KVEÐJA TIL LANDHELGISGÆSLUNNAR

Í nýlegri skoðanakönnun um viðhorf til opinberra stofnana kom
fram að Landhelgisgæslan nýtur meiri virðingar og trausts en allar
aðrar stofnanir. Hvers vegna skyldi það vera? Eitt svar er
augljóst: Við höfum séð til starfa Landhelgisgæslunnar og vitum hve
vel hún stendur sig.
Ég held þó að væntumþykjan eigi sér dýpri rætur. Landhelgisgæslan
snertir nefnilega taug sem tengir okkur öll saman. Við móttöku
varðskipsins Þórs í síðustu viku sagði ég að Landhelgisgæslan væri
samgróin íslenskri þjóðarsál. Ef ég reyni að skýra þetta nánar
vandast málið. En einhverra hluta vegna vita allir við hvað er átt!
Það er mergurinn málsins.
Upp í hugann kemur sagan, sambýlið við sjóinn; sambýli sem hefur
verið gjöfult en oft stormasamt í orðsins fyllstu merkingu. Allar
götur síðan Landhelgisgæslan var sett á fót á öndverðri öldinni sem
leið, hefur hún komið við sögu á erfiðustu stundum þjóðarinnar í
baráttu hennar við óvægin náttúruöflin. Þá hefur hún jafnan birst
sem hinn frelsandi engill. Slíku gleyma menn ekki.
Það er vel til fundið hjá Landhelgisgæslunni að fara í hringferð um
landið og gefa íbúum sjávarbyggðanna færi á að efna til hátíðar til
að fagna Þór, hinu glæsilega nýja skipi Landhelgisgæslunnar.
Sjá frétt Innanríkisráðuneytisins af komu Þórs: http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/27327