Fara í efni

SMÁMÁL?


Vefmiðlinum Eyjunni er, eftir því sem ég best veit, ritstýrt af Karli Th. Birgissyni. Hann svarar í gær gagnrýni minni og ásökunum um alvarlegar rangtúlkanir og blekkingar á þann hátt að ég hafi „misst jafnvægið" út af „smámáli". Þetta kom mér eilítið á óvart því ég hafði talið að jafnvel Karl Th. Birgisson myndi ekki grípa til röksemda af þessu tagi - til þeirra þekkti hann of vel.
Ég fer reglulega inn á Eyjuna til að kynna mér það sem efst er á baugi á þeim bæ mér til upplýsingar og oftar en ekki ánægju. Það á eflaust við um þúsundir manna.
Við sem viljum geta tekið fjölmiðla alvarlega lítum ekki á það sem „smámál" þegar sannleikurinn er afbakaður og fólk haft fyrir rangri sök. Einmitt það gerði Eyjan hvað mig varðar.
Þegar Ríkisútvarpið vildi fá upplýsingar um för mína á alþjóðlega ráðstefnu í Mexíkó undir síðustu mánaðamót lagði ég áherslu á að öllum spurningum yrði svarað skilmerkilega. Það er í samræmi við þá stefnu okkar að greina frá ráðstefnum og fundum sem ég sæki erlendis og eftir föngum einnig hér á landi þótt innlendu fundirnir séu svo margir að þeir rati ekki allir inn á vefmiðil innanríkisráðuneytisins. Sama kann að eiga við um stöku fundi á erlendri grundu. En þetta er sem sagt almenna reglan og það markmið sem við stefnum að.
Þess vegna var Ríkisútvarpinu svarað um miðja síðustu viku en svarið birt opinberlega á vef Innanríkisráuneytisins í byrjun þessarar viku. Óumbeðið var gerð grein fyrir öðrum utanferðum en þeirri sem sérstaklega var óskað upplýsinga um.
En þegar ráðuneytið greinir frá ferðum sem ég hef farið í á því rúma ári sem liðið er síðan ég tók við embætti, 2. september á síðasta ári, og til þess tíma sem ráðuneytið sendi svar sitt frá sér í síðustu viku, þá heitir það í matreiðslu Eyjunnar „tæpt ár" því fyrsta utanferðin var farin í nóvembermánuði. Síðan segir frá fimm daga ráðstefnu í Mexíkó á vefsíðu ráðuneytis og horfir Karl Th. ritstjóri þá viljandi framhjá því að tíma tekur að komast fram og til baka til annarrar heimsálfu. Fyrirsögnin hjá Eyjunni er síðan: „Fimm daga ráðstefnuferð Ögmundar til Mexíkó kostaði rúma milljón - sex utanferðir á tæpu ári."  Þarna er lagður saman kostnaður við flugferðir tveggja manna og allur uppihaldskostnaður. Í textanum er síðan deilt í þessa upphæð til að gæða lesendur á upploginni hneykslisfæðu um tilkostnað við mig á degi hverjum.
Smámál? Eflaust er þetta smámál hjá þeim sem taka ekki sjálfa sig alvarlega.
En hvers vegna yfirleitt að býsnast yfir ómerkilegum skrifum af þessu tagi? Það er vegna þess að mig langar til að geta tekið íslenska fjölmiðla alvarlega - líka miðil Karls Th. Birgissonar þótt játað skuli að það kalli á talsvert átak.

Grein Karls. Th. Birgissonar: http://blog.eyjan.is/karl/2011/10/25/ogmundur-missir-jafnvaegid/

Ýmsar aðrar fréttir þessu tengdar:
http://pressan.is/Frettir/LesaFrett/ogmundur-hjolar-i-ruv-thid-spurdud-um-minar-ferdir-nu-spyr-eg-um-ykkar---hvar-hafidi-verid-ruvarar/

http://mbl.is/frettir/innlent/2011/10/25/ruv_gefi_skyrslu_um_ferdir_starfsmanna/

http://eyjan.is/2011/10/25/ogmundur-spyr-er-eg-einn-til-rannsoknar-rikisutvarpid-hlytur-gera-hreint-fyrir-sinum-dyrum/

http://dv.is/frettir/2011/10/25/ogmundur-gagnrynir-eyjuna-ekki-sattur-vid-frett-um-mexikoferd/

http://smugan.is/2011/10/ogmundur-vill-skyrslu-um-ferdir-starfsmanna-ruv/