Fara í efni

EIN HEILDARLÖG UM DVALAR- OG ATVINNULEYFI

Fréttabladid haus
Fréttabladid haus

Birtist í Fréttablaðinu 03.07.12.
Lengi hefur verið í bígerð að endurskoða lög um útlendinga utan Evrópska efnahagssvæðisins. Almennt er litið svo á þessi endurskoðun sé brýn. Það telja þau sem lögin fjalla um og einnig hin sem sinna þjónustu á grundvelli laganna. Bent hefur verið á að lögin og regluverkið sem á þeim byggist sé hornótt og auk þess illskiljanlegt.
Þegar þessi mál voru til umræðu á Alþingi uppúr síðustu aldamótum var það sjónarmið ríkjandi að sameina bæri lög um dvalarleyfi annars vegar og lög um atvinnuleyfi hins vegar enda augljóst að fái einstaklingur leyfi til að dvelja hér á landi er rökrétt að almennt hafi viðkomandi einnig rétt til afla tekna til að framfleyta sér og sínum.
Núverandi löggjöf, sem hefur marga þröskulda og er erfið að vinna eftir, hefur stundum orðið til þess að einstaklingar, sem hér hafa viljað dvelja um skeið, sjá þann kost einan að sækja um íslenskan ríkisborgararétt án þess að vilja það í reynd! En sá þáttur núverandi laga sem ég á hvað erfiðast með að sætta mig er hvernig menntun skapar mismunandi réttarstöðu. Þannig getur menntað fólk sem hingað kemur til starfa haft börn sín hjá sér en ekki einstaklingar sem sinna ófaglærðum störfum. Sambærilegur mismunur er milli doktorsnema og nema í öðru námi. Rétturinn til að setjast hér er að er síðan í samræmi við þetta.
Þetta greinarkorn skrifa ég í tvennum tilgangi. Annars vegar til að fagna því hve vel var tekið á móti nýrri skýrslu um málefni útlendinga á fréttamannaundi í síðustu viku en þar hafði verið boðið fulltrúum allra þeirra stofnana og samtaka sem tengjast þessum málum á einhvern hátt. Margir tóku til máls og studdu meginsjónarmið skýrsluhöfunda um eina löggjöf sem byggi á mannúðarsjónarmiðum í ríkari mæli en núverandi lög. Hin ástæðan er sú að ég vil hvetja til þess að áhugasamt fólk kynni sér skýrsluna á heimasíðu innanríkisráðuneytisins og komi ábendingum þar á framfæri en slíkt myndi gagnast við frumvarpssmíð sem nú er að hefjast.