SAMRÁÐSVETTVANGUR TRÚFÉLAGA FAGNAR FIMM ÁRA AFMÆLI


Fimm ár eru liðin frá því settur var á laggirnar samráðsvettvangur trúfélaga í Íslandi en aðild að honum eiga 13 trúfélög á Íslandi, allt frá Ásatrúarfélaginu til þjóðkirkjunnar. Haldið var upp á afmælið í Ráðhúsi Reykjavíkur með dagskrá þar flutt voru erindi og ávörp, sungin trúarljóð og kveðnar rímur.

Eftirfarandi er ávarp mitt á afmælisfagnaðinum:

Fimm ár eru e.t.v. ekki langur tími ef öll mannkynssagan er undir, en þau geta verið langur tími þegar litið er til afmarkaðra skeiða sögunnar, einstakra atburða eða lífshlaups einnar manneskju. Heimsstyrjaldirnar tóku innan við fimm ár hvor um sig og á þeim tíma tókst að leggja fjölmörg lönd í rúst. Það tekur lengri tíma að byggja upp, en engu að síður geta unnist miklir áfangasigrar á skömmum tíma.

Ég veit það tók nokkurn tíma að koma á laggirnar samráðsvettvangi trúfélaga á Íslandi. Félögin voru þrettán í upphafi en eru nú fimmtán og fleiri geta bæst í hópinn. Markmiðið þykir mér athyglisvert en það er að ,,stuðla að umburðarlyndi og virðingu milli fólks af ólíkum lífsviðhorfum, trúarhópum og trúarbrögðum og standa vörð um trúfrelsi og önnur mannréttindi." Ennfremur segir í stefnulýsingu vettvangsins: "Slíkt næst ekki með því að samsinna hverju sem er eða láta hvað sem er gagnrýnilaust heldur með því að vera reiðubúinn til að hlusta á sjónarmið annarra, setja sig í spor þeirra og virða sjálfsákvörðunarrétt sjálfráða einstaklinga og trúfélaga."

Þetta held ég að sé lykilatriði. Umburðarlyndi er nefnilega ekki falið í afstöðuleysi þess sem einskis spyr en jánkar öllu, heldur einmitt í gagnrýnni, en jafnframt fordómalausri umræðu; umræðu þar sem við setjum okkur ekki í dómarasæti, en tökum engu að síður skýra afstöðu gegn hvers kyns kúgun og ofbeldi. Tölum ekki til að þóknast heldur til að láta gott af okkur leiða - láta orð okkar verða að gagni einsog Rómverjinn Seneca ráðlagði fiorðum. Þar sem við stillum okkur upp með mannréttindunum og tökum málstað þeirra sem minna mega sín og hafa jafnvel enga rödd.

Afstæðishyggja getur verið varasöm í sjálfri sér, eins og við þekkjum vel úr hinni alþjóðlegu mannréttindaumræðu. Við eigum að vera gagnrýnin á okkur sjálf, samfélag okkar og allt okkar félagslega umhverfi. Mörg voðaverk mannkynsögunnar hafa verið framin í nafni trúarbragða enda hefur samfélagsvaldið  iðulega beitt trúarlegum rökum í valdaspili sínu.

Veruleikinn er hins vegar sá að trúarbrögð sem byggja á kærleika hafa ávallt talað gegn ofbeldi, þau hafa talað gegn hatri og gegn ófriði.
Og það sem meira er - þau hafa talað í þágu kærleika og þau hafa talað í þágu velvilddar.

Sigurjón Friðjónsson frá Litlulaugum Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu var maður heimspekilega þenkjandi, greinilega trúhneigður en afskaplega lítið gefinn fyrir hina veraldlegu umgjörð trúarinnar. Sigurjón var uppi 1867-1950 og skrifaði lítið kver sem lengi hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Það heitir Skriftamál einsetumanns. Þar er talað um mikilvægi velvildarinnar.
Velvildin getur fengið miklu áorkað, segir Sigurjón, ef að baki henni býr þolinmæði og staðfesta: " Sólin vinnur ekki á ísunum, þegar hún byrjar að hækka á lofti. En þó fer svo að lokum, að þeir renna og verða að lífslindum sumarblómans. Líkt er því varið með kærleikann og mannssál, sem bundin er í klaka blindrar eigingirni. Stöðugir velvildargeislar vinna á þeim klaka að lokum og kenna manninum hvað lífið í fyllingu sinni er... "

Mín tilfinnig er sú að þessi samráðsvettvangur sé vettvangur velvildarinnar. Félög og hreyfingar sem hér eiga fulltrúa eru hver um sig vettvangur fyrir mannrækt, tilvistarspurningar og andlega þekkingarleit. Hér er komið saman til að ræða málin - ekki til að vera sammála heldur til þess að auka þekkingu og skilning á viðhorfum annarra. Einmitt þetta vinnur gegn hvers kyns fordómum - en af fordómum er sem kunngugt er mikið framboð í heiminum og eftirspurn talsverð.
Að lokum vil ég endurtaka hamingjuóskir í tilefni dagsins og þakka fyrir að mega taka þátt í þessari hátíð.

Fréttabréf