Á 1. MAÍ MEÐ LÖGREGLUMÖNNUM Í NESKIRKJU


Í texta dagsins er vísað í vonina. Mikilvægi hennar. Við erum á það minnt hvað gerðist þegar vonin slokknaði í brjóstum lærisveina Jesú við krossfestingu hans og dauða; hvernig lærisveinarnir létu þá hugfallast. Og -  hvernig vonin síðan kviknaði að nýju þegar þeir sannfærðust um að Kristur væri fæddur til nýs lífs.
En hvað er það sem gefur voninni inntak?
Trúin á réttlætið, trúin á hið góða, segir boðskapurinn sem berst úr þessu húsi.

Á þessum degi heyrast einnig hvatningarorð úr annarri átt. Hvatningarorð sem þó eru af sama meiði.
Á fundum, smáum og stórum, innandyra og utandyra,  á fjöldasamkomum sem haldnar eru um heiminn allan, hljóma í dag, hinn fyrsta maí - á baráttudegi verkalýðsins - kröfur um réttlátara þjóðfélag.

Það er vel við hæfi að lögreglumenn komi saman undir þaki kirkjunnar á þessum degi til fylkja sér um réttlæti og góðan málstað. Og  - um baráttuna fyrir hinum góða málstað.
Því vonin dugar okkur skammt - er án innihalds - ef við erum ekki tilbúin til þess að berjast; ef við erum ekki sjálf - hvert og eitt okkar - reiðubúin að beita okkur í þágu hins góða málstaðar. Þarna er fólginn neistinn sem glæðir lífsvonina; neistinn sem kveikir bál uppbyggilegrar og ábyrgrar lífsbáráttu. Þetta á að vera - og er - inntakið í þessum degi.

Sem þjóð heyjum við nú saman stranga lífsbaráttu.
Hvernig gerum við það best?
Við gerum það með gamla laginu, því lagi sem reyndar er sígilt, bæði gamalt og nýtt : Við gerum það með því að leggjast saman á árarnar. En til að leggjast saman á árarnar þurfum við að vera á sama bátnum. Ekki sum á skektum, önnur á lystisnekkjum. Slíkar áhafnir verða seint samhæfðar í áralaginu. Verkefnið nú, eftir áratugi aukinnar misskiptingar, er að koma öllum á sama bátinn, þannig að saman getum við lagst á árar,
þannig að við finnum með okkur hvöt til að leggjast saman á árarnar. Sundrað samfélag misskiptingar finnur ekki slíka hvöt.

Í stað þess að setja þak á hámarkslaun, eða gólf undir lægstu laun, ættum við að bindast fastmælum um að hæstu laun verði aldrei hærri en þreföld lægstu laun. Kjarabætur eins hefðu þannig áhrif á kjarabætur annars.
Verkefni stjórnmálanna - stéttarfélaganna; verkefni atvinurekendasamtaka,
verkefni okkar allra, er nefnilega sanngjörn og réttlát skipting gæðanna, launakjara sem annarra lífsgæða.
Verkefni kjarabaráttunnar hefur í mínum huga aldrei snúist um það eitt að hækka laun heldur um jafnvægi; jafnvægið í kjörum, jafnvægið almennt í samfélaginu, inni á vinnustaðnum og utan hans; að jafnvægi og jafnræði ríki með þeim sem hafa völd og fjármagn á hendi annars vegar og hins vegar hinna, sem hvorugt hafa. Hvorki fjármagnið né valdið. Þannig fá allir haldið mannlegri reisn.
Sólkonungurinn franski, Lúðvík 14., hafði hvorki sturtu né ísskáp. Hann gat heldur ekki ferðast í lyftu á milli hæða í Versölum. Að því leyti bjó hann við lakari kjör en sjö barna faðirnn á sjöundu hæð í Heimunum. Sólkonungurinn lifði hins vegar í lystisemdum í samanburði við sína smatíðarmenn. Það gerir sjö-barna-faðirinn í Heimunum hins vegar ekki. Og það er samanburðurinn í samtímanum sem öllu máli skiptir.
Ég krefst fullkominnar heilbrigðisþjónustu sagði maðurinn úti í eyðimörkinni og allir skildu  fáránleika kröfu hans. En jafnframt er þó ljóst að mannréttindi verða ekki skilgreind á mælikvarða ríkidæmis, ekki heldur samhjálp og jafnvel velferð. Hún er skilgreind og mæld á kvarða réttlætis. Fátækt samfélag getur verið réttlátt samfélag.

Þar sem verkalýðshreyfingu og ábyrgum félagslegum öflum hefur tekist best til í baráttu sinni hér á landi er að byggja upp velferðarkerfi sem tekur hinum sjúka og hinum vanmáttuga opnum örmum og öllum eins. Mismunar ekki. Stöndum vörð um þetta kerfi. Sá sem misst hefur heilsuna eða á veikt barn eða fatlað, aldraða ósjálfbjarga foreldra, hann eða hún veit hvers virði hlýr samfélgsfaðmur er.
Það vita þau líka sem standa úti á berangri, öryggislaus, háð eiturlyfjum eða myrkum öflum.

Í vetur kom ég í sjónvarpsþátt til að segja frá föðurnum sem komið hafði til mín að segja mér frá hlutskipti barnsins síns. Það hafði ánetjast eiturlyfjum og var fíknar sinnar vegna komið í skuld. Faðirinn var í góðum efnum. Hann fékk heimsókn. Erindið var að tilkynna honum hve háa fjárhæð hann ætti að borga til að barnið hans yrði óhult.

Upplýsingar á borð við þessar urðu þess valdandi að ég fór að leggja eyrun við varnaðarorð lögreglu um að ofbeldisglæpir og skipulögð glæpastarfsemi væri að færast í vöxt. Ég ákvað að gera allt sem í mínu valdi stæði til að sporna gegn þessari þróun. Og - að standa með unglingnum sem orðinn var ósjálfsbjarga í hrammi glæpaafla. Ég hét því að ég skyldi standa með honum og fjölskyldu hans, minnugur þess að mannréttindaþjóðfélag rís því aðeins undir því sæmdarheiti að þar sé allt gert sem  unnt er til að tryggja þegnunum skjól og öryggi.
Eftir að ég sagði sögu hinnar ógæfusömu fjölskyldu fékk ég fleiri heimsóknir og upphringingar, að vísu voru þeir til sem vildu ekkert af þessu vita og töluðu frásögn mína niður. En það gerðu þau ekki foreldrarnir sem skrifuðu mér og sögðu frá afdrifum síns barns. Í bréfi þeirra segir:

Dóttir okkar lést síðasta sumar vegna of stórs skammts af fíkniefnum. Hún var enn ung að árum. Við höfðum barist með henni frá fjórtán ára aldri við þessa fíkn - fylgt henni í fjölmargar meðferðir og barist fyrir henni í kerfinu. .. Hún var aðeins 13 ára gömul þegar hún lenti í fullorðnum manni sem lokkaði hana til fylgilags við sig í gegnum netið ... Nú erum við að takast á við sorgina. Við horfum yfir sviðið á þennan heim sem hún einu sinni tilheyrði - heim þar sem hún fór á bólakaf og náði ekki að spyrna sér upp aftur... Það er rétt sem þú segir að alltof margir fjölmiðlamenn taka drottningarviðtöl við þekkta ofbeldismenn og gera úr þeim "hetjur". En þessi meinti hetjuskapur er í því fólginn að ná tangarhaldi á barnungum stúlkum, taka þær út úr sínum félagshópum, koma þeim í bestu partýin, nýta sér þær kynferðislega, gefa þeim dóp, föt og mat. Þegar þeir svo verða leiðir á þeim eru þær sendar út á guð og gaddinn. Eftir standa þær varnarlausar, komnar út úr sínum upprunalega félagshópi, hafa lent í áföllum sem þær sjá enga leið út úr nema deyfa sig með dópi. Það er erfitt fyrir þessar stúlkur að fóta sig á nýjan leik í lífinu. Og svo heldur hringekjan áfram...ný fórnalömb, nýr harmleikur. Af okkar hálfu er þetta bréf skrifað sem hvatning, til að hvetja þig áfram í þessari lífsauðsynlegu baráttu.

Lögreglan er spegill á sérhvert samfélag. Lögreglan og réttarekfið sem hún er hluti af - gefur  innsýn í það hvernig samfélag hugsar, hvort það er umburðarlynt, hvort það er sanngjarnt og réttlátt eða ofbeldisfullt og ranglátt. Íslenska lögreglan hefur alla tíð verið fráhverf því að bera vopn nema í ítrustu neyðarvörn, og frá kynnum mínum af Landssambandi lögreglumanna um áratugaskeið þekki ég vel hina félagslegu réttlætistaug lögreglumanna og hvernig þeir vilja samsama sig því besta í sínu samfélagi.

Og þannig á það að vera. Lögreglan á að vera umboðsmaður okkar allra sem viljum friðsamt og réttlátt þjóðfélag. Hún hefur það hlutverk að vernda okkur hvert og eitt fyrir hættum og ofbeldi, sem við ein á báti eða úti á nístingsköldum berangri, einsog unga stúlkan - sem ég vísaði til - erum of máttvana til að fást við einsömul. Ætlunarverk lögreglu er að vera andstæðingur siðleysis, svika og ofbeldis, á sama hátt og við öll viljum vera andstæðingar siðleysis, glæpa og ofbeldis. Lögreglan er þannig ekkert annað en við öll. Spegilmyndin af okkur.

Þó gerum við meiri kröfur til lögreglunnar en allra annarra. Því lögreglunni felum við vald umfram alla aðra  og slíkt vald er alltaf vandmeðfarið. Líka valdið sem til er stofnað í góðum tilgangi, vald til að berjast gegn ofbeldi og vernda samfélagið. Vald kallar því á aðhald. Því meiri heimildir sem lögreglu eru veittar þeim mun meira eftirlit þarf lögreglan sjálf að þola. Sá sem hefur mikið vald verður að þola mikið eftirlit. Þetta veit lögreglan og kallar sjálf eftir aðhaldi, innan frá með sjálfsaga og utanfrá með ákalli um traustan lagaramma og opna stjórnsýslu. Þegar rannsóknarheimildir hefur borið á góma hef ég fengið ströngustu kröfurnar um að aðhalds verði gætt frá lögreglunni sjálfri.

Þegar ég lét af formennsku í  BSRB, í október árið 2009, fyrir rúmu ári síðan, hélt ég ræðu þar sem ég sagði litla sanna sögu sem varpar ljósi á sýn lögreglunnar á sjálfa sig og viðhorf samfélagsins til lögreglunnar. Orð mín voru á þessa leið:
"Íslendingar standa frammi fyrir miklum erfiðleikum þar sem við þurfum á því að halda að leita góðrar sáttar. Við sáum í vetur leið hve nærri við vorum því, og erum kannski enn, að friðurinn í þjóðfélaginu sé rofinn. Eldar loguðu við Alþingishúsið. Ég minnist þess eitt örlagakvöldið að ég var í beinni útsendingu í sjónvarpi. Hrópin heyrðust að utan. Eggjum var hent í rúður þinghússins. Svo kom grjótið. Hönd fréttakonunnar sem hélt um hljóðnemann titraði. Loft var lævi blandið. Að loknu viðtalinu gekk ég að glugga sem veit út á Austurvöllinn. Við hlið mér stóð öryggisvörður, félagi minn í BSRB. Fyrir neðan okkur voru lögreglumenn með hjálma og skildi - og tárags. Því hafði verið beitt kvöldið áður. Allir í viðbragðsstöðu. En  þegar grjótkastið tók að beinast að lögreglumönnunum - þá gerðist það. Hópur fólks tók sig út úr mannfjöldanum og myndaði mannlegan varnarmúr frammi fyrir lögreglunni. Hið ósagða lá í augum uppi. Sá sem grýtir lögregluna grýtir mig. Lögreglumennirnir lögðu skildina frá sér. Ég gleymi því aldrei þegar félagi minn við gluggann - öryggisvörðurinn - sagði og ég heyrði klökkvann í röddinni: Guði sér lof. Við erum komin aftur heim. Við erum komin aftur heim til Íslands."

Og hér ætlum við að eiga heima. Við ætlum að gera það besta úr þeim efnum sem við höfum. Við skulum ekki gleyma því hver við erum og hvernig okkur hefur í aldanna rás tekist að sigrast á erfiðleikum - stundum erfiðleikum sem virst hafa óyfirstíganlegir.

Við erum lítil þjóð í stóru landi. Við höfum búið hér í meir en þúsund ár. Ein kynslóð fer og önnur kemur í staðinn. Og árnar renna í sjóinn nú sem endranær og sólin rís og sólin hnígur til viðar nú einsog ávallt áður. Og Norðurljósin leika sér á himninum einsog fyrir þúsund árum.
Og vitundin um þetta á að veita okkur þúsund ára ró í beinum okkar.

Við höfum séð atvinnuhætti breytast og valdakerfi rísa og valdakerfi hrynja. Við höfum séð hugmyndakerfi læsa sig um huga okkar og við höfum fleygt hugmyndakerfum einsog rusli á hauga. Við höfum séð fátækt og við höfum séð ríkidæmi. Við höfum séð misrétti og óréttlæti og við höfum séð samstöðu og samúð.

Tíminn -
hann er
undarlegur náungi

segir í ljóði Gyrðis Elíassonar

Hann gengur um
með grösin sín
í poka um öxl
og leggur við
djúp sár

Janúarblómstur,
febrúarlilju,
marsklukku,
aprílurt,
maígresi -

Alltaf sömu jurtirnar
aftur og aftur

Og kuflinn hans
er ofinn á víxl
úr ljósum
og dökkum
þráðum


Við höfum verið frjáls og við höfum verið ófrjáls. Við höfum barist og við höfum beðið ósigur. Og við höfum barist og við höfum haft sigur.
Nú fyrir aðeins tveimuroghálfu ári biðum við ósigur. Næstum algeran ósigur. Næstum gereyðingu. Við vorum rænd, blekkt, afsiðuð, afmenntuð. Gyðja réttlætisins var höggvin niður og sál og hjarta þjóðarinnar voru kramin. Við þurftum að lúta í duftið. Okkar veikleiki var mikill. Og okkar veikleiki er mikill.

En sömu árnar renna til sjávar sem aldrei fyllist og sömu fjöllin rísa í glæsileika sínum, böðuð sól og fönnum skreytt. Og við erum enn að kljást við ranglæti, misskiptingu, ofbeldi og skort á samúð og kærleika. Þetta er eilíf barátta. Og þessi barátta er sjálf lífsbaráttan.

En í  veikleika okkar birtist vonin.
Lærisveinarnir horfðu á Jesú krossfestan og við það slokknaði vonin í brjósti þeirra. En þegar allt var svart og tapað, birtist hann þeim, vaknaður til nýs lífs.
Ljósið er alltaf skammt  undan. Þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Ef við viljum það. Því viljinn er bróðir vonarinnar og það er hann sem við þurfum að finna og rækta og efla. Vonin kallar á viljann. Og í dag áréttum við vilja okkar til að berjast fyrir betra og réttlátara þjóðfélagi.

Nú þurfum við öll, hvar í flokki sem við stöndum, að sameinast í baráttu gegn misskiptingu.
Hún má ekki festast í sessi. Við eigum að strengja þess heit að uppræta fátækt og sjá til þess að enginn líði skort, að enginn sé niðurlægður vegna aðstæðna sinna, að engin börn séu alin upp í skugga heldur í birtu. Við lyftum því verkefni ekki hvert í sínu lagi. Þar verða allir að taka þátt. Það er hugsunin að baki 1. maí. Það er samstöðuhugsunin. Það er trúin á að við getum skapað réttlátt samfélag.
Það er trúin á réttlætið.
Það er trúin á hið góða.
Í þeirri trú er ég sannfærður.
Til hamingju með daginn.

Sjá frétt mbl.is þar sem einnig er að finna mynd Kristins sem birt er hér að ofan: http://mbl.is/frettir/innlent/2011/05/01/logreglumessa_i_neskirkju/

ennfremur: http://mbl.is/frettir/innlent/2011/05/01/haestu_laun_verdi_threfold_laegstu_laun/

http://www.pressan.is/Frettir/LesaFrett/fraegir-ofbeldismenn-na-taki-a-barnungum-stulkum-gefa-dop-nota-kynferdislega-og-henda

http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/27125

http://silfuregils.eyjan.is/2011/05/01/jafnvaegi-ogmundar/#comments

http://eyjan.is/2011/05/01/ogmundur-komum-ollum-i-sama-batinn-haestu-laun-verdi-threfold-laegstu-laun/

Fréttabréf