SÁTTALEIÐ TIL FARSÆLDAR

Birtist í Morgunblaðinu 09.02.12.
MBL - LogoGunnar Kristinn Þórðarson, stjórnarmaður í Félagi um foreldrajafnrétti, skrifar grein í Morgunblaðið 7. febrúar undir fyrirsögninni Ráðherra dómsmála treystir ekki íslenskum dómstólum. Þar skorar hann á mig að mæta á ráðstefnu sem félag hans gengst fyrir nú í vikulok til að svara "áleitnum spurningum um hvort íslensk stjórnvöld standist alþjóðleg viðmið um mannréttindi". Þetta biður Gunnar Kristinn mig að gera jafnvel þótt félaginu hafi verið gerð grein fyrir því fyrir mörgum vikum að á þessum degi væri ég bundinn á ráðstefnu um sveitarstjórnarmál á Akureyri þar sem ég hefði framsögu.

Umræður nauðsynlegar
Hins vegar tel ég umræðu um þessi mál nauðsynlega og hef ég tekið þátt í henni á fundum og ráðstefnum og gert ítarlega grein fyrir minni afstöðu á Alþingi.

Gunnar Kristinn gagnrýnir tvennt í nýju barnalagafrumvarpi sem ég hef lagt fram á Alþingi. Annars vegar gagnrýnir hann að ekki sé að finna í frumvarpinu heimild fyrir dómara til að dæma sameiginlega forsjá barns og hins vegar að frumvarpið kveði á um breytingar á svokallaðri innsetningu.

Hvað fyrra atriðið áhrærir þá segir hann það jafngilda vantrausti á íslenska dómara að treysta þeim ekki til að dæma sameiginlega forsjá foreldra sé það, að mati dómarans, barni sem deilt er um fyrir bestu.

Hagsmunir barnsins sem best tryggðir
Það er nokkuð til í því hjá Gunnari Kristni að ég treysti illa dómstólum til að fara með þetta vald enda er langt frá því að reynslan erlendis sýni að það sé heppilegt fyrirkomulag að draga foreldra inn í dómsal til að ræða um hag barna sinna. Sú aðferð sem ég tala fyrir byggist á samningum og sátt; að gera slíkt ferli að skyldu og setja í það fjármuni og mannskap svo það verði annað og meira en orðin tóm. Hvort skyldi nú vera betra fyrir barnið að hafa foreldra sína í réttarsal að deila þar hvort á annað eða að reynt sé að ná sáttum undir handleiðslu sérfræðinga sem kunna vel til verka og vinna út frá hagsmunum barnsins eins?

Við skulum ekki gleyma því að við erum að tala um undantekningar en ekki hina almennu reglu. Hún er sameiginleg forsjá. Það er, og á að mínum dómi að vera, grunnreglan að barn fái notið beggja foreldra sinna. Við erum hins vegar að tala um þær undantekningar þar sem harðar deilur um barn eða börn rísa og þar er ég að leggja til ferli sem ég geri mér vonir um að leysi einhver mál sem núverandi fyrirkomulag ræður ekki við.

Hvað innsetningu varðar þá er þar um að ræða heimild í lögum til að beita lögreglu til að taka barn úr umráðum annars foreldris og setja það til hins. Þetta úrræði hefur verið gagnrýnt af UNICEF, Barnaheillum og Mannréttindaskrifstofu Íslands auk þess sem barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur viðrað áhyggjur af framkvæmd þessara laga og hvatt íslensk stjórnvöld sérstaklega til að gæta að því að hagsmunir barna séu ávallt hafðir í fyrirrúmi. Rétt er að taka fram að lögregla mun eftir sem áður hafa nauðsynlegar heimildir á grundvelli barnaverndarlaga til að fara inn á heimili og ná í börn ef þau sæta þar ofbeldi. Það er að mínum dómi ekki forsvaranlegt að senda lögreglu til að ná í barn svo foreldri geti náð umgengni við barn sitt. Þar verður að fara aðrar leiðir. Ég er ekki að leggja til aðgerðaleysi í því efni heldur verði sáttameðferð efld og hún lögþvinguð.

Varðandi grein Gunnars Kristins þá er ýmislegt missagt í henni. Í fyrsta lagi má nefna að forveri minn í embætti samdi ekki frumvarp til barnalaga heldur var það samið af nefnd sem var skipuð af ráðherra. Frumvarpið var aldrei lagt fram á þingi í þeirri mynd sem nefndin skilaði af sér og það er ekkert óeðlilegt við að ráðherra geri breytingar á frumvarpi sem hann fær í hendur. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hefur verið fullgiltur á Íslandi og hefur því gildi að íslenskum lögum. Frumvarpið sem hér um ræðir styrkir sáttmálann enn frekar í sessi með því að lögfesta grunngildi hans, m.a. um rétt barns til að láta í ljós skoðanir sínar á málum sem það varða og skyldu til að taka tillit til þeirra.

Friður er barni fyrir bestu
Löggjöf um forsjá og umgengni er ólík milli landa. Annars staðar á Norðurlöndum hafa dómarar heimild til að dæma sameiginlega forsjá en ekki er algilt að vestræn ríki búi við slík kerfi, eins og hefur verið haldið fram. Það er til dæmis ekki raunin í Austurríki og Sviss. Á Íslandi er sameiginleg forsjá meginreglan við skilnað foreldra og í yfir 92% tilfella er það niðurstaðan. En síðan eru foreldrar sem deila um forsjá. Langoftast lýkur slíkum deilum með sátt - jafnvel eftir að þau eru komin til meðferðar dómstóla. Þegar það tekst ekki er kveðinn upp dómur þar sem annað foreldrið fær forsjána og það er ekki rétt sem haldið hefur verið fram að það sé nánast alltaf móðirin.

Með stóraukinni sáttameðferð er vonin að draga enn frekar úr tíðni mála sem rata til dómstóla og að þeim geti sem allra flestum lokið með sátt. Í sumum tilfellum gengur sáttin ekki upp og geta þar búið ólíkir þættir að baki. Þá þarf að úrskurða með einhverjum hætti þannig að friður ríki í lífi barnsins. Því það er barni fyrir bestu.

Fréttabréf