FRUMKVÆÐI HELGU BJARKAR

Dagurinn í dag, 8. nóvember, er helgaður baráttu gegn einelti. Af því tilefni er vakin athygli á málefninu, m.a. með sérstökum þjóðarsáttmála gegn einelti (http://gegneinelti.is/). Forsaga þess átaks nær aftur til vormánuða ársins 2009 þegar hópur fólks bankaði á dyr stofnana og ráðuneyta til að vekja athygli á nöprum veruleika eineltis og skorti á úrræðum til að bregðast við. Í hópnum var Helga Björk Magnúsdóttir Grétudóttir, sem hefur staðið löngum stundum við Alþingi og Stjórnarráð og minnt okkur öll á að aðgerðaleysi í eineltismálum verði ekki þolað. Á fundi sem ég átti með þessum hópi í Heilbrigðisráðuneytinu var sett fram vel rökstudd tillaga um sérsveit gegn einelti. Í framhaldinu var komið á samráðsvettvangi milli þriggja ráðuneyta um meðferð eineltismála (sjá nánar: http://gegneinelti.is/um-verkefni/). Þetta sameiginlega átak leiddi til þess að ríkisstjórnin samþykkti að verja fjármunum til baráttunnar og til sérstaks fagráðs, sem starfar nú á vegum  Menntamálaráðuneytisins og veitir Árni Guðmundsson því forstöðu.

Þetta er vitanlega aðeins eitt skref af mörgum í baráttunni gegn einelti. Til þess þarf - líkt og athygli er vakin á í dag - þjóðarsamstöðu. Sú meðvitund sem hefur orðið til í þjóðfélaginu um þetta þetta illa þjóðfélagsmein kom ekki að af sjálfu sér og eiga margir einstaklingar og samtök þakkir skyldar fyrir að gera okkur grein fyrir hve alvarlegt einelti er og hverjar afleiðingar það hefur fyrir einstaklinga og samfélag.

Auk Helgu Bjarkar koma upp í hugann til dæmis Ingibjörg Helga Baldursdóttir, grunnskólakennnari og móðir drengs sem fyrirfór sér eftir einelti og Stefán Karl Stefánsson, leikari, sem steig fram og greindi frá reynslu sinni af einelti. Ég nefni einnig Þorlák H. Helgason, framkvæmdastjóra Olwesusarverkefnisins á Íslandi  og einn brautryðjenda þeirrar nálgunar. Ég nefni Barnaheill sem hafa stutt ungmenni til að stíga fram og verða öðrum gott fordæmi. Ég nefni fjölmiðla sem hafa verið ötulir að vekja athygli okkar á málfninu. Að öðrum ólöstuðum hefur mér virst  DV vera sérstaklega vakandi en þar hafa um allnokkurt skeið birst greinar og viðtöl um þetta þjóðfélagsmein.

Einna mest megum við þakka því baráttufólki sem stigið hefur fram og greint frá ofbeldi sem það hefur orðið fyrir og ekki síður þeim sem hafa horfst í augu við eigin gjörðir sem gerendur í eineltismálum. Þetta fólk hefur vakið samfélag sitt af þyrnirósarsvefni.  Einelti er samfélagslegt vandamál og það þarf að taka á því sem slíku. Gerendur fara aldrei sínu fram einir og sér, heldur í skjóli hins þögla fjölda. Ábyrgðin er okkar allra. Tökum hvatingu Helgu Bjarkar og allra annarra sem fram stíga til að vekja þjóðfélagið fagnandi og öxlum ábyrgð.

Fréttabréf