Fara í efni

AÐ ÞEKKJA AFLEIÐINGAR GJÖRÐA SINNA


Í vetur hækkuðu stöðumælagjöld við Leifsstöð. Hvers vegna? Jú, vegna þess að skorið hafði verið niður við Isavia sem rekur flugstöðina og henni gert að skila meira af aflafé sínu í ríkissjóð. Það þýddi annað tveggja niðurskurð eða auknar sértekjur, til dæmis hærri stöðumælagjöld! Þannig var fjárveitingarvaldið á Alþingi ábyrgt fyrir hækkun stöðumælagjalda við Leifsstöð.

Óþarfi að verða agndofa!

Þannig er þessu að sjálfsögðu einnig farið annars staðar í kerfinu. Undir mitt ráðuneyti  - þar sem ég ber ábyrgð - heyrir dómskerfið og löggæslan, samgöngukerfið og margvísleg önnur starfsemi. Sumt er þetta nátengt ríkinu, annað síður, til dæmis Þjóðkirkjan. Hún er engu að síður látin lúta niðurskurði ekki síður en aðrar stofnanir. Ég vil vita hvaða afleiðingar niðurskurður hefur á starfsemi og störf hennar á sama hátt og ég vil þekkja afleiðingarnar hjá þeim stofnunum sem standa ráðuneytinu nær og þar sem allar upplýsingar eru því aðgengilegri. Þess vegna skipaði ég nefnd til að yfirfara stöðuna og afla okkur upplýsinga. Við eigum nefnilega að vita hverjar eru afleiðingar gjörða okkar. Það þarf enginn að verða agndofa yfir því. Ekki heldur Úlfar Þormóðsson: http://smugan.is/2011/08/eg-er-agndofa-ogmundur/

Á kostnað annarra

Reyndar hefur lenskan hér á landi í allt of ríkum mæli verið sú að loka augunum og vilja ekkert vita. Þannig hafa ríkisstjórn og Alþingi skorið niður og síðan er augunum lokað. Óábyrgast er þegar gengið er á hlut framtíðarinnar. Þannig gerist það enn að stjórnmálamenn stíga fram til að slá sjálfa sig til riddara, krefjast risafjárfestinga sem þeir ætla síðan öðrum að axla kostnaðinn af. Ég er til dæmis að tala um jarðgangagerð. Sjálfir verða þessir gjöfulu menn (á kostnað annarra) komnir á eftirlaun þegar farið er að borga brúsann. Sama á við um tal um veggjöld til að fjármagna tilteknar risaframkvæmdir sem nánast allir sem á að rukka er andvígir. Sumir kunna að hugsa samkvæmt gamalli formúlu : Það þarf ekkert að borga strax, við getum slakað á, og veggjöldin verða aldrei mjög há, ef svo færi þá leitum við bara í ríkissjóð...

Kröftugra kerfi

Niðurskurður þarf ekki að leiða til ills. Hann getur orðið hvati til nýhugsunar, endurmats og endurskipulagningar sem leiðir að lokum til kröftugra kerfis. Aðhald og niðurskurður getur líka - ef þannig er á haldið - leitt til þess að dregið er úr misrétti og mismunun; að þeir sem taka of mikið til sín láti renna til þeirra sem fá of lítið. Þarna reynir á okkur öll en í mismiklum mæli þó. Það fer eftir því hve nærri ákvörðunarvaldinu við stöndum. En öll getum við haft áhrif. Því öll smíðum við tíðarandann í orðum okkar og gerðum.