SAME OLD TORIES?


Í vikunni sem leið hitti ég í London, þjóðfélagsrýninn Brendan Martin. Hann er fræðimaður, mörgum Íslendingum að góðu kunnur; kom hingað til lands í boði BSRB fyrir nokkrum árum til að ræða um skipulag opinberrar þjónustu og var erindi hans gefið út í örbæklingi á vegum bandalagsins. Brendan hefur skrifað allmikið um dagana, þar á meðal gefið út mjög athyglisverða bók um einkavæðingu og einkaframkvæmd: In the Public Interest, bók sem ég mæli mjög með.
Í London ræddum við Brendan Martin m. a. þá gerjun sem nú á sér stað í breskum stjórnmálum. "Er Íhaldsflokkurinn að hlífa heilbrigðisþjónustunni eða eyðileggja hana?", spurði ég, en hvoru tveggja hefur verið haldið fram í mín eyru. "Í orði kveðnu er verið að hlífa heilbrigðisþjónustunni við niðurskurði", sagði Brendan, "en við nánari athugun er það þó ekki að gerast í raun. Það er verið að þröngva henni til kerfisbreytingar á markaðsforsendum."
Síðan bætti hann við: "Annars þarf að dæma alla af verkum þeirra, líka Íhaldsflokkinn. Hér var nýlega rekin pólitísk áróðursherferð undir slagorðinu Sama gamla íhaldið - Same old Tories! En ég vil gjalda varhug við slíkri alhæfingarnálgun. Menn eiga að gagnrýna stjórn Íhaldsflokksins á grundvelli þess sem nú er að gerast efnislega en ekki í ljósi einhvers sem löngu er liðið eða á grundvelli alhæfinga og slagorða. Íhaldsflokkurinn nú er ekki sá sami og fyrir tuttugu árum. Skoðum verk hans nú, dæmum svo!"Merkimiða-pólitík er engin pólitík!

Undir þetta sjónarmið vil ég taka. Merkimiða-pólitík er varasöm. Hún spyr aldrei um innihald. Merkimiða-pólitík varð þess valdandi að margir vinstri menn studdu Tony Blair og félaga þrátt fyrir örgustu nýfrjálshyggju þeirra, bara af því að merkimiðinn átti að heita í lagi, flokkurinn hét jú Verkamannaflokkurinn og ríkisstjórnin var ríkisstjórn Verkamannaflokksins, sem átti sér glæsta sögu sem málsvari verkalýðs og almannahags! Merkmiða-vinstri-menn létu allt yfir sig ganga í stjórnartíð Blairs vegna þess að "okkar menn" voru við stjórn!
Þetta breytir því ekki að ég leyfi mér að ætla að Íhaldsflokkurinn breski sé enn samur við sig að standa vörð um þá hagsmuni sem hann hefur gætt í hundrað ár. Og í mínum huga eru það ekki hagsmunir fjöldans, ekki almannahagur! Það er mín skoðun.
En sem dæmi um mikilvægi þess að fara að ábendingu Brendans Martins og gefa gaum að mögulegri stefnubreytingu stjórnmálaflokka þótti mér mjög merkilegt að heyra í samtölum við þingmenn í Westminster hve mikil vinna fer nú fram innan Verkamannaflokksins breska við að endurmeta efnahagsstefnu flokksins frá grunni. Um þetta fékk ég mjög gagnlega yfirferð í heimsókn minni í breska þingið í síðustu viku þar sem ég átti þess kost að ræða við fjölda þingmanna úr stjórnarliði og stjórnarandstöðu.
 
Þurfum nýja nálgun
Verkamannaflokkurinn er greinilega allur að lifna við í innra starfi og ræða menn nú af krafti stefnumarkmið og aðferðir. Allir sem ég ræddi við viðurkenna að einkaframkvæmdin (Public Finance Initiative) reyndist illa og verður ekki reynd aftur þótt illu heilli menn sitji uppi með alla gömlu einakframkvæmdarsamningana. "Við þurfum nýja nálgun", sagði þingmaðurinn Chris Leslie sem ég hygg að sé upprennandi maður í stefnumótun efnahagsmála hjá hinum nýja leiðtoga Verkamannaflokksins, Ed Miliband, enda situr hann í skuggaráðuneyti hans sem Shadow Treasury Minsister.
Ekki var síður fróðlegt að ræða við John Trickett, þingmann frá Leeds, einn nánasta samstarfsmann formannisns nýja, sem einnig á sæti í skuggaráðuneytinu. Hann var náinn, ef ekki nánasti samverkamaður Gordons Browns í tíð hans sem forsætisráðherra, en er nú innsti koppur í búri hjá Ed Miliband. John Trickett sagði að nú væri hann sáttur við sjálfan sig. Ég skildi það svo að það væri nýlunda! Kröftugur maður sem ég fann mikla skoðanasamkennd með.
Mín tilfinning er sú að ferskir vindar blási nú í breska Verkamannaflokknum, baráttuandinn fari nú rísandi og hið pólitíska land líka. Það er alla vega mín von. Löngu kominn tími til eftir áralangt villuráf flokksins  á frjálshyggjuhjarni.
 

Fréttabréf