Fara í efni

NÝIR OG NAUÐSYNLEGIR SENDIHERRAR

Fréttabladid haus
Fréttabladid haus

Birtist í Fréttablaðinu 01.06.11.
Nýverið hitti ég í Alþingishúsinu nýja sendiherra. Það væri ekki í frásögur færandi nema af því að þeir hafa sérstakt og brýnt hlutverk í samfélagi okkar: Að kynna samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks meðal jafningja sinna undir formerkjum hagsmunasamtaka fólks með þroskahömlun.
Sjö einstaklingar sóttu námskeið sem veitti þeim innsýn í sáttmálann sem Ísland undirritaði 30. mars 2007. Hann fjallar um það hvernig á að gæta þess að réttindi fatlaðs fólks í landinu séu tryggð. Og hver er betur til þess fallinn en einmitt sá sem er í þeim hópi? Hann getur best tjáð jafningjum sínum og okkur öllum hvernig við eigum að bera virðingu fyrir öllum, hverju þarf að breyta, hvernig gæta þarf að aðgengi og réttarkerfinu svo nokkuð sé nefnt.
Augljóst var af þessum stutta fundi okkar að sendiherrarnir nýju eru allir sem einn áhugasamir um að standa sig. Þetta eru þau Gísli Björnsson, Ingibjörg Rakel Bragadóttir, Ína Valsdóttir, María Hreiðarsdóttir, Skúli Steinar Pétursson, Þórey Rut Jóhannesdóttir og Þorvarður Karl Þorvarðarson. Þau hafa öll öðlast mikla reynslu í réttindabaráttu fatlaðra og hafa sérhæft sig í ákveðnum sviðum í þessu verkefni.
Núna í júní fara þau um og kynna samninginn öðru fólki með þroskahömlun. Þau skipta liði og heimsækja meðal annars hæfingarstöðvar, ýmsa vinnustaði og aðra þá staði sem óska eftir kynningu þeirra. Þar leggja þau upp í mikilvæga sendiför með mikilvæga þekkingu og áminningu sem koma þarf á framfæri.Ég vil að lokum óska þeim velfarnaðar í sendiherrastarfinu og er sannfærður um að hér eru á ferðinni nýir og nauðsynlegir sendiherrar.

Sjá hér ennfremur: http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/27138