BAKHJARLAR SJÓMANNA


Sjómönnum eru sendar bestu kveðjur í tilefni Sjómannadagsins. Það var ánægjulegt og hátíðlegt að vera viðstaddur hátíðlega athöfn við minningaröldurnar í Fossvogskirkjugarði í Reykjavík í morgun. Áhöfn norska varðskipsins Sortland stóð heiðursvörð ásamt starfsmönnum Landhelgisgæslunnar, lagður var krans til minningar um þá sjómenn sem hafa farist á sjó. Viðstaddir voru áhafnarmeðlimir á Sortland, fulltrúar sjómannadagsráðs, Slysavarnarfélagsins Landsbjargar auk annarra sem koma að sjóbjörgunarmálum hér á landi.
Það er umhugsunarvert að undanfarið ár er annað árið frá 1938 sem enginn ferst á sjó. Þakka ber traustari skipum, betri búnaði og meira öryggi á alla lund.
Það er vel við hæfi að Landhelgissgæslan væri sýnileg á Sjómannadaginn enda er hún að öllum öðrum ólöstuðum mikilvægasti öryggisbakhjarl sjómanna.
Að athöfninni lokinni var messa í Dómkirkjunni í Reykjavík þar sem biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, messaði og var athöfninni útvarpað. Biskup rifjaði upp samtal sem hann hafði átt við tengdaföður sinn sem verið hafði sjómaður. Fræddi hann tengdason sinn um hættur hafsins úti fyrir sjávarþorpinu þar sem hann bjó. Þar voru ótal sker. "Þekkturðu þau öll," spurði tengdasonurinn. "Nei, en ég þekkti leiðina á milli þeirra!"
 Þetta þótti mér skemmtilegt svar með djúpa merkingu. Vissulega eru það ekki bara hættur sem við þurfum að þekkja heldur líka þær leiðir sem vel hafa gefist!
Síðdegis ávarpaði Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra útifundi í Reykjavík þar sem hann lýsti því yfir að svo lengi sem hann fengi ráðið myndu Íslendingar  ekki láta fiskimiðin af hendi, hvorki til ríkjasambanda né fyrirtækja.
Ragnar Árnason, prófessor  í hagfræði ávarpaði einnig fundinn þar sem hann varði kvótakerfið og taldi tilraunir ríkisstjórnarinnar til að styrkja almannaeign á sjávarauðlindinni afar illar og boða mikla ógæfu ef þær næðu fram að ganga. Málflutingur Ragnars hefur eflaust fallið einhverjum hjá LÍU í geð enda samhljómur með honum og áróðursútspilum stórútgerðarmanna undir síðustu vikulok. Samkvæmt RÚV ( http://www.ruv.is/frett/gestir-oanaegdir-med-raedu-professors þessi málflutningur þó ekki hrifningu hjá hinum almenna fundarmanni og býður mér í grun að sjónarmiðin sem birtust í bréfi frá lesanda síðunnar fyrir fáeinum dögum hefðu fallið betur í kramið: http://ogmundur.is/fra-lesendum/nr/5816/
Sjá frétt Innanríkisráðuneytisins: http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/27193

Fréttabréf