Fara í efni

VLJA ÍSLENDINGA Á HNÉN

Island ESBI
Island ESBI


Framkvæmdastjórn ESB ryðst nú inn í málaferlin gegn Íslendingum út af Icesave. Þetta mun vera einsdæmi. Okkur þótti nóg um þegar Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, ákvað að draga okkur fyrir dóm til að reyna að gera íslenska skattgreiðendur ábyrga fyrir innlánareikningum Icesave. Nokkuð sem margir bjuggust við að Bretar eða Hollendingar kynnu að gera en varla Noregur og Liechtenstein, sem ásamt okkur eiga aðild að ESA.

Ef einhverjum leið óbærlilega illa í sálinni eða buddunni hefði hið eðlilega verið að stefna okkur fyrir íslenskan dómstól og þess vegna leita ráðgefandi álits ESA. En svo var nú ekki. Þessi ósvífna aðkoma Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins nú kórónar hins vegar allt. Í reynd þarf þetta þó ekki að koma á óvart. Líklegt má heita að ESA hafi haft samráð við Framkvæmdastofnun Evrópusambandsins áður en ákveðið var að láta til skarar skríða gegn Íslandi. Eða hvers vegna skyldu fulltrúar Noregs  og Lichtenstein hafa séð ástæðu til að taka upp hanskann fyrir Hollendinga og Breta (þá hina sömu og beittu hryðjuverkalögum gegn Íslandi á sínum tíma)? Ekki verður sagt að hlutur Noregs og Lichtenstein hjá ESA sé beinlínis stórmannlegur.
Öllu þessu vindur fram eftir að líkindi aukast á því að eignir Landsbankans nægi fyrir Icesave innistæðunum! Eina sem upp á vantar er að gera öllum skiljanlegt að innistæður eigi að greiða í íslenskum krónum eins og eðlilegt er að gera úr þrotabúi íslensks banka.    

En hvað vakir fyrir Evrópusambandinu? Er ESB ef til vill að reyna að slíta viðræðunum við Ísland? Eða er það kannski þannig - sem ég held að sé líklegra - að því aðeins vilji ESB okkur inn í sambandið að áður verðum við komin á hnén. Að því hallast ég. En ætlum við þangað niður? Niður á hnén? Að sjálfsögðu ekki.

Vonandi þurfum við ekki að afplána margar fleiri blaðagreinar þar sem því er haldið fram að því lengur sem gaufað er við samningsgerðina við ESB þeim mun vandaðri verði niðurstöðurnar! Nú þarf að færa efnislegar niðurstöður upp á borðið hið allra fyrsta og í ljósi þess sem þar gefur að líta ákveður þjóðin hvort hún vill inn í Evrópusambandið. Ekki sakar að hafa nú fengið að kynnast réttarvitund Framkvæmdastjórnar ESB! Á sinn hátt er það efnisleg niðurstaða.

Sjá: http://smugan.is/2012/04/mjog-skiptar-skodanir-um-ahrif-thatttoku-esb-i-icesave-malinu/ 

http://eyjan.is/2012/04/12/ogmundur-aefur-esb-vill-hafa-okkur-a-hnjanum-thegar-kemur-ad-adild/

http://mbl.is/frettir/innlent/2012/04/12/segir_esb_vilja_islendinga_nidur_a_hnen/