Fara í efni

GEGN GLÆPUM - MEÐ MANNRÉTTINDUM

SMUGAN logo
SMUGAN logo

Birtist á Smugunni 25.04.12.
Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis hefur nú til umfjöllunar tvö þingmál sem fjalla að stofninum til um sama viðfangefni, það er rannsóknarheimildir lögreglu. Þingmálin koma ekki fram í tómarúmi. Á síðustu árum hefur skipulögð glæpastarfsemi færst í vöxt á Íslandi og eins og fréttir bera með sér hefur veruleiki undirheimanna harðnað. Lögregluyfirvöld hafa vakið athygli á þeim þáttum sem þau telja nauðsynlegt að bæta úr til að takast á við þennan veruleika. Annars vegar var ákall um fjármagn til að ráðast í átak gegn glæpasamtökunum og hins vegar ábendingar um mögulegar breytingar á rannsóknarheimildum lögreglu.
Innanríksiráðuneytið lagði til við ríkisstjórn og síðar Alþingi að veitt yrði viðbótarfjármagni til lögreglu til að rannsaka skipulagða glæpahópa hér á landi. Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis hefur lagt fram tillögu um áframhald á því verkefni, enda hefur það gefið góða raun og formaður nefndarinnar hefur fylgt málum vel eftir.
Um rannsóknarheimildir lögreglu eru hins vegar skiptar skoðanir, eins og sjá má af þingmálunum tveimur og umsögnum sem um þau hafa borist. Þingsályktunartillaga Sivjar Friðleifsdóttur og fleiri þingmanna felur í sér að innanríkisráðherra verði gert að vinna frumvarp um forvirkar rannsóknarheimildir sem taki mið af þeim heimildum sem fyrir hendi eru í öðrum norrænum ríkjum. Með þessu væri verið að opna á víðtækar heimildir fyrir lögreglu, langt umfram baráttuna gegn skipulögðum glæpasamtökum.
Ég hef hins vegar varað við því að ógnin sem stafar af skipulögðum glæpasamtökum verði notuð til að réttlæta heimildir sem ná til miklu fleiri - og jafnvel óskilgreindari - þátta. Frumvarp það sem ég hef lagt fram gengur þess vegna út á að lækka þröskuld lögreglu til að fá rannsóknheimildir með dómsúrskurði, ef rannsókn snýr að skipulögðum brotasamtökum. Frumvarpinu er m.ö.o. ætlað að takast á við þann veruleika sem liggur til grundvallar lagabreytingum!

Heimildir sem ná ekki til grasrótarhópa

Skýrt er tekið fram að rannsóknarheimildir myndi ekki grunn til eftirlits með hvers kyns grasrótarhópum eða pólitískum samtökum. Heimildirnar eru bundnar við skýrt ákvæði í almennum hegningarlögum þar sem fjallað er um skipulögð brotasamtök en þau eru skilgreind sem félagsskapur þriggja eða fleiri manna sem hefur það að meginmarkmiði  að fremja glæpi með skipulegum hætti, í ávinnignsskyni. Undir þessa skilgreiningu er ekki hægt að fella grasrótarhópa.
Af umsögnum við þingmálin tvö má sjá að víða er vilji til að opna á víðtækar heimildir. Þannig segir Ákærendaféalg Íslands að forvirkar rnnsóknarheimildir þurfi að „... ná til hvers kyns atferlis sem talið er ógna almenningi, öryggi ríkisins og sjálfstæði þess." Ennfremur að slíkar heimildir þurfi að taka til „einstaklings eða hóps manna sem talinn er eða taldir eru ógna öryggi ríkisins eða einstaklinga, svo sem öfgahópa eða einstaklinga sem telja má hættulega vegna sérstaks hugarástands."
Með þessu er ekki tekist á við skipulagða glæpastarfsemi eina og sér heldur er verið að nýta þá ógn sem af henni stafar í allt öðrum tilgangi.
Umræða um  rannsóknarheimildir lögreglu hefur verið heldur þokukennd. Nú er myndin að skýrast og kemur þá betur í ljós hvernig línurnar liggja. Ég hvet Alþingi til að stíga varlega til jarðar, þannig að sátt ríki um rannsóknarheimildir lögreglu.