STJÓRNLAGARÁÐ OG LÝÐRÆÐIÐ: GRÍN EÐA ALVARA?

Stjórnlagaráð segist hlynnt því að þjóðaratkvæðagreiðslu verði
gefið aukið vægi í nýrri stjórnarskrá lýðveldisins; tiltekinn hluti
þjóðarinnar geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta þótti mér
mikið fagnaðarefni. En nú sækja efasemdir á hugann. Svo er
nefnilega að skilja að samkvæmt tillögum Stjórnlagaráðs megi
þjóðin ekki ráða því sjálf hvað hún greiðir atkvæði um. Hún megi
þannig ekki greiða atkvæði um málefni sem tengjast skattamálefnum
eða þjóðréttarskuldbindingum. Hvers vegna ekki? Var rangt að greiða
atkvæði um Icesave? Samkvæmt útlistunum fulltrúa í Stjórnlagaráði
er helst að skilja að tvennar Icesave kosningar hefðu ekki komist í
gegnum nálarauga fyrirhugaðs skömmtunarkerfis lýðræðisins. Þar
sýndi meirihluti þjóðarinnar þó ótvíræðan vilja sinn.
Á liðnum mánuðum höfum við annað veifið séð í skrifum, ættuðum úr
forræðishyggjupennum, að þjóðinni sé "ekki treystandi" þegar
skattar og fjármál eru annars vegar. Nú bætast þarna ofan á
"þjóðréttarlegar skuldbindingar."
Þegar EES samningurinn var til umræðu á sínum tíma töldu margir að
í samningnum fælist
stjórnarkrárbrot; viss ákvæði hans væru skerðing á löggjafarvaldi
Alþingis og íslensku dómsvaldi. Ef Stjórnlagaráð fær sínu framgengt
verður þetta ekki vandamál í framtíðinni þar sem stjórnarskráin
myndi beinlínis banna þjóðinni að kjósa um málefni sem snúa að
þjóðréttarskuldbindingum. Er íslenska þjóðin þá ekki að banna
sjálfri sér að segja sig úr EES? Hún væri altént að banna sjálfri
sér að hafa afskipti af fullveldisafsali innan ESB ef til aðildar
kæmi. Yrði það ef til vill brot á stjórnarskránni nýju að greiða
atkvæði um inngöngu í ESB? Ég er ekki að grínast. En ég spyr: Er
þetta grín?