Fara í efni

NÝTT ÁR HAFIÐ

Hvað boðar blessuð nýárssól
Hvað boðar blessuð nýárssól

Margt leitar á hugann við áramót. Merkilegt hvernig ein dagsetning þykir skipta sköpum, 31/12-1/1. Og gerir það. Því á áramótum eru iðulega teknar mikilvægar ákvarðanir. Um þessi áramót bar hæst á góma í mínu nærumhverfi ráðherraskipti í ríkisstjórn. Jón Bjarnason vék af vettvangi  - þessum vettvangi. Það var niðurstaða sem mér var ekki að skapi. Jón Bjarnason hefur hins vegar ekki horfið af hinum pólitíska vettvangi. Mér segir hugur að ekki eigi hann eftir að verða þögull á Alþingi og innan VG, en hann hefur mælst til þess við samherja sína á þeim bæ, sem eru því reiðir að hann hafi verið látinn taka pokann sinn, að þeir segðu sig ekki úr okkar flokki en nokkur brögð hafa verið um slíkt tal. Þetta þykir mér gott að heyra enda er það svo að Jón Bjarnason er með sinn pólitíska naflastreng  beintengdann inn í  kviðinn á Vinstrihreyfingunni grænu framboði. Í viðtölum nú um áramótin minnir hann okkur á þetta, sbr. hér: http://mbl.is/frettir/sjonvarp/65846/  og hér: http://jonbjarnason.blog.is/blog/jonbjarnason/
Sannast sagna er mér einnig eftirsjá að Árna Páli Árnasyni úr ríkisstjórn. Ég leyfi mér að skilgreina Árna Pál sem hægri félagshyggjumann en sem mörgum er eflaust kunnugt þá eru vinstri félagshyggjumenn meira í uppáhaldi hjá mér en þeir sem halda sig á kanti Árna Páls. En ég hef hins vegar fengið að kynnast honum sem prinsippmanni  sem reyndist  rikísstjórninni oft mikilvægt aðhald þegar honum þóttu jafnræðisreglur  ekki virtarsem skyldi.
Ný í ríkisstjórn er svo Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingar.  Oddný hefur verið kröftug þingkona og hefur hún komið mér fyrir sjónir sem einkar málefnalegur stjórnmálamaður.
Til að innsigla áramótin og minna mig í senn á fortíð og framtíð, afhenti Elín Björg Jónsdóttir, formaður, BSRB, mér áritaða dagbók, sem er sömu gerðar og ég hef haft í höndum um áratugi eða frá þeim tíma sem ég tók við formennsku í BSRB haustið 1988. Áður hafði ég verið starfandi innan BSRB frá upphafi 9. áratugarins en inn á þennan vettvang kom ég upphaflega sem formaður Starfsmannafélags Sjónvarpsins. Ekki sagði ég skilið við BSRB fyrr en haustið 2009 þannig að samtökin og mitt líf voru samfléttuð í þrjá áratugi. Það er drjúgur hluti starfsævinnar. Takk BSRB!