EIGNARRÉTTINDI EÐA MANNRÉTTINDI?


Merkileg umræða er að dragast upp á pólitískan himininn, ekki bara hér á landi heldur í Evrópu og víðar um lönd í kjölfar fjármálakreppu sem bankar uppá. Þessi umræða snýst um forgangsröðun þegar þrengir að. Hvor á að njóta forgangs  innistæðueigandinn eða öryrkinn? Eða með öðrum orðum, á að forgangsraða í þágu eignarréttinda eða mannréttinda?

Einu sinni prívateign, alltaf prívateign?

Þetta hefur verið þema í skrifum á þessari heimasíðu í langan tíma enda er ég mjög eindregið þeirrar skoðunar að mannréttindin eigi að hafa forgang. Það hefur þó ekki verið hið almenna viðhorf. Undir lok tuttugustu aldarinnar færðu talsmenn einkaeignarréttar sig stöðugt upp á skaftið og var svo komið að það sjónarmið var orðið útbreitt að hafi einkaeignarréttur á annað borð náð að læsa sig um eignir yrði ekki aftur snúið. Jafnvel almannagæði - svo sem vatn - sem einhvern tímann kæmust í einkaeign hlytu að verða í slíku eignarhaldi um ókomna framtíð nema þá með gríðarlegum skaðabótum.

Spron braskið

Trúin á heilagleika einkaeignarréttarins hefur oft valdið mér miklum heilabrotum. Þannig minnist ég þess þegar deilur stóðu sem hæst fyrir fáeinum árum um stofnfé sparisjóðanna sem stofnfjáreigendur vildu sumir hverjir gjarnan maka krókinn á. Um stofnféð giltu sérstakar reglur. Heimilt varað selja bréfin uppfærð samkvæmt vísitölu verðlagsþróunar. Brask var hins vegar óheimilt. En nákvæmlega það vildu nokkrir stofnfjáreigendur gera í Sparisjóði Reykjavíkur og fleiri sjóðum; þeir vildu braska með bréfin sín sem flestir þeirra höfðu fengið vegna pólitískra trúnaðarstarfa. Þá var það að löglærðir ráðgjafar Alþingis komu til fundar með þingnenfd sem ég átti sæti í og lýstu því yfir að því miður væri þetta tapað mál fyrir andstæðinga brasksins. Stofnbréfin í SPRON hefðu nefnilega verið boðin tilsölu á markaði, myndast hafði verð og þar með væntingar. Þótt ekkert bréf hefði verið selt yrðu menn að bíta í það súra epli að væntingar braskaranna jafngiltu eignarrétti þeirra! En hvað með stofnfjáreigendur í sjóðum á landsbyggðinni þar sem braskvæðingin hafði ekki náð að festa sig í sessi , var þá spurt. Nei, sögðu sérfræðingarnir, þar gildir annað, þar hefur ekki myndast verð, engar væntingar og þar af leiðandi enginn eignarréttur!

Almenningur rís upp

Ekki er öll vitleysan eins kann einhver að segja. En svona vitlaus hefur nú veruleikinn verið. Og veruleikinn hefur líka verið sá að við höfum haft hér gestkomandi í landinu Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Mörgum þykir það ekki hafa verið til ills. En það er þá líka vegna þess að hinir sömu sjá ekkert athugavert við þessa hugmyndafræði sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var stofnaður til að verja: Að eignarréttur eigi alltaf að hafa forgang umfram mannréttindi. Gegn þessari hugsun og þessari hagsmunagæslu er almenningur víða um lönd nú að rísa. Sem betur fer.

Fréttabréf