Fara í efni

NÓG TIL AF GUMMÍSKÓM OG RÖRTÖNGUM

Homo sapiens, tegundarheiti okkar mannanna, hinn hugsandi maður, var heitið á útvarpsþætti  Valgarðs Egilssonar á Rás 1 í Ruv í dag. Skemmtilegur þáttur og umhugsunarverður.
Tvennt stendur uppúr í mínum huga eftir að hlýða á þáttinn; að okkur stafar hætta af stöðlunaráttu samtímans og að efnishyggjuþjóðfélagið er eyðileggjandi og byrgir sýn á raunveruleg verðmæti.

Ákall Valgarðs fyrir grunngildum sem auðga andann en ganga þvert á efnishyggju samtímans, var sannfærandi. Efnishyggju „stórkapítalsimans"  kallaði hann  „hámarksafurðarstefnuna" og tefldi gegn henni húmanisma sem hann nefndi hina „frjóu lífsnautnastefnu". Þar sótti hann hugtök og ínspírasjón í listaskáldið góða,Jónas Hallgrímsson.
Ég fletti upp í Jónasi og fann þar í ljóði hans um séra Stefán Pálsson, tvö erindi þar sem hann minnir okkur á að lifa lífinu lifandi, að ungur maður geti öðlast meiri og dýpri reynslu en „svefnugur" öldungur geri á langri ævi. Í ljóðinu er að finna vísan í „lífsnautnastefnuna", sem Valgarði Egilssyni varð tíðrætt um í útvarpsþætti sínum.

Hvað er skammlífi?
Skortur lífsnautna,
svartrar svefnhettu
síruglað mók;
oft dó áttræður
og aldrei hafði
tvítugs manns
fyrir tær stigið.

Hvað er langlífi?
lífsnautnin frjóvga,
alefling andans
og athöfn þörf;
margoft tvítugur
meir hefir lifað
svefnugum segg
er sjötugur hjarði.

Valgarður minnti okkur á hve mikilvægt það sé fyrir homo sapiens að fara vel með takmarkað vit sitt! Alvarlegar hættur steðji að manneskjunni og heiminum sem hún byggir: Svo sem hlýnun jarðar, mengun, skortur á vatni, kjarnorkuváin, stríð og hryðjuverk en gegn þeim dugi best jöfnuður og mannúððarstefna. Vel mælt!
Margt annað var vel sagt í þessum þætti og margt sem mikilvægt er að hugleiða af mikilli alvöru: Þannig berum við sömu erfðaefni og upplag okkar frá náttúrunnar hendi er nákvæmlega sama og villimanna og grimmdarseggja fortíðar. Villimenn fortíðarinnar, sagði Valgarður, eru nákvæmlega sömu gerðar og við hvað erfðaefnin snertir.  Það sem við helst þurfum á að halda sé að vera meðvituð og gagnrýnin á eigin gjörðir.
„Nýi skólinn" í menntakerfi framtíðarinnar, sem Valgarður vill sjá þróast, kennir nemendum sínum „að véfengja" allt það sem á borð er borið af hálfu fjölmiðla og fræðimanna í stað þess að láta mata sig í þágu helkaldrar markaðshyggju. Hún  sé búin að framleiða nóg af gummískóm og rörtöngum! Og ef okkur á að takast að forðast grimmdarverkin þá þurfum við að vera gagnrýnin og vakandi.
Undir lok þáttarins flutti Valgaður hugleiðingu um hvað lífið hefði upp á að bjóða ef menn aðeins kæmu auga það, lifðu lífinu lifandi í anda Jónasar Hallgrímssonar. Og hann tók ofan fyrir Attenborough og Ómari fyrir að kynna okkur undur náttúrunnar. „Fegurð náttúrunnar á enginn", sagði Valgarður Egilsson, „ við eigum aðeins rétt á að verða vitni að henni."
Á einni klukkustund tókst Valgarði Egilssyni að brydda upp á ótal hugmyndum sem hér verða ekki raktar. Honum tókst að vekja mig af höfginni sem fylgir páskahelginni.  Tilefni þessa pistils er fyrst og fremst að þakka fyrir mig.