ÖFUGMÆLI STJÓRNMÁLANNA

Karl th. Birgisson

Karl Th. Birgisson, frjálshyggjumaður, sem kallar sig jafnaðarmann, varpar fram spurningum til mín í kankvíslegum stíl í bloggpistli.
Hann leggur áherslu á að ég hafi bæði sagt að þjóðerni skipti máli og eins að þjóðerni skipti engu máli, og veltir því fyrir sér hvernig slíkt megi vera. Hefði hann hlustað af örlítið meiri góðvild, þá hefði hann áttað sig á að það er samhengið sem skiptir máli. Allar þjóðir
eru jafn góðar og í þeim skilningi er þjóðerni ekki hindrun í samskiptum manna. Hins vegar er þjóðerni líka notað um það hvar einstaklingur á sín réttindi og skyldur. Ekki er víst að frjálshyggjumenn skilji þessi hugtök hinum dýpri skilningi. Karl vitnar í EES samninginn, sem hann telur mikið mannréttindaplagg. Sá samningur er gríðarlegt regluverk og leggur miklar skyldur á herðar aðildarþjóðum samfara réttindum. Nú vill svo til að Kína er ekki aðili að EES, þannig að hvorki kínversk ríkisfyrirtæki né kínversk einkafyrirtæki eru bundin af reglum samningsins.

Menn hafa sagt sem svo: "Kínverjar gætu auðveldlega stofnað fyrirtæki í EES og keypt Grímsstaði á Fjöllum þannig". Ef sú leið er farin, þá lýtur það fyrirtæki sem staðsett er í EES lögum og reglum EES auk þess lands sem það er staðsett í. Það er þess vegna ekki bara bakdyraleið, það er beint inn um aðaldyrnar hvað varðar réttindi og skyldur. Þeir sem sjá ekki þann tilgang EES samningsins að tryggja skyldur samfara réttindum, ætti að vera meinalaust þótt þeim samningi yrði sagt upp.
Það er skoðun margra að betra sé að gera fríverslunar- og tvísköttunarsamninga við sem flest ríki, án þess að skuldbinda okkur til að opna landið umfram getu, ekki vegna þess hversu stór við erum heldur vegna þess hversu lítil við erum. Bankahrunið, sem sumir muna enn, færir okkur þann sanninn heim, að við þurfum undanþágur, frá ýmsum ákvæðum EES, vegna smæðar okkar. Við getum ekki keppt á jafnréttisgrundvelli á öllum sviðum og engir aðrir en frjálshyggjumenn trúa slíku.

Ef ég man rétt fluttu jafnaðarmenn í marga áratugi alltaf tvö mál í upphafi hvers þings. Annað var um einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn og hitt var um sameign þjóðarinnar á auðlindum í jörðu. Þetta var áður en jafnaðarmenn urðu frjálshyggjumenn. Ég tel að nú sé tækifæri fyrir
raunverulega jafnaðarmenn, að sameinast um þessi mál og koma þeim snöfurlega í gegnum þingið þar sem á annað borð bæði þessi málefni eru komin rækilega á dagskrá, auðlindamálin og framtíðarskipan lífeyriskerfsins þar sem talað er um jöfnun réttinda - vonandi upp á við! Ekki er allt gull sem glóir, segir máltækið og kannski ættum við að læra af reynslu kynslóðanna og fara varlega í að opna landið fyrir þeim sem ekki þurfa að lúta okkar lögum. Valdamikil fyrirtæki og fjármagnið sjálft hefur áhrif á stjórn landsins, eins og sjá má af því hvernig útdeiling kvótans fór með þjóðina og hvernig bankabólan ærði menn óstöðuga. Við viljum ekki bæta lífskjör með ósjálfbærum lánum eða lygi.

Karl Th. Birgisson, segist vera svo skyni skroppinn að hann skilji alls ekki málflutning minn og spyr hvort mér finnist útlenskir kapítalistar verri en íslenskir. Vissulega er það rétt að ekki hefur það alltaf reynst vera svo. Þess vegna hef ég lagt áherslu á það í mínu starfi á vettvangi stjórnmálanna að styrkja almannarétt en ekki einkaeignarrétt þegar auðlindir eru annars vegar. Ég leyfi mér þó mildilegast að minna á að munur þarna á milli kann að vera fólginn í að íslensk fyrirtæki, rekin af íslenskum ríkisborgurum, lúta íslenskum lögum og ætla má að þau vilji gjarnan mörg hver - ef þá ekki flest -  hafa íslenska hagsmuni í heiðri í ríkari mæli en erlend fyrirtæki. Ég ætla líka að minna Karl Th. Birgisson á það að Íslendingar og Kínverjar hafa ekki samið um gagnkvæm réttindi hvorki í viðskiptum né í ferðamennsku. Hins vegar dáist ég að Íslendingnum Karli Th. Birgissyni, sem sér engan mun á Íslendingum og Kínverjum. Tvær frjálsbornar og jafnstæðar þjóðir sem geti vel komið fram hvor við aðra, sem jafningjar. Frjálshyggjuhugsjónir Karls Th. Birgissonar eru á heimsmælikvarða, þótt þær séu afsannaðar með reglulegu millibili. En ég hef grun um að raunsæi Karls Th. kæmist fyrir á mjög litlum stað.
Karl Th. Birgisson http://blog.eyjan.is/karl/
Kastljós: http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4579982/2011/08/31/0/

Fréttabréf