staðhæfingum um að flugvöllurinn verði ekki fluttur úr Vatnsmýrinni í Reykjavík án samráðs við ríkið, sem eigi hluta landsins undir vellinum. Kolbeinn minnir mig á að atkvæðagreiðsla hafi farið fram á sínum og niðurstaðan orðið sú að meirihluti hafi viljað völlinn burt.
Af þessu tilefni vil ég rifja upp að fyrir þessa atkvæðagreiðslu í Reykjavík samþykkti borgarráð á fundi 13. febrúar 2001 að atkvæðagreiðslan yrði bindandi ef 75% atkvæðisbærra manna tækju þátt eða að 50% atkvæðisbærra manna greiddu öðrum valkostinum atkvæði sitt. Þátttakan var hins vegar mjög lítil, einungis 37,2%. Lýstu 18% kosningabærra manna stuðningi við flugvöllinn en 19% vildu völlinn burt. Þarna skildu einungis að rúm 300 atkvæði.
Frá því að þessi atkvæðagreiðsla fór fram hefur mikið vatn runnið til sjávar og leyfi ég mér að fullyrða að viðhorf til Reykjavíkurflugvallar hafa breyst mikið. Skoðanakannanir hafa ítrekað bent til að svo sé. Má af þeim ráða að meirihluti bæði borgarbúa og landsmanna vilji hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni.
Ef menn á annað borð vilja byggja á almennum lýðræðislegum vilja, sem ég tel einboðið hvað þetta þverpólitíska ágreiningsefni varðar, þá leyfi ég mér að spyrja hvort nokkuð mæli gegn því að efna að nýju til atkvæðagreiðslu og láta hana ná til landsmanna allra? Þetta er málefni sem kemur okkur öllum við, hvar á landinu sem við búum.

Fréttabréf